Kynþáttafordómar eru fastur liður í knattspyrnuheiminum og hafa verið frá upphafi. Sífellt fleiri dæmi hafa komið upp á yfirborðið í íslenska knattspyrnuheiminum undanfarin ár, hvort sem er í yngri flokkum eða meistaraflokki.
„Þetta var í rauninni fleira en eitt atvik en við heyrðum á honum eftir einn leik að þetta voru drengir á hliðarlínunni sem voru úr sama liði og hann var að keppa við. Þetta eru mörg lið frá hverju íþróttafélagi. Þeir voru að gera athugasemdir við hann sem vörðuðu uppruna hans. Welcome to Iceland og eitthvað annað sem hann sagði okkur ekki,“ sagði Ingvar Örn Sighvatsson, faðir 11 ára drengs sem varð fyrir kynþáttaníði á N1 mótinu á Akureyri, í viðtali á Rás 2 í morgun. Drengurinn á móður sem er svört en faðir hans er hvítur.
„Við höfum ekki verið að krefja hann um nákvæma lýsingu á því sem fram fer. Hann vill oft ekki tala um það. Ég fór þegar til mótsstjórnar og tilkynnti þetta. Þau brugðist vel við. Svo gerðist þetta aftur seinna á mótinu. Þá í rauninni kom hann til móður sinnar í tárum eftir leik sem þeir höfðu unnið. Það var fögnuður en hann var í tárum af því að það voru aftur athugasemdir tengdar uppruna hans eitthvað í þessum dúr. Ég veit ekki hvað það er en það skiptir kannski ekki máli,“ sagði Ingvar um málið.
„Við erum ekki að gera neitt til að uppræta þá, benda fólki á þá því það þarf átak til að takast á við þetta,“ sagði Ingvar sem vill að fólk opni augun gagnvart þessu vandamáli.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Ingvar hér