„X var sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa átt í kynferðissambandi við sambúðarbarn sitt, A, á tæplega tveggja ára tímabili er hann var 16 til 17 ára,“ segir í útdrætti dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjaness og var staðfestur af Landsrétti í dag.
Konan, sem er á þrítugsaldri, var dæmd í tveggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn pilti á árunum 2015 til 2017, en pilturinn var 16 til 17 ára gamall yfir tímabilið sem brotin áttu sér stað. Pilturinn er sonur fyrrum sambýlismanns konunnar, en konan er sex árum eldri en pilturinn.
Konan var jafnframt dæmd fyrir rangar sakagiftir, en það var hún sem upphaflega kærði piltinn og sagði hann hafa nauðgað sér ítrekað og áreitt sig kynferðislega á þessu tveggja ára tímabili.
Fyrst um sinn tók pilturinn á sig alla sök og játaði að hafa brotið á konunni. Þegar hann fór svo til Stígamóta og var lagður inn á geðdeild komust sérfræðingar þar fljótlega að þeirri niðurstöðu að pilturinn væri ekki gerandi í málinu, heldur brotaþoli.
Geðlæknir sem annaðist piltinn trúði ekki frásögnum hans af því að hafa nauðgað konunni og að lokum viðurkenndi pilturinn að þau hefðu átt í ástarsambandi sem hún hefði átt jafn mikið frumkvæði að og hann sjálfur. Hjá Stígamótum var einnig bent á að frásögn piltsins um að hafa nauðgað konunni gæti ekki passað.
Dóm Héraðsdóms Reykjaness, sem staðfestur var í Landsrétti, má lesa hér.