Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Langveikur 11 ára drengur safnar áheitum: „Mjög duglegur strákur, þrátt fyrir veikindin“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hinn 11 ára gamli Erik Valur hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu um næstu helgi og safnar áheitum fyrir góðgerðarsamtökin Mia Magic. Erik Valur er langveikur.

Hið árlega Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram næstkomandi laugardag, á Menningarnótt en þar safna hlauparar áheitum fyrir ýmiskonar góðgerðarsamtök.
Erik Valur Kjartansson er einn þeirra en hann mun hlaupa svokallað skemmtiskokk en það eru þrír kílómetrar. Erik er langveikur en eldri bróðir hans, Jón Sverrir, sem einnig er langveikur hefur hlaupið í nokkur skipti í hlaupinu og mun Erik hlaupa bróður sínum til heiðurs.

Hleypur fyrir bróður sinn

Bræðurnir eru báðir með sjúkdóminn CVID eða Common variable immunodeficiency sem er einhversskonar ónæmisgalli og þurfa þeir að fara í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti. Jón varð 18 ára nýlega en fær undanþágu til að fara í síðustu lyfjagjöfina sína með bróður sínum á Barnaspítalanum á næstunni. Af þeim sökum ætlar Erik að verðlauna stóra bróður sinn öll skiptin sem hann hefur hlaupið og hlaupa sjálfur til styrktar Mia Magic. Mamma þeirra, Þórunn Eva G Pálsdóttir stofnaði samtökin árið 2021 en hún gaf út bókina Mía fær lyfjabrunn ásamt Bergrúni Írisi Sævarsdóttur, í þeim tilgangi að hjálpa börnum sem þurfa á lyfjabrunni að halda. Og nú stefnir Þórunn Eva á að gefa út aðra Míu bók, Mía fer í Tívolí. Hlaupastyrkur Eriks fer í að kosta útgáfu bókarinnar en stefnt er á að hún komi út fyrir jól.

Jón Sverrir
Ljósmynd: Aðsend

Mannlíf heyrði í bræðrunum Erik og Jóni og spjallaði við þá um hlaupið og þann styrk sem þeir finna hjá hvorum öðrum.

- Auglýsing -

„Ég ætla að hlaupa þrjá kílómetra,“ sagði Erik þegar blaðamaður Mannlífs spurði hann út í hlaupið. „Hann er mjög virkur, hefur ekki hlaupið áður í maraþoninu en er mjög duglegur strákur, þrátt fyrir veikindin,“ segir Jón Sverrir um litla bróður sinn.

Falleg fjölskylda
Ljósmynd: Aðsend

Markmið Eriks er að safna 250.000 en þegar þetta er ritað hefur þegar náðst að safnast 52% af þeirri upphæð. Eru bræðurnir ekki bjartsýnir á að þetta náist fyrir hlaupið?
„Jú, við erum mjög bjartsýnir á þetta, það eru fleiri hlauparar að hlaupa fyrir Míu Magic samtökin og mér sýnist þeir flestir vera búnir að ná markmiðum sínum. Mér finnst þetta ganga mjög vel en hver styrkur hjálpar voða mikið,“ sagði Jón Sverrir og Erik tók undir.
Sjálfur hefur Jón hlaupið nokkrum sinnum áður í Reykjavíkurmaraþoninu. „Já, ég hef hlaupið nokkrum sinnum fyrir Einstök börn en það eru komin nokkur ár síðan síðast.“

Duglegir að hvetja hvorn annan

- Auglýsing -

Á hlaupastyrkssíðu Eriks má sjá ljósmyndir af honum en á einni þeirra heldur hann á þremur bikurum. „Fyrir hvað eru þeir?“ spurði blaðamaður Erik.

„Þeir eru fyrir badminton, ég er þrefaldur Íslandsmeistari í badminton,“ svaraði Erik og Jón Sverrir bætti við: „Já, hann er allur í badminton og golfi,“ greinilega stoltur af litla bróður.

Bræðurnir eru góðir vinir.
Ljósmynd: Aðsend

Nú styttist í að þeir bræður fari í sína síðustu lyfjagjöf saman á Barnaspítalanum þar sem Jón Sverrir varð nýlega 18 ára gamall. Bræðurnir segjast finna fyrir miklum stuðningi vegna hlaupsins hjá bekkjarfélögum og vinum. „Það eru mjög margir, til dæmis í skólanum mínum, sem vita af bókinni en ég fór með hana á bókasafnið í skólanum mínum og það eru mjög margir búnir að lesa hana og koma til mín og spyrja mig hvað þetta er og fleira,“ sagði Erik glaður í bragði. Blaðamaður spyr hvort þeir bræður styðji ekki líka hvorn annan. „Jú, við erum mjög duglegir að hvetja hvorn annan áfram,“ svaraði Jón og Erik tók vel undir það.

Aðspurðir hvort hann sé ekki spenntur fyrir hlaupinu sagðist Erik vera það. „Jú, mjög spenntur! Ég ætlaði að hlaupa 5 kílómetra ef það væri hægt en það er bara hlaupið í þrjá kílómetra, 10, 21 og 42 kílómetra. Ég ákvað þá að taka hlaupa bara aðeins minna og fara þrjá kílómetra.“

En hafa bræðurnir einhver sérstök lokaorð fyrir lesendur Mannlífs?

„Já, bara, endilega styðjið mig í hlaupinu,“ svaraði Erik.

Þeir sem vilja styrkja þennan duglega strák geta lagt inn hlaupastyrk hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -