Föstudagur 29. nóvember, 2024
-9.2 C
Reykjavik

„Litlu stóru mál“ Þórhildar Sunnu – Fylgjandi opnun spilavítis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf vildi vita meira um stór og mikilvæg málefni sem hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hingað til og sendi tíu spurningar á alla formenn og leiðtoga þeirra flokka sem eru í framboði og mun Mannlíf birta svör allra þeirra sem svöruðu. Við nefnum þessi málefni „Litlu stóru málin“

Hér fyrir neðan má lesa svör Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata.

1. Vilt þú leyfa aukið frelsi í veðmálastarfsemi á Íslandi og af hverju?

Ég vil fyrst einbeita mér að því að fara í skaðaminnkandi aðgerðir gagnvart því fjárhættuspili sem frjáls félagasamtök og háskólinn hafa tekjur af um þessar mundir og það eru spilakassarnir. Þetta er mjög ávanabindandi fjárhættuspil sem hefur mjög skaðleg áhrif á líf fólks sem á við spilafíkn að stríða og mér finnst það verði að setja allverulegar hömlur á þessa starfsemi.

Á hinn bóginn er ég ekki andsnúin því að leyfa einhvers konar spilavíti á Íslandi þar sem fólk getur spilað póker, rúllettu eða þess háttar leiki samhliða skaðaminnkandi aðgerðum eins og spilakorti.

2. Hver er þín afstaða gagnvart réttindabaráttu trans fólks á Íslandi?

- Auglýsing -

Ég stend með trans fólki og réttindabaráttu þeirra og við Píratar höfum verið ötult stuðningsfólk transfólks bæði á þingi og í sveitastjórn. Við höfum mælt fyrir frumvörpum sem styrkja réttarstöðu þeirra, stutt öll frumvörp sem það gera og barist fyrir því að réttindi þeirra séu virt í hvívetna.

3. Hvað finnst þér um að ríkið styrki listir og menningu?

Listir og menning eru ótrúlega mikilvægar hverju heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Við styðjum við list listarinnar vegna og viljum stórefla lista- og menningarstarfssemi á Íslandi með fjölbreyttum aðgerðum. Píratar telja mikilvægt að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar. Styrkjakerfin sem sjálfstætt listafólk reiðir sig á í dag þarf að endurhugsa frá grunni. Endurskoða þarf styrkjakerfin með hliðsjón af öðrum Norðurlöndum, til dæmis hvernig Noregur hefur útfært sína langtímastyrki. Auk þess vilja Píratar tryggja nýliðunarstyrki til ungs listafólks og standa með listamannalaunum. Píratar telja að hlúa þurfi að söfnum og safnastarfi sem varðveita menningararf og miðla sögu þjóðarinnar til að gera þeim kleift að miðla safnkosti sínum með stafrænum hætti til að stuðla að auknu aðgengi almennings. Píratar vilja koma Vísindasafni á laggirnar og auka fé í sjóðum, svo sem í Fornminjasjóði og Safnasjóði, til þess að auka rannsóknir á menningararfinum. Slíkt styrktarfé er einnig grunnskilyrði fyrir menntun nýrra starfkrafta og styðja við innlent hugvit.

- Auglýsing -

4. Ert þú fylgjandi því að Ísland verði gert að einu kjördæmi í Alþingiskosningum og af hverju?

Já. Vegna þess að Ísland er lítið land með mjög ójafnt atkvæðavægi. Einfaldasta leiðin til að jafna atkvæðavægið er að gera landið að einu kjördæmi. Á móti ætti að stórefla tekjustofna sveitafélagana, valdefla þau og gera íbúum kleift að hafa miklu meiri áhrif á sitt nærumhverfi. Píratar tala fyrir því að hluti af virðisaukaskatti verði eftir í því sveitafélagi þar sem salan eða þjónustan fór fram og sömuleiðis að hluti fjármagnstekjuskatts verði eftir í heimabyggð til þess að gera sveitafélögum kleift að hlúa að fjölbreyttari verkefnum og atvinnustarfsemi. Píratar vilja koma meiri völdum til sveitafélaganna varðandi þætti eins og samgönguáætlun, byggðarstefnu og sjálfbærri ferðamála- og iðnaðarstefnu svo dæmi séu nefnd.

5. Hversu mikilvæga telur þú kristni vera í íslensku samfélagi í dag?

Kristin trú er mikilvæg fyrir stóran hóp í samfélaginu, sér í lagi þann hóp sem aðhyllist kristna trú. Píratar styðja trúfrelsi og vilja fara í aðskilnað ríkis og kirkju til þess að gera öllum trú- og lífsskoðunum jafn hátt undir höfði gagnvart hinu opinbera. Við erum andsnúin innheimtu sóknargjalda af hálfu hins opinbera og viljum að trú og lífsskoðunarfélög innheimti sín félagagjöld sjálf til þess að standa vörð um friðhelgi einkalífs borgaranna. Innheimta hins opinbera á sóknargjöldum felur í sér að ríkið hefur skrá yfir trú og lífsskoðanir allra á Íslandi, Pírötum þykir þetta fyrirkomulag brjóta á réttindum borgaranna til þess að halda sínum trú og lífsskoðunum út af fyrir sig.

6. Hvað finnst þér um aðstöðu til íþróttaiðkunar á Íslandi?

Íþróttaiðkun barna og ungmenna er með bestu forvörnum sem hægt er að bjóða upp á gagnvart áfengis og vímuefnanotkun þessara hópa. Píratar vilja styðja vel við íþróttaiðkun, ekki bara barna og ungmenna heldur almennings alls enda hefur hún mikið lyðheilsulegt gildi. Píratar vilja einnig styðja betur við fjölbreytt æskulýðs- og tómstundastarf og vilja ekki sjá mismunun gagnvart öðrum frábærum tómstundum eins og list, menningu, skátastarfi, spilamennsku og fjölbreyttum áhugasviðum barna og ungmenna.

7. Hvað finnst þér um fjárhagsstuðning ríkisins við stjórnmálasamtök?

Fjárhagsstuðningur ríkisins við stjórnmálasamtök verður alltaf umdeildur en er nauðsynlegur í lýðræðissamfélagi. Skoða mætti hvort ekki væri rétt að hann væri jafnari, að koma sér saman um ákveðna grunn upphæð sem dugar til þess að reka stjórnmálasamtök og láta nokkurn veginn jafnt yfir alla ganga sem ná ákveðnum þröskuldi. Á móti ætti að setja skýrari skorður á styrkveitingar fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálasamtaka.

8. Hvað finnst þér um blóðmerahald?

Píratar eru andsnúnir blóðmerahaldi.

9. Telur þú að þjóðin eigi að fá að kjósa um inngöngu í ESB og af hverju?

Já. Vegna þess að aðildarferlið er hafið og það var sett á ís með ólöglegum hætti. Þjóðin ætti að fá að ráða því hvort hún vilji hefja ferlið á nýjan leik og virða ætti niðurstöðu hennar sama hver hún er.

10. Hver er þín afstaða til stjórnarskrá Íslands?

Stjórnarskráin eins og hún er í dag er komin til ára sinna og mörg ákvæði í henni eru úrelt eða er ekki fylgt. Þjóðin kaus um nýja stjórnarskrá fyrir 12 árum síðan og það er stærsta hneykslið í sögu lýðræðisins á Íslandi að niðurstaðan hafi ekki verið virt af meirihluta Alþingis í allan þennan tíma. Píratar vilja nýja stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili. Sú stjórnarskrá skal byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og þeim ábendingum sem fram hafa komið síðan þá. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning og sérfræðinga, til dæmis með borgaraþingi eða öðrum þjóðfundi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -