Föstudagur 24. mars, 2023
-0.2 C
Reykjavik

Kristinn minnist Eiríks Guðmundssonar: „Þó var alltaf stutt í prakkaralegt glottið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Rithöfundurinn og útvarspmaðurinn dáði, Eiríkur Guðmundsson verður jarðsunginn í dag. Margir vinir og samstarfsmenn hans minnast hans á samfélagsmiðlum í tilefni jarðarfararinnar. Einn þeirra er fyrrum samstarfsmaður hans á Rúv, Kristinn Pálsson. Gaf hann Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta hin fallegu minningarorð hans um Eirík.

„Alveg er hún óbærileg sú tilfinning að þurfa að sætta sig við að sá góði drengur og frábæri útvarpsmaður Eiríkur Guðmundsson hafi kvatt þessa tilvist allt of snemma en í dag verður hann jarðsunginn frá Hallgrímskirkju.

Ég kynntist Eiríki upphaflega seint á níunda áratugnum og þá í gegnum sameiginlega vini sem stunduðu nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Eftir að ég hóf störf hjá RUV, á fyrsta áratug þessarar aldar, þá lágu leiðir okkar oftar saman á sérlega gefandi og skemmtilegum vinnustað. Þar var hann t.d. ófeiminn við að hvetja mann áfram og mæra þáttagerð mína fyrir Rás 2 og jafnvel í heyranda hljóði.
Eiríkur var einstaklega yfirvegaður og hlýr persónuleiki þar sem þó var alltaf stutt í prakkaralegt glottið. Þessi einkenni skiluðu sér vel í gegnum útvarpið og eru þar hvað minnisstæðstir meitlaðir mónólógarnir eða einræðurnar sem gjarnan hljómuðu við upphafið á Víðsjá á Rás 1. Almennt séð var Eiríkur ekki mikið fyrir að feta troðnar slóðir á öldum ljósvakans og var sífellt leitandi í ferskum umfjöllunarefnum sem vörpuðu skýru ljósi á samtímann hjá öllum aldurshópum. Hann var t.d. einn af helstu arktektum þess frábæra þáttar Lestarinnar á Rás 1, en þar hafa efnistökin þó ósjaldan hrist duglega upp í eldri hlustendum gömlu gufunnar. Eiríkur Guðmundsson bar á vissan hátt með sér framsækinn andblæ pönksins inn í þessa rótgrónu ríkisstofnun enda var hann seinþreyttur við að leika og fjalla um t.d. tónlistarflytjendur sem áður þóttu ekki miklir auðfúsugestir á Rás 1. Þið hlustendur skiljið vonandi hvað ég meina.

Enginn var eins og Eiríkur Guðmundsson og hvíl í friði, góði maður.“

Eiríkur verður jarðsunginn í Hallgrímskirkju í dag klukkan 13.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -