Endurskoðunarfyrirtækið KPMG skilaði úttekt sinni á greiðslum til Jóns Jónssonar, fyrrverandi nefndarmanns í hreppsnefnd Strandabyggðar en niðurstöðurnar verða birtar á vefsíðu sveitarfélagsins í vikunni.
Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri Strandabyggðar staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Mannlíf sagði frá því fyrr á árinu að þjóðfræðingurinn og ferðaþjónustubóndinn Jón Jónssson á Kirkjubóli á Hólmavík, hafi krafist þess að þær þungu sakir sem á hann voru bornar af starfsfólki Strandabyggðar yrðu rannsakaðar en var hann meðal annars sakaður um að draga að sér fé.
Sjá einnig: Jón vill láta rannsaka meinta glæpi sína: „Þetta er hálfgert örþrifaráð“
Samkvæmt Salbjörgu skilaði KPMG úttekt sinni í morgun og að bæði Jón og sveitarstjórn Strandabyggðar séu komin með skýrsluna í hendur. Þá verður skýrslan kynnt á fundi sveitastjórnarinnar á þriðjudaginn eftir viku.
Í júní síðastliðnum sagði Jón frá því að „lykilstarfsmenn“ Strandabyggðar hefðu sakað hann um að hafa dregið að sér 61.423.961 kr. úr sveitarsjóði er hann sat í hreppnefnd á síðasta kjörtímabili.
Jón, sem er þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, sagði í sumar að lykilstarfsmenn sveitarfélagins hefðu sakað sig um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins.