Eins og flestir vita eru alþingiskosningar handan við hornið og kosningabarátta flokkanna í fullum gangi. Eins og getur og gerist eru málefni sem eru lykilatriði í kosningabaráttu og fyrir þessar kosningar hafa húsnæðismál, vextir, verðbólga og málefni hælisleitenda verið aðalmálin hingað til.
Mannlíf vildi vita meira um stór og mikilvæg málefni sem hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hingað til og sendi tíu spurningar á alla formenn og leiðtoga þeirra flokka sem eru í framboði og mun Mannlíf birta svör allra þeirra sem svöruðu. Við nefnum þessi málefni „Litlu stóru málin“
Nú er komið að Svandísi Svavarsdóttur, formaður Vinstri grænna, að svara
1. Vilt þú leyfa aukið frelsi í veðmálastarfsemi á Íslandi og af hverju?
Ég tel ekki að það sé æskilegt að auka frelsi í veðmálastarfsemi hér á landi. Ég tel þó að það sé mikilvægt að setja skýrari lagaramma en nú gildir um veðmálastarfsemi, en starfsemin á sér ýmsar skuggahliðar, t.d. spilavanda. Þá er ekki hægt að líta framhjá því að víða erlendis hefur veðmálastarfsemi verið tengd við peningaþvætti og aðra skipulagða glæpastarfsemi og því frekar ástæða til að herða eftirlit heldur en að auka frelsi.
2. Hver er þín afstaða gagnvart réttindabaráttu trans fólks á Íslandi?
Réttindabarátta transfólks er gríðarlega mikilvæg barátta og ég styð hana af öllu hjarta. Við sjáum því miður bakslag í umræðu og kynjajafnrétti og hinsegin og transfólk um þessar mundir, og við því er mikilvægt að bregðast með öllum tiltækum leiðum.
3. Hvað finnst þér um að ríkið styrki listir og menningu?
Það er mjög mikilvægt að ríkið komi myndarlega að því að styrkja listir og menningu, og að mínu mati mætti hækka framlög ríkisins sem renna til lista og menningar.
4. Ert þú fylgjandi því að Ísland verði gert að einu kjördæmi í Alþingiskosningum og af hverju?
Þessi umræða kemur ítrekað upp en jafnt vægi atkvæða hlýtur að vera markmið okkar til lengri tíma. VG hefur ekki tekið afstöðu sérstaklega til þeirrar spurningar sem hér er lögð fram varðandi fyrirkomulag kjördæma.
5. Hversu mikilvæga telur þú kristni vera í íslensku samfélagi í dag?
Kristni hefur djúpar rætur í íslensku samfélagi og hefur verið hluti af menningu, sögu og löggjöf hér í meira en þúsund ár. Hins vegar hefur þetta hlutverk breyst verulega á síðustu áratugum enda samfélagið orðið fjölbreyttara og frjálslyndara í trúarbrögðum og lífsskoðunum.
6. Hvað finnst þér um aðstöðu til íþróttaiðkunar á Íslandi?
Hana má tvímælalaust bæta um allt land og ég legg áherslu á mikilvægi þess að ný þjóðarhöll rísi sem fyrst. Ríkið þarf að koma með skipulagðari hætti að fjármögnun íþróttahreyfingarinnar til þess að tryggja að hreyfingin hafi sterkan rekstrargrundvöll, þannig að sem flest börn og ungmenni geti tekið þátt í íþróttastarfi – óháð efnahag.
7. Hvað finnst þér um fjárhagsstuðning ríkisins við stjórnmálasamtök?
Mikilvægur
8. Hvað finnst þér um blóðmerahald?
Að mínu mati er siðferðislega vafasamt að nýta dýr sem verkfæri í þeim tilgangi að framleiða lyf. Dýravernd þarf að vera tryggð í allri meðferð dýra, og að mínu mati er þessi starfsemi tímaskekkja.
9. Telur þú að þjóðin eigi að fá að kjósa um inngöngu í ESB og af hverju?
Já, ég tel að þjóðin ætti að fá að kjósa um það hvort aðildarviðræður um inngöngu í ESB verði hafnar.
10. Hver er þín afstaða til stjórnarskrár Íslands?
Stjórnarskrána þarf að endurskoða heildrænt í skrefum. Ég legg persónulega mesta áherslu á að auðlindaákvæði verði lögfest í stjórnarskrá, í þeim tilgangi að tryggja að eigandi auðlinda, þjóðin, njóti arðs eða auðlindarentu þegar einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind til hagnýtingar í ábataskyni.