Fimmtudagur 2. febrúar, 2023
4.8 C
Reykjavik

Læknir ósáttur með Parkódín-umræðu: „Þúsundir Íslendinga eru með langvarandi verki“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Læknirinn Árni Tómas Ragnarsson er ósáttur við málflutning kollega síns og segir ljótt að hræða fólk frá því að nota Parkódín í hófi ef lyfið láti því líða betur.

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, hefur undanfarið komið fram í fjölmiðlum þar sem hann ræðir um að ótækt sé að Covid-19 sjúklingum sé ávísað verkjalyfinu Parkódíni. „Þvæla“ er orðið sem Hjalti Már hefur sjálfur notað. Hann birti fyrst færslur á Twitter um málið, en fór síðan í viðtöl við Fréttablaðið og svo í Kastljós, þar sem hann gagnrýndi þá ákvörðun Lyfjastofnunar að veita Covid-sjúklingum tímabundna heimild til þess að kaupa verkjalyfið Parkódín án lyfseðils. Heimildin hefur verið veitt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að mynda nýju vottorði sem sýnir fram á Covid-19 smit. Rökstuðningur fyrir heimildinni var meðal annars sá að Parkódín væri vel til þess fallið að slá á hósta Covid-sjúklinga og vegna mikils álags á Heilsugæsluna mætti með þessum hætti beina þeim Covid-smituðu einstaklingum beint í apótekin, sem einungis þurfa að leita til læknis til þess að fá Parkódíni ávísað vegna einkenna sinna.

 

Ópíóíði ætti ekki að vera ráð við hósta

Hjalti Már sagði meðal annars, í viðtali við Fréttablaðið, að notkun á Parkódíni við hósta væri gömul hefð sem að öllum líkindum væri ekki jafn gagnleg og talið hafði verið. Hann sagði nýjar rannsóknir styðja það.
„Í ljósi þess að við vitum líka meira núna um skað­semi ópíóíða finnst mér ekki að þetta eigi að vera ofar­lega á blaði sem ráð við hósta,“ sagði Hjalti Már í sam­tali við Frétta­blaðið á dögunum.

Árni Tómas er ekki ánægður með ummæli Hjalta Más, ef marka má nýjan pistil hans í Morgunblaðinu, og segir ýmislegt við málflutning hans að athuga. „Í fyrsta lagi að lækn­ir­inn, að ég held, hef­ur enga reynslu af því sjálf­ur að ann­ast sjúk­linga með langvar­andi verkja­vanda­mál. Í öðru lagi stíg­ur hann mjög bratt­ur fram og hræðir að óþörfu þær þúsund­ir Íslend­inga, sem nota lyfið til að stilla verki (og fleira).“ Hann segir Hjalta Má vísa til erlendra rannsókna sem sýni fram á gagnleysi Parkódíns, og að hann vísi til hættu á ávanabindingu. Árni Tómas segir nokkuð vera til í því, en ekki mikið.

 

Aldrei verið sýnt fram á skaðleg áhrif ráðlagðra skammta

- Auglýsing -

„Parkó­dín er sam­sett lyf, sem inni­held­ur að hluta til lyfið kó­dín, sem hef­ur verið notað í ára­tugi til að stilla verki. Það er eitt elsta verkjalyfið, sem enn er notað í dag og því mik­il reynsla kom­in á notk­un þess. Það hef­ur aldrei verið sýnt fram á skaðleg áhrif þess sé það notað í ráðlögðum skömmt­um, sem lang­flest­ir gera,“ segir Árni Tómas í pistlinum. Hann segir einungis örfáa einstaklinga ofnota lyfið en að flestir þeirra einstaklinga myndu finna sér önnur og skaðlegri lyf ef notkun Parkódíns væri bönnuð.

„Það væri voða gott ef eng­ir hefðu verki, sér­stak­lega ekki til langs tíma. En því miður er staðan ekki þannig. Þúsund­ir Íslend­inga eru með langvar­andi verki og finnst Parkó­dín lina þá. Þeir gefa lítið fyr­ir rann­sókn­ir sem sýna annað. Það er nefni­lega þannig að það er eng­inn, sem veit hvernig öðrum líður á sál og lík­ama en sá sem á þá sál og lík­ama. Og þar af leiðandi er eng­inn, sem veit hvað virk­ar best gagn­vart t.d. verkj­um, kvíða, þung­lyndi og svefn­leysi, nema þeir sem þurfa að búa við þá kvilla. Það er því miður svo að ör­lít­ill hluti fólks, sem er ávísað lyfj­um við þess­um kvill­um, get­ur leiðst út í of­notk­un þeirra.“

Árni Tómas slær því föstu að langflestir fari eftir settum leiðbeiningum um notkun lyfjanna og hljóti þar með engan skaða af. Hins vegar uppskeri viðkomandi aðilar mun meiri lífsgæði en áður, „sem við öll sækjumst eftir.“

- Auglýsing -

 

Segir það ljótt að hræða fólk

„Það er ljótt að hræða fólk frá því að nota lyf í hófi, sem því finnst sjálfu að því líði bet­ur af. Ég hef starfað sem lækn­ir í 50 ár og hef mikla reynslu af notk­un þess­ara lyfja og sára­sjald­an séð nei­kvæðar af­leiðing­ar af því að ég ávísi þeim til skjól­stæðinga minna. En for­dóm­arn­ir meðal margra lækna og al­menn­ings eru mikl­ir,“ segir Árni Tómas. Hann minnir á að fyrir árið 1940 hafi nánast engin lyf verið til á borð við þau sem við notumst við í dag.

„Aðeins gagns­laus­ar mixt­úr­ur, sem lækn­ar skrifuðu út til friðþæg­ing­ar skjól­stæðinga sinna. Um og eft­ir 1950 hófst „lyfja­bylt­ing­in“ – fund­in voru upp lyf við alls kyns sjúk­dóm­um og kvill­um, sem bættu líðan fólks eða forðuðu því frá bana. Við lif­um því góða tíma hvað lyf varðar, lyf sem hafa bætt líðan og lífs­lík­ur fólks í rúm 80 ár, – lyf, sem ekki voru til áður. Við erum hepp­in að vera uppi á þess­um tím­um, en ger­um okk­ur ekki alltaf grein fyr­ir því!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -