Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Lífshættulegu sjúkdómarnir sem enginn vill ræða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er auðvelt að horfa fram hjá myrkum hliðum samfélagsins. Ótti og vanþekking mótar barnalega þjóð sem forðast að mæta stórhættulegum vandamálum sem stofna tugum lífa í hættu ár hvert. Börnin okkar eru að deyja.

Ég fékk skilaboð frá systur minni, þar sem hún sagði mér frá því að sonur hennar hafi misst annan vin, hann var tvítugur. Ef ég hefði fengið einhverju ráðið, hefðu viðbrögð mín verið önnur. Ég hefði starað gapandi á skjáinn og velt vöngum yfir því hvað hafi komið fyrir drenginn, hvaða hræðilega slys gæti tekið líf manns sem var rétt að byrja. Raunin var önnur, ég var ekki hissa og hvað þá gapandi. Staðreyndin er sú að tvær orsakir eru í yfirgnæfandi meirihluta dauðsfalla ungs fólks. Sjálfsvíg og misnotkun áfengis eða fíkniefna. Úrræði fyrir þá sem glíma við fíkn eða geðsjúkdóma eru nánast engin. Geðdeild Landspítalans er að hruni komin og bráðamóttaka geðsviðs þekkt fyrir vanhæfni sína. Biðtími eftir aðstoð geðlæknis er áralangur og sálfræðiþjónusta er fyrir þau efnuðu. Fíknigeðdeild og SÁÁ eru þeir tveir staðir sem einstaklingur með fíknivanda getur leitað til. Sjúkrahúsið Vogur sem rekið er af SÁÁ er úrræði sem reynst hefur mörgum vel. Þar leggjast sjúklingar inn í afeitrun, en miðað er við um tíu daga dvöl. Eftir innlögn á Vogi er boðið upp á meðferð, ýmist á göngudeild eða inniliggjandi. Báðir möguleikarnir eru kostnaðarsamir enda fær SÁÁ aðeins hluta af rekstrarkostnaði sínum greiddan frá ríkinu.

Alls staðar þar sem veitt er geðhjálp, greining eða meðferð eru langir biðlistar. Margir hafa misst lífið áður en hægt var að veita þeim nokkra aðstoð. Biðin var einfaldlega of löng.

Í áratugi hefur lausnin verið talin sú sama: Fangelsisdómar og forvarnarstarf þar sem unglingum er sýnd mynd af heila og þeim sagt að vera helst ekkert að nota fíkniefni.

Ímyndum okkur aðstæður: Fjórtán ára drengur situr í skólastofu. Sýnd er glærusýning sem fjallar um afleiðingar þess að misnota fíkniefni. Hann er með önnur lífsmarkmið og sér ekki fyrir sér aðstæður þar sem hann leitar í slíkt. Eftir langa og leiðinlega fræðslu gengur drengurinn út úr stofunni og heldur áfram út í lífið sem hann er ákveðinn í að sigrast í. Eftir nokkur ár láta geðsjúkdómar á sér kræla. Lífsmarkmiðin skipta ekki lengur máli og vanlíðan tekur yfirhöndina. Hann leitar svara en alls staðar er uppbókað. Heimilislæknir ávísar á hann þunglyndislyfjum, þau gera lítið gagn. Hann er rekinn úr skóla fyrir slaka mætingu og endar sem kassastarfsmaður á bensínstöð. Vanlíðanin er sterk, en lausnirnar engar. Þegar hann finnur hálfslítra vodkaflösku í eigu foreldra sinna er glærusýningin löngu horfin úr minni hans. Óþroskaður framheilinn telur ómögulegt að nokkuð geti skaðað hann. Áfengið linar þjáningarnar og fljótt hefur hann þróað með sér fíknisjúkdóm. Neyslan stigmagnast og vímuefnin hætta að virka líkt og þau gerðu í upphafi. Drengurinn gefst upp.

Forvarnarfræðsla virkar ekki á unglinga. Þeir eru ekki með þroska til þess að horfa á líf annarra sem farið hefur úrskeiðis og sjá ekki fyrir sér að slíkt hið sama geti auðveldlega komið fyrir þá sjálfa. Að grípa unga fólkið ef allt fer úrskeiðis er það eina sem hægt er að gera. Það er þó ekki möguleiki þegar úrræðin eru engin.

- Auglýsing -

Lögreglan fylgist grannt með fíklum, jafnvel sérsveit Ríkislögreglustjóra. Eitt aðaleinkenni sjúkdómsins er stjórnleysi sem leiðir oft af sér smáglæpi. Það eitt að vera fíkill er refsivert sem varðar sektum og fangelsisvist. Ekki veit ég hver fékk þá hugmynd að það væri lausn falin í því að stimpla fíkla sem glæpamenn, en þessu hefur verið fylgt eftir í áraraðir. Ef þér er síendurtekið sagt að þú sért glæpamaður þá upplifirðu þig sem slíkan og fylgir því hlutverki sem þér var úthlutað. Skuldirnar fyrir glæpina sem framdir eru í hreinni örvæntingu safnast saman og gera hugmyndina um betra líf enn þá langsóttari. Fíkniefnastríðið er löngu tapað. Efnin verða sterkari og fíklarnir verða fleiri. Börn og ungmenni deyja.

Í sextíu blaðsíðna skýrslu heilbrigðisráðherra fyrir árið 2021 er einu sinni minnst á fíkla. Í fyrirferðarlítilli málsgrein er greint frá tuttugu milljónum sem settar voru í skaðaminnkandi úrræði.

Á meðan situr heil þjóð við tölvuskjáinn og myndar sér skoðun á því hvort að Edda Falak sé guðsgjöf eða svikari. Umræður um verðhækkun á papriku og aðra smámuni yfirtekur landsmenn. Ríkar stelpur fá styrki til þess að framleiða sjónvarpsefni um forréttindastöðu sína. Það er enginn að tala um alla þá sem létu lífið vegna vangetu stjórnvalda til að veita lífshættulega veiku fólki aðstoð að neinu leyti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -