Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Lenya spyr hvers vegna Sigmundi er hleypt í útvarpið: „SDG er að reyna að búa til fasískt fylgi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, spyr á Twitter hvers vegna rætt er við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í útvarpinu. Hún segir nýjasta útspil hans sé að reyna að flytja til Íslands hatursorðræðu í garð transfólks frá Bretlandi og Bandaríkjunum.

Sigmundur Davíð karpaði við fyrr í dag við Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinar, í Sprengisandi Heimis Karlssonar á Bylgjunni. Mest rifust þau um málefni transfólks, nýjustu skotspón menningarstríðs Vesturlanda.

Lenya skrifar: „Afhverju er yfir höfuð verið að gefa Sigmundi Davíð platform til að koma sínum skaðlegu og misvísandi skoðunum á framfæri? SDG sér að fasismi og hatursorðræða í garð trans fólks er að virka meðal íhaldssamra pólitíkusa í BNA og Bretlandi og vill nýta sér þessa pólitík á Íslandi.“

Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrú Pírata, tekur undir og segir þetta furðu augljóst hjá Sigmundi. „Já, hann segir þetta meira að segja beint út sjálfur. Vísar alltaf í erlenda umræðu og kvartar yfir því að það sé minni umræða hér. Hann vill deilur um þessi mál af því hann sér fyrir sér að hann muni hafa þar hlutverk og fylgjendur.“

Lenya er spurð hvað sé hægt að gera í málinu. „En hvernig verður það lagað? Ef það væri ekki SDG að þá væri einhver annar tækifærisinni að nýta sér þessar skoðanir fólks.Andskotans skoðanafrelsi,“ skrifar maður nokkur.

Hún svarar: „Kannski einstaklega hættulegt því SDG er að reyna að búa til eitthvað fasískt fylgi hér á Íslandi og nýta sér það í pólitíkinni. Það munu alltaf vera manneskjur með ömurlegar skoðanir en um leið og maður hefur platform til að breyta þessum skoðunum í lög er það hættulegra.“

- Auglýsing -

Fleiri gagnrýna Bylgjuna að hleypa Sigmundi í útvarpið, líkt og Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Trans Íslands. Hún segir í pistli sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan að flest sem Sigmundur sagði hafi verið bull. Ugla segir líkt og Lenya og Halldór að vegferð Sigmundar sé augljós.

„Sú tilraun til að grafa undan réttindabaráttu trans fólks og hinsegin fólks með vísun í kvenréttindi er því lítið annað en illa ígrunduð yfirhylming og vanþekking á þessum málaflokkum. Svona taktík er sambærileg þeim aðferðum þegar réttindum öryrkja og eldra fólks er etjað gegn innflytjendum og hælisleitendum. Þessar aðferðir eru því mjög lævísar og slóttugar, og til þess gerðar að grafa undan réttindabaráttu frekar en að vernda fólk,“ skrifar Ugla.

Pistill Uglu í heild sinni

- Auglýsing -

Var að hlusta á Bylgjuna af einskærri tilviljun í morgun — og þar voru þau Helga Vala og Sigmundur Davíð að tala um kynvitund. Þar fór SDG með allskonar fleipur um lög um kynrænt sjálfræði, og talaði ítrekað niður til réttindabaráttunar, eða aktívisma, og mikilvægi hennar í tengslum við lagasetningar.

Þar má helst nefna að hann talaði um að það hefðu verið hópar aktívista sem skrifuðu lög um kynrænt sjálfræði, og þar hefði löggjafinn verið að afsala sér völdum til þeirra.

Þetta er auðvitað stórkostlega mikil þvæla — og líka gríðarleg vanvirðing við það starf sérfræðinga og fagfólks sem kom að smíðum frumvarps um kynrænt sjálfræði.

Sá hópur sem kom að smíðum þessa frumvarps var fólk úr grasrótinni, lögfræðingar, kynjafræðingar, félagsfræðingar, siðfræðingar, þingfólk, og sprenglært fólk og aðrir sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks.

Þessi vinna tók hátt í fjögur ár og var haft ríkt samráð við allar helstu stofnanir, hagsmunafélag, kvenréttindafélög og önnur mannréttindasamtök. Að smætta vinnu þessa hóps niður í einhvern “hóp aktívista” á niðrandi hátt lýsir engu nema vanþekkingu og vanþóknun hans á réttindabaráttu hinsegin fólks.

Þegar að frumvarpið fara svo í hendur ráðuneytis og inn í ferli á Alþingi þá fór það algjörlega úr okkar höndum. Þá fer frumvarpið inn í nefnd, í margar umræður á Alþingi og þar af lokum í atkvæðagreiðslu. Í því ferli breyttist ýmislegt frá frumvarpinu sem við skiluðum af okkur, enda löggjafinn með valdið til þess. Þegar kemur að atkvæðagreiðslu þá tekur þingfólk meðvitaða ákvörðun út frá því ferli og áliti sérfræðinga — og kusu nær allt þingfólk með frumvarpinu, að undanskyldum Miðflokknum. Þetta á ekkert við um þetta frumvarp, heldur væntanlega öll frumvörp, sem eru unnin í samráði við sérfræðinga á viðeigandi sviðum.

Svo eru staðhæfingar að þessi lög stangist á við réttindi kvenna auðvitað úr lausu lofti gripin— enda studdu öll helstu mannréttindasamtök frumvarpið, þar með talið Kvenréttindafélag Íslands. Samstarf milli Kvenréttindafélagsins og Trans Íslands hefur til að mynda verið mjög gott undanfarin ár, og er TÍ eitt af þeirra meðlimum.

Það hlýtur að teljast vandræðalegt fyrir SDG að gera sig út fyrir að vera verndari kvenréttinda — en kynjahalli hafði ekki verið meiri í hans ríkisstjórnartíð en síðan 1999, þar sem eingöngu þrjár af níu ráðherrum voru konur. Þess má geta að hann kaus líka á móti rýmkunar til þungunarrofs á sínum tíma, og getur því seint talist vera mikill kvenréttindafrömuður, þótt fátt sé nefnt.

Sú tilraun til að grafa undan réttindabaráttu trans fólks og hinsegin fólks með vísun í kvenréttindi er því lítið annað en illa ígrunduð yfirhylming og vanþekking á þessum málaflokkum. Svona taktík er sambærileg þeim aðferðum þegar réttindum öryrkja og eldra fólks er etjað gegn innflytjendum og hælisleitendum. Þessar aðferðir eru því mjög lævísar og slóttugar, og til þess gerðar að grafa undan réttindabaráttu frekar en að vernda fólk.

Ég held það væri því betra að miðlar eins og Bylgjan myndu frekar ræða við raunverulega sérfræðinga sem búa yfir þekkingu á málaflokkum. Slíkt myndu skapa mun betri og málefnalegri umræður um þessi málefni sem eru til þess að upplýsa og fræða — í stað þess að hræða og afvegaleiða

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -