Þriðjudagur 25. janúar, 2022
4.8 C
Reykjavik

Kristján Eldjárn: „Aldrei dottið í hug að segja að íslenska væri fallegasta tungumál í heimi“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Á þessum degi 6. desember árið 1916 fæddist Kristján Þórarinsson Eldjárn. Hann var fornleifafræðingur og þriðji forseti Íslands árin 1968 – 1980. Hann lauk fyrrihlutaprófi í fornleifafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og lærði síðan íslensk fræði við Háskóla Íslands.

Kristján ásamt Jóhanni Svarfdælingi

Í ævisögu Kristjáns sem skrifuð var af Gylfa Gröndal er sagt að hann hafi sameinaði öðrum betur íslenskan alþýðleik og látlausa reisn heimsmannsins.

Kristján lauk doktorsprófi árið 1957 og nefnist ritgerð hans Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi.

Kristján var þjóðminjavörður og þjóðþekktur og vinsæll maður vegna þátta sinna í sjónvarpi um fornar minjar og muni í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann var hispurslaus og alúðlegur í framgöngu og ávann sér miklar vinsældir þjóðarinnar. Hann sigraði mótframbjóðanda sinn, Gunnar Thoroddsen, í kosningunum 1968 með miklum atkvæðamun og var sjálfkjörinn eftir það.

Þórarinn Eldjárn ræddi feril föður síns

„Hann þessi fyrsti forseti sem kom úr mennningarlífinu, ekki stjórnmálalífinu, lenti í erfiðari stjórnarmyndunum heldur nokkur annar forseti fyrr og síðar,“ sagði Þórarinn Eldjárn, sem árið 2016 ræddi á Morgunvaktinni á Rás 1, feril föður síns, Kristjáns Eldjárns, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hans.

Þórarinn sagði tímana breytta. „Stundum var erfitt að ná í þessa menn sem áttu að vera mynda stjórnir. Þeir voru í sumarbústöðum og ekki voru nú gemsarnir eða menn þenjandi sig á Facebook og Twitter.“

- Auglýsing -

Arfleifð Kristjáns Eldjárns er margbrotin en hann var fjölhæfur. Kristján var forseti, fornleifafræðingur, norrænufræðingur, rithöfundur, skáld. Og í tilefni af aldarafmælinu árið 2016 var doktorsritgerð hans gefin út í þriðja sinn, endurbætt í ritstjórn Adolfs Friðrikssonar, sem staðhæfir að meginniðurstöður Kristjáns frá þvi um miðja síðustu öld standi óhaggaðar.

Honum þótti vænt um tungumálið

Þórarinn Eldjárn rifjaði upp störf föður síns sem fornleifafræðings, ritfærni hans og áhuga á tungumálum.

„Hann skrifaði mjög fallega íslensku. Það var honum einhvern veginn eðlislægt. Og þó honum þætti svona vænt um tungumálið og væri upptekinn af því, þá hefði honum aldrei dottið í hug að segja að íslenska væri fallegasta tungumál í heimi.“

- Auglýsing -

Kristján var í hópi brautryðjenda í íslenskum vísindum og stóð fyrir uppbyggingu fornleifafræðinnar sem vísindagreinar. Hann kom víða við á ferli sínum sem vísindamaður og sinnti ekki eingöngu fornleifauppgrefti og formlegum embættisstörfum sem þjóðminjavörður, heldur brá hann sér í önnur gervi sem sérfræðingur á mörgum sviðum, svo sem listasögu, þjóðháttafræði og textafræði.

Kristján var mikilvirkur rithöfundur og skrifaði hundruð greina um fornleifar í dagblöð, ýmis tímarit og vísindarit. Í árdaga Ríkissjónvarpsins stýrði hann vinsælum fræðsluþáttum um sama efni og gaf út nokkrar bækur með liprum greinum um gripi og minjar, sem byggðust á frumrannsókn hans sjálfs hverju sinni.

Leiddist að skrifa oftar en einu sinni um sama efni

Þrátt fyrir að öðlast mikla yfirsýn með störfum sínum skrifaði Kristján aldrei yfirlitsrit um íslenska fornleifafræði, enda leiddist honum að skrifa oftar en einu sinni um sama efni. Það var honum hins vegar ögrun að glíma við lýsingar á forngripum og finna leiðir til að fjalla um fræðin á þjálan hátt og áferðafallegan. Kristján lagði ríka áherslu á útgáfu rannsókna, og var ritstjóri Árbókar hins íslenska fornleifafélags í marga áratugi, jafnvel löngu eftir að hann hafði verið kosinn í embætti forseta lýðveldisins 1968.

Kristján bauð sig fram í forsetakosningum Íslands árið 1968, en hann hafði verið tregur til að fara í framboð. Menn á borð við Eystein Jónsson, Lúðvík Jósepsson og Stefán Jóhann Stefánsson nauðuðu í Kristjáni að bjóða sig fram þar til hann lét loks til leiðast.  Þessir menn vildu fyrir alla muni forðast það að Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tengdasonur Ásgeirs Ásgeirssonar fráfarandi forseta, yrði kjörinn forseti. Gunnar mældist í fyrstu með langmest fylgi í skoðanakönnunum og þótti sjálfsagður arftaki Ásgeirs og Sveins Björnssonar á forsetastól.

Eftir að þeir Kristján lýstu báðir formlega yfir framboðum sínum breyttust vindarnir hins vegar fljótt. Kristjáni var stillt upp sem alþýðlegum menntamanni sem nyti nánari tengsla við land og þjóð en atvinnustjórnmálamaðurinn Gunnar. Á kjördag vann Kristján öruggan sigur gegn Gunnari með um tveimur þriðju atkvæða.

Sem forseti hafði Kristján jafnan ekki afskipti af stjórnmálum landsins og taldi sig ekki hafa rétt til þess að synja lögum staðfestingar nema í algerum neyðartilfellum. Kristján féllst á umdeilda beiðni Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra um þingrof árið 1974 þrátt fyrir að vafamál væri hvort forseta bæri skylda til þess að verða að ósk forsætisráðherrans um þingrof í óþökk alþingis.

Utanþingsstjórn

Þrátt fyrir að reyna að viðhalda hlutleysi forsetans í stjórnmálum neyddist Kristján til þess að grípa inn í stjórnarmyndunarviðræður árið 1979 eftir langa stjórnarkreppu og röð stuttlífra ríkisstjórna. Kristján gerði leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins ljóst að ef þeim tækist ekki að mynda ríkisstjórn sem gæti staðist vantrauststillögur á alþingi myndi Kristján beita forsetavaldi sínu til að stofna utanþingsstjórn.

Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri féllst á að vera forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar og Kristján undirbjó tilkynningu um stofnun hennar. Ekkert varð þó úr stofnun þessarar stjórnar því Sjálfstæðismenn féllust á síðustu stundu á að styðja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals. Þessi stjórn entist aðeins í tæpa fjóra mánuði og því kom það aftur til tals árið 1980 að Kristján skyldi stofna utanþingsstjórn. Stjórnarkreppunni lauk loks án þess að stofna þyrfti utanþingsstjórn þegar Gunnari Thoroddsen, hinum gamla keppinauti Kristjáns um forsetastólinn, tókst að mynda meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins.

Á nýársdag árið 1980 tilkynnti Kristján að hann hygðist ekki gefa kost á sér í fjórða sinn. Um þá ákvörðun sína sagði hann: „Enginn hefur gott af því að fara að komast á það stig að halda að hann sé ómissandi.“

 

Heimildir:

Adolf Friðriksson. 2011, 25. maí. Hver var Kristján Eldjárn og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? Vísindavefurinn. Slóðin.

Óðinn Jónsson. 2016, 6. desember. Allt kemur aftur. RÚV. Slóðin.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -