Loftslagstónleikarnir +2,0°C fyrir norðan

Deila

- Auglýsing -

Um verslunarmannahelgina flytur organistinn Kristján Hrannar Pálsson loftslagsverkið +2,0°C á Hólum í Hjaltadal, Dalvíkurkirkju og Akureyrarkirkju.

Samhliða því verður ljósmyndarinn Nína Richter með ljósmyndasýninguna The organs of the Organ í safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Pípuorgelið býr til sitt eigið vistkerfi inni í kirkjunni. Það tekur inn og blæs út lofti, sem áheyrendur anda svo inn og út og aftur til baka.

Verkið var frumflutt í Hallgrímskirkju á Vetrarhátíð í febrúar 2020. Það er aðgengilegt og ögrandi í senn, skipt í 21 kafla í stíganda, þar sem hver kafli tjáir hækkun hitastigs á jörðinni um 0,1°C.

Hólar í Hjaltadal: 31. Júlí kl. 20:30
Dalvíkurkirkja: 1. ágúst kl. 20:30
Akureyrarkirkja: 2. ágúst kl. 17:00

Kristján Hrannar er fæddur í Reykjavík árið 1987 og hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil. Hann er í dag fastráðinn organisti við Óháða söfnuðinn í Reykjavík auk þess að stýra tveimur kórum á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur komið víða við í tónlist en hann var meðlimur indí-rokk sveitarinnar 1860 á árunum 2010 til 2012. Hann sendi frá sér rafpopp-plötuna og sólóverkefnið Anno 2013 hjá Dimmu-útgáfu. Plötuna vann hann með Færeyingnum Janusi Rassmusen úr Kiasmos. Þá hefur Kristján kennt jazz-píanóleik við FÍH og sinnt ótal verkefnum sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður.

+2,0°C er annað verk Kristjáns sem snertir á loftslagsmálum en árið 2016 gaf hann út plötuna Arctic take one sem fjallar um staði á norðurslóðum sem hafa orðið fyrir áhrifum af hlýnun jarðar.

- Advertisement -

Athugasemdir