Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga: Samdauna tárum kvenna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég veit ekki hvort eitthvað hafi breyst á Kvennadeild Landspítalans frá því að ég missti. Mér þykir ég hafa lesið óheyrilega margar sögur um deildina síðan.

Sögurnar eru frá konum sem hafa misst fóstur, barn, líf og hugmynd um framtíðina en það er einfaldlega ekkert eða enginn sem grípur þær þegar áfallið dynur yfir.

Mannlegi þátturinn og samkenndin virðist ekki vera til staðar hjá öllu starfsfólki sem tekur á móti konum í þessari stöðu. Ef til vill er starfsfólkið orðið samdauna endalausum tárum kvenna sem þangað koma, það hins vegar má ekki gerast.

Ég fékk jákvætt þungunarpróf, óvænt en velkomið.

Ég elskaði þetta fóstur um leið og ég sá línuna á prófinu, en margar mæður tengja eflaust við þá tilfinningu.

Hugurinn fer á flug og það eru engin rök nógu góð til þess að stoppa hann eða staldra við; strákur eða stelpa, hvað mun það erfa fá mér og hvað frá föður sínum, hvað skal það heita?

- Auglýsing -

Þessi tilfinning er svo sterk, þetta eðli að passa upp á barnið, sem er barn í huga flestra en ekki fóstur.

Að bíða eftir hlutum er ekki minn styrkleiki og þess vegna pantaði ég tíma í snemmsónar samdægurs. Ég þurfti að bíða í nokkra daga áður en ég komst til kvensjúkdómalæknisins míns til þess að sjá barnið í sónar.

Dagurinn rann upp og ég mætti í sónarinn, hann skoðaði mig og sagðist svo ekki sjá neitt fóstur. Ég var komin með hnút í magann áður en hann sagði þetta því eitthvað innra með mér vissi að það var ekki allt með felldu þegar hann byrjaði á sónarnum.

- Auglýsing -

Allt í einu kom þessi tilfinning sem átti bara eftir að ágerast.

Ég spurði hann hvað það þýddi og hvort ég væri búin að missa það. Hann sagðist ekki halda það en vildi senda mig í blóðprufu til að útiloka utanlegsfóstur. Vísaði hann mér svo áfram á kvennadeildina, þær skyldu fylgjast með mér og taka blóðprufur.

Þegar ég kom heim hágrét ég í örugglega tvo klukkutíma, ég var svo reið og hrædd.

Var ég ólétt eða ekki?

Degi síðar fór ég á kvennadeildina þar sem ég var skoðuð aftur og ekkert fannst. Þær tóku blóðprufu og sögðu mér að reyna að taka því rólega, sem var erfitt.

Ég þurfti að hringja til þess að fá að niðurstöður úr blóðprufunni sem kom ekki vel út, allt benti til þess að þungunin væri á enda.

Þær vildu taka fleiri blóðprufur til þess að útiloka utanlegsfóstur, sem þær svo gerðu.

Ég kom tveimur dögum síðar í aðra blóðprufu og fékk um leið bækling um utanlegsfóstur, eins konar fræðslubækling sem engin gæti með nokkru móti tileinkað sér í þessum aðstæðum.

Á þessum tíma vann ég þannig starf að ég ferðaðist mikið erlendis. Ég átti flug stuttu eftir fyrri blóðprufuna og spurði hjúkrunarkonurnar á kvennadeildinni hvort ég ætti ekki að aflýsa því.

Nei, nei, þeim fannst ekki ástæða til þess, en fyrir þá sem ekki vita er lífshættulegt að fara í flug með utanlegsfóstur.

Ég hringdi svo oft á þessa deild næstu daga, ég þurfti að ganga á eftir öllu, meðal annars niðurstöðum úr blóðprufum í annað sinn.

Hrædd, ráðalaus og ósofin fór ég loks niður á kvennadeild og sagðist ekki ætla að fara þaðan út fyrr en niðurstaða væri komin í mitt mál.

Loksins, líklega viku eftir sónarinn, fékkst læknir til þess að skoða mig og tilkynna mér að fóstrið væri ekki á réttum stað; utanlegsfóstur.

Það er enginn bæklingur sem undirbýr konu fyrir svona fréttir, það er mannlegt inngrip sem þarf, ekki bæklingur.

Faðmlag frá ókunnugum lækni eða hjúkrunarkonu hefði ég miklu frekar þegið á þessum tímapunkti. Í staðinn fékk ég að heyra þá glötuðu romsu hversu algengt það væri að konur misstu fóstur, auk þess þá útiloki utanlegsfóstur alls ekki frekari barneignir í framtíðinni.

HA?

Þessi skilaboð væri hægt að koma með síðar, löngu síðar, ekki á sömu mínútu og maður reynir að skilja hvers vegna maður fái ekki að elska þetta barn og af hverju þessi hugmynd hafi verið rifin frá þér.

Ég fór í aðgerð seinna og var komin heim um miðnætti, tóm og örmagna.

Þegar ég lít til baka þá veit ég að það tók mig frekar langan tíma að komast yfir þetta. Ég grét mikið og þótti allt ósanngjarnt, enn þá með hormónaflæðið í rugli eftir þungunina.

Loks tókst mér að horfa fram á veginn og vinna úr þessu.

Ég mun þó aldrei gleyma tilfinningunni, og það gerir engin kona í sömu stöðu.

Sorgin sem fylgir er nístandi og ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk tekst á við missinn þegar lengra er liðið á meðgönguna. Það eru hetjur.

Ég vona svo innilega að einhver breyting hafi átt sér stað á kvennadeildinni. Að konur sem þangað komi núna fái ekki bara bækling og „svona er þetta bara“ hvatningarræðu með ábendingu um að þetta gangi bara betur næst.

Það þarf fræðslu, viðbragðsteymi, faðmlag, umhyggju, hvað sem er, bara ekki annan bækling.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -