Landhelgisgæslan hefur leitt skipulagningu umfangsmikillar björgunaræfingar á Svalbarða alla vikuna.

Ljósmynd: lhg.is
Samkvæmt vef Gæslunnar hefur æfingin staðið yfir frá mánudegi til fimmtudags í þessari viku og hefur Landhelgisgæslan annast skipulagningu hinnar viðamiklu æfingar um borð í farþegaskipinu MV Quest undan ströndum Longyearbyen á Svalbarða. Er æfingin hluti af samstarfsverkefninu ASCSAR en í því tekur Landhelgisgæslan þátt ásamt öðrum björgunaraðilum, háskólum og einkafyrirtækjum. Evrópusambandið fjármagnað ARCSAR en er því ætlað að bæta öryggis og viðbúnaðarkerfi á norðurslóðum með rannsóknum og innleiðingu nýjunga.

Ljósmynd: lhg.is
Á æfingunni þessa vikuna var farið yfir vinnubrögð og starfsaðferðir skemmtiferðaskipa. Þá voru viðbrögð við slysi um borð í farþegaskipi æfð en ætlunin með æfingunni var að „auka lífslíkur þeirra sem um borð eru með samhæfðum aðgerðum þeirra sem koma að björgunarstörfum á norðurslóðum,“ líkt og það er orðað á vef Gæslunnar.

Ljósmynd: lhg.is
Þar kemur einnig fram að um borð í MV Quest hafi gefist einstakt tækifæri fyrir viðbragðsaðila og útgerða skemmtiferðaskipa til að stilla saman strengi með samræmdum aðgerðum. Gafst fulltrúum þessara fjölbreyttu samstarfsaðila afar mikilvægt tækifæri til að læra hver af öðrum og tryggja yfirveguð vinnubrgöð ef neyðarástand skapast um borð í farþegarskipi á norðurslóðum, að sögn Gæslunnar. Að æfingunni komu einingar frá norsku strandgæslunni, fulltrúar sýslumannsins á Svalbarða, áhöfn MV Quest, einingar frá björgunarstöðvum í Noregi og fjöldi annarra fyrirtækja og stofnana.

Ljósmynd: lhg.is
Þá voru 25 í áhöfn farþegaskipsins og ríflega 50 þátttakendur. Fulltrúar Gæslunnar voru fjórir, þau Auðunn Kristinsson, Hekla Jósepsdóttir, Snorre Greil og Anton Örn Rúnarsson.
