„Eina sem ég hugsaði var að ég ætlaði að fá mér pönnupítsu á Dominos, ég varð að fá pönnupítsu,“ segir Jelena í samtali við Mannlíf. Hún varð fyrir óhugnalegri reynslu um helgina þegar hún villtist á göngu við fossinn Glym. Ganga sem átti að vera tveir tímar varð að tólf klukkutíma lífsbaráttu. Hún hóf ferðina í góðu veðri en þegar upp var komið skall á þoka og óveður.
Jelena lagði af stað um klukkan fjögur á föstudaginn en fannst ekki aftur fyrr en klukkan 11 morguninn eftir. Hún hafði fengið bíl að láni hjá föður sínum og þegar hún hafði ekki skilað honum um kvöldið fóru fjölskylda hennar og vinir að hafa áhyggjur. Hún segir þrjóskuna hafa bjargað sér en hún gekk um 15 kílómetra áður en vinir hennar fundu hana. „Mig langaði oft að setjast niður en ég vissi að þá væri ég bara búin. Fólk verður oft úti á því að setjast og hvíla sig í svona aðstæðum.“

Ekkert símasamband var á svæðinu. Jelena hefur farið víðsvegar í göngur en segist aldrei hafa upplifað aðrar eins aðstæður. Engar stikur merktu leiðina, jarðvegurinn gaf undan og færðin var erfið. Hún segir svæðið vera vanrækt og hreina dauðagildru. Að hennar mati ætti að vera lokað fyrir gönguleiðirnar á veturna. Ung kona lést við Glym í síðasta mánuði þegar hún féll 190 metra en svæðið er talið einkum fallegt og nýtur mikilla vinsælda.
Aðspurð um líðan sína eftir þessa lífshættulegu reynslu segist hún furðu hress.
„Það var sandfok og ég fékk sand í augun. Hornhimnan í öðru auganu rifnaði. Ég finn ekki ennþá fyrir tánnum. Ég held að ég fari ekki í aðra göngu á næstunni.“