Fimmtudagur 30. júní, 2022
10.8 C
Reykjavik

Listamenn og menningarviðburðir sem eftir var tekið á árinu!

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Íslenskt menningar- og listalíf hefur blómstrað á árinu sem aldrei fyrr þrátt fyrir miklar áskoranir. Það hefur verið bæði kraftur í útgáfu og almennu andrúmslofti og því ekki úr vegi að menningargeiranum sé fagnað sérstaklega. Árið var að mörgu leyti blómlegt þrátt fyrir augljósa erfiðleika vegna heimsfaraldursins.

Mannlíf tók saman yfirlit yfir listamenn og menningarviðburði sem hafa gert það gott á árinu. Úr mjög mörgu var að velja. Hér er yfirlit yfir það sem okkur fannst vekja lukku. Listamennirnir eru birtir í stafrófsröð.

Birki Blær Óðinsson söngvari

Birkir Blær, söngvari Mynd.Skjáskot/RÚV

Birki Blær Óðinsson fór með sigur af hólmi í sænska Idolinu í desember, en hann keppti á móti Jacqline Mossberg Mounkassa. Sigri í keppninni fylgir útgáfusamningur við Universal auk peningaverðlauna.

Úrslitakeppnin fór fram í beinni útsendingu á TV4 í Svíþjóð þar sem sýnt var frá Globen-höllinni í Stokkhólmi.

Í fyrri umferðinni söng Birkir Blær lagið Sign of the time eftir Harry Styles og í síðari umferðinni Are you gonna be my girl sem Jet gaf út árið 2003. Birkir virtist eiga erfitt með að muna texta þess lags í upphafi en hélt svo ótrauður áfram.

- Auglýsing -

Birkir keppti við söngkonuna Jacqueline Mossberg Mounkassa í úrslitunum föstudaginn 10. desember í Avicii Arena sem margir þekkja sem Globen.

Birkir Blær söng alls þrjú lög í keppninni. Eitt sem hann hefur áður sungið, eitt lag með Adele og svo síðast lagið Weightless sem var sérstaklega samið fyrir lokakeppnina, en hann og keppinautur hans, Jacqline Mossberg Mounkassa, sungu það báðir. Sigurvegarinn í keppninni fær lagið gefið formlega út að henni lokinni.

Birkir Blær er að norðan og vakti þjóðarathygli á Íslandi þegar hann keppti fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri árið 2018 og sigraði með laginu I put a spell on you. Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti honum verðlaun.

- Auglýsing -

Ljóst er að Birkir Blær á framtíðina fyrir sér í tónlist en sem sigurvegari hlýtur hann að launum plötusamning við hina virtu Universal-útgáfu.

BÍDDU BARA!

Bíddu Bara í Gaflaraleikhúsinu. Mynd.Skjáskot/RÚV

Gamanleikritið er eftir stórstjörnurnar Sölku Sól Eyfeld, Selmu Björnsdóttur og Björk Jakobsdóttur sem leiða saman hryssur sínar í fyrsta sinn.  

Verkið er einlægt, beitt og fyndið sem fjallar um raunveruleika íslenskra kvenna; um vonir og drauma, biturleika og frú-strasjónir, uppeldi, kvíða og hvítvín. Þær Björk, Salka Sól og Selma  byggja verkið á sinni eigin reynslu og draga ekkert undan en ljúga helling. Þetta er verk um íslenskar konur, samið af íslenskum konum og fyrir íslenskar konur, hinsegin, kynsegin og allar hinar (og fyrrverandi, núverandi og tilvonandi maka sem þora að koma).

„Það má segja að þetta sé olnboga-verk, því áhorfendur munu skjóta olnboga í sessunautana ótt og títt og hvísla: svona ert þú! Uppistand, leiksenur og söngur af bestu sort,“ segja þær.

Björk Orkestral – Live from Reykjavík

Björk, söngkona. Mynd.Skjáskot/RÚV

Björk hélt sína fyrstu tónleika af fjórum í tónleikaseríunni Björk Orkestral í Eldborg í Hörpu í október. Hún kom fram ásamt strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Viktors Orra Árnasonar. Flutt voru lög af plötunum Post, Vespertine og Dancer in the Dark.

Tónleikarnir sem eru í umsjón Iceland Airwaves áttu upphaflega að fara fram í ágúst á síðasta ári en þeim þurfti að fresta vegna heimsfaraldursins.

Um er að ræða fyrstu tónleika sem Björk heldur á Íslandi í þrjú ár og rennur hluti ágóða tónleikaseríunnar til Kvennaathvarfsins. Tónleikarnir voru með ólíka dagskrá og allir sína sérstöðu.

Kjóll Bjarkar vakti mikla athygli en hann var hannaður af japanska hönnuðinum Tomo Koizumi. Þá skartaði Björk grímu og hring eftir hönnuðinn James Merry og eyrnalokkum frá Aurum.

Brúðulistahátíðin (alþjóðleg)

Brúðulistahátíð. Mynd.Skjáskot/RÚV

Alþjóðlega brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppetry Festival eða HIP Fest fór fram dagana 8.-10. október. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin og komu um á þriðja tug erlendra listamanna frá átta löndum sem buðu upp á fjölda sýninga og vinnusmiðja, auk fyrirlestra og kvikmyndasýninga með umræðum við listamennina á eftir.

„HIP Fest er einstök viðbót í menningarlíf landsmanna, enda eina brúðulistahátíð landsins,“ segir í tilkynningu frá Handbendi – Brúðuleikhús núverandi Eyrarrósarhafa. HIP Fest var valin menningarviðburður ársins á Norðurlandi vestra árið 2020.

„Þrátt fyrir verulegar samkomutakmarkanir á hátíðinni í fyrra tókst hún einstaklega vel við mikla ánægju þátttakenda og áhorfenda. Brúðulistin er fjölbreytt og fornt listform sem stöðugt haslar sér meiri völl í menningarlífi landsins. Á hátíðinni má líta fjölbreyttar sýningar fyrir alla aldurshópa, sem nýta sér öll blæbrigði listformsins,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Dj Dóra Júlía

Dj Dóra Júlía. Mynd.Skjáskot/RÚV

Plötusnúðurinn og fjölmiðlakonan Dóra Júlía Agnarsdóttir hefur verið ráðin til Sýnar og fer hún af stað með sinn fyrsta þátt af Íslenska listanum á FM957 á laugardag.

Í desember fer hún svo af stað með sjónvarpsþáttinn Þetta reddast á Stöð 2. „Sjónvarpsþátturinn er viðtalsþáttur með afar óhefðbundnu sniði á léttum, skemmtilegum og einlægum nótum,“ segir hún um þættina sem fara af stað í desember.

Eysteinn Sigurðsson leikari

Eysteinn Sigurðsson leikari. Mynd.Skjáskot/RÚV

Hlutverk höfuðskúrksins í fjórðu seríu víkingaþáttanna The Last Kingdom, sem eru nú í sýningu á streymisveitunni Netflix, er í höndum Eysteins Sigurðssonar sem landsmenn þekkja meðal annars úr sjónvarpsmyndinni Mannasiðum. Eysteinn fæddist í Reykjavík en bjó lengst af í Madison í Wisconsin. Hann lærði ensku og skapandi skrif við University of Wisconsin áður en hann sneri sér að leiklistarnámi við Listaháskóla Íslands. Að námi loknu tók Eysteinn til starfa í Borgarleikhúsinu þar sem hann lék stór hlutverk í uppsetningum eins og Línu Langsokk, Hver er hræddur við Virginia Woolf? og Mamma Mia! Utan Íslands er hann þekktastur fyrir hlutverk sín sem Hjálmar í sjónvarpsþáttum Baltasars Kormáks Ófærð og sem Sigtryggr í Netflix-kvikmyndinni The Last Kingdom. Hér má Eystein í hlutverki Sigtryggr.

Fríða Ísberg rithöfundur

Fríða Ísberg rithöfundur. Mynd.Skjáskot/RÚV

Fríða Ísberg veltir upp áhugaverðum siðferðisspurningum í fyrstu skáldsögu sinni sem gerist á Íslandi í náinni framtíð. „Það er verðugt verkefni skáldskapar að kanna mörkin á mannlegu atferli og reyna skilja hvernig þau geta verið á skjön við hugmyndir og hugsjónir sem í sjálfum sér geta verið af hinu góða,“ segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Merking, skáldsaga Fríðu Ísberg, hefur verið seld til 14 málsvæða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forlaginu. Breski bókaútgefandinn Faber & Faber keypti réttinn í Bretlandi, en fyrirtækið var stofnað árið 1929 og gefur út bækur margra fremstu rithöfunda heims, á borð við Milan Kundera, Sally Rooney og Kazuo Ishiguro.

Gugusar

Gugusar. Mynd.Skjáskot/RÚV

Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, sem kemur fram undir listamannsnafninu gugusar gaf út fyrstu plötu sína í fyrra. Hún nefnist Listen to this twice. Hún flytur tónlistina á plötunni, semur og annast upptöku og hefur starfað með nokkrum þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Lög Gugusar hafa ratað inn á vinsældalista og hún nýtur mikillar velgengni á Spotify.

„Mér datt ekki í hug að þetta myndi einhvern tíma gerast, þegar ég byrjaði að semja tónlist. Ég gerði plötuna, sem ég er búin að gefa út, þegar ég var fimmtán ára og ég var að búast við að mamma og pabbi myndu kannski hlusta, ef þau myndu nenna því, þannig að þetta er ótrúlegt,“ segir Guðlaug.

Laufey Lín söngkona

Laufey söngkona. Mynd.Skjáskot/RÚV

Laufey Lín Jónsdóttir tónlistarkona hefur á skömmum tíma náð eftirtektarverðum árangri í tónlistarútgáfu. Hún lauk námi við Berklee-tónlistarskólann í Boston þar sem hún var á forsetalista. Hún hefur gefið út smáskífu, EP-plötur og fjölda laga sem hafa náð eyrum milljóna hlustenda og áhorfenda á Youtube. Og það er nóg um að vera hjá henni.

Tónlistarkonan Billie Eilish, ein vinsælasta söngkona heims, deildi myndbandi hennar á Instagram og var Laufey Lín heldur betur hissa.

Hún gaf út litla EP-plötu í apríl þegar hún flutti til Los Angeles síðasta sumar og er að taka upp meiri tónlist. Hún vann við BBC-þáttaröð á árinu í New York. Þetta voru tólf þættir og er tónlistin hennar spiluð undir ásamt annarri tónlist sem hún setti saman og heitir Happy Harmonies.

Libia Castro og Ólafur Ólafsson eru myndlistarmenn ársins 2021

Libia Castro og Ólafur Ólafsson myndlistarmenn.
Mynd.Skjáskot/RÚV

Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2021 fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. október 2020 í samstarfi við Listahátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin sem haldin var í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands fimmtudaginn 25. febrúar.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

„Tvíeykið Libia Castro (f. 1970) og Ólafur Ólafsson (f. 1973) sviðsettu í samvinnu við Töfrateymið stóran myndlistarviðburð Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland á árinu. Verkið er fjölradda tónlistar- og myndlistargjörningur við hundrað og fjórtán greinar nýrrar stjórnarskrár Íslands sem kosið var um í október 2012 og nær tveir þriðju hlutar samþykktu. Áræðið og úthugsað þátttökuverk sem varpar ljósi á mátt listarinnar og efnir til umræðu um sjálfan grunn samfélagssáttmálans.“

Ragnheiður Inga Matthíasdóttir rappari

Ragga Rix rappari. Mynd.Skjáskot/RÚV

Sigurvegari Rímnaflæðis 2021 var Ragnheiður Inga Matthíasdóttir eða Ragga Rix frá félagasmiðstöðinni Tróju Akureyri. Hún er 13 ára og gengur í Brekkuskóla.

„Ég byrjaði að rappa 8 ára með systur minni. Við stofnuðum rappsveitina Blauta sokka og sömdum nokkur lög. Systir mín gafst upp á frægðinni en ég hélt áfram,“ segir Ragga.

Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins, var fyrst haldin árið 1999 og fór fram á netinu í ár vegna sóttvarnaraðgerða. Rímnaflæði hefur skipað sér fastan sess í dagskrárliðum félagsmiðstöðva um leið og hún vekur áhuga ungmenna á rappi og gefur því jákvæða umfjöllun. Keppendur í Rímnaflæði eru á aldrinum 13-16 ára og er skilyrði að textar séu samdir af keppendum, en lög og taktar þurfa ekki að vera frumsamdir. Átta keppendur tóku þátt í ár, þar af þrír af landsbyggðinni.

Salóme Gunnarsdóttir leikkona

Salóme Gunnarsdóttir leikkona. Mynd.Skjáskot/RÚV

Salóme lauk prófi frá leiklistardeild LHÍ og hefur leikið hjá Þjóðleikhúsinu, í kvikmyndum, sjónvarpi og víðar. Nýlega lék hún í vísinda- og fantasíukvikmyndinni Zack Snyder’s Justice League sem var tilnefnd til verðlauna í þremur flokkum; besta myndin, besta kvenhetjan og besta slagsmálaatriði. Salóme leikur í myndinni íslenska konu.

Á síðasta ári lék hún í fyrsta þætti seríunnar Pennyworth frá bandarísku kapalstöðinni Epix, þar sem hún lék Patricia Wayne, systur Thomas Wayne (föður Bruce/Batman).

Þættirnir eru „spin-off“ þáttaraðarinnar Gotham sem sýndir voru í nokkur ár á Fox-stöðinni í Bandaríkjunum við miklar vinsældir. Pennyworth segir frá þjóni Batman, Alfred Pennyworth, á yngri árum. Sömu aðilar og stóðu að Gotham, Danny Cannon og Bruno Heller, standa að þessum þáttum.

Það voru einstaklega margir framúrskarandi listamenn sem gerðu það gott á árinu og því erfitt að velja. Sköpunin var allsráðandi árið 2021.

Það verður forvitnilegt að sjá hvað á eftir að koma frá þessum á næstunni, fylgjumst vel með!

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -