Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2.6 C
Reykjavik

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt: Hópslagsmál og gamnislagur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Töluvert var um líkamsárásir og slagsmál.

Ekið var á bifreið í miðbæ Reykjavíkur, en ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á tilkynnti lögreglu um málið. Þegar lögregla kom á staðinn höfðu þrír menn, sem ollu árekstrinum, farið úr sinni bifreið og látið sig hverfa. Augljóslega hugnaðist þeim ekki að hitta lögreglu, en ekki kemur fram hvort bifreiðin hafi verið gerð upptæk. Líklegt þykir að viðkomandi aðilar muni þurfa að fara í gegnum lögreglu, vilji þeir bifreiðina til baka. Ef hún er þá yfir höfuð þeirra eign.

Aðili sem var viðriðinn líkamsárás í miðbænum neitaði að gefa lögreglu upp nafn sitt eða kennitölu og þrjóskaðist við þar til hann var handtekinn í þágu rannsóknar málsins og fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Þegar þangað var komið veitti hann loks upplýsingarnar, en með athæfi sínu hefur hann nú tryggt sér kæru fyrir að segja ekki til nafns eða framvísa skilríkjum að kröfu lögreglu.

Árásarmaður veittist að aðila fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur og skallaði hann í andlitið – svo tennur í viðkomandi brotnuðu. Þegar lögregla kom á staðinn var sakamaðurinn á bak og burt, en brotaþoli var sendur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar.

Leigubílstjóri þurfti að aka ofurölvi farþega beinustu leið upp á lögreglustöðina á Hverfisgötu, þegar í ljós kom að farþeginn gat ekki með nokkru móti gert grein fyrir sér eða ferðum sínum, eða greitt fargjaldið. Svo fór að farþeginn var vistaður í fangageymslum sökum annarlegs ástands hans.

Par var í nótt handtekið eftir að hafa ráðist á farþega í leigubifreið. Auk þess að ráðast á farþegann skemmdu þau leigubifreiðina og þegar lögregla kom á vettvang neituðu þau að fara eftir fyrirmælum. Annar aðilinn reyndi einnig að koma í veg fyrir að lögregla gæti unnið störf sín. Parið reyndist hafa fíkniefni í fórum sínum og voru báðir aðilar vistaðir í fangaklefa.

- Auglýsing -

Lögregla fór í eina af húsvitjunum sínum þar sem tilkynnt hafði verið um slagsmál í heimahúsi. Þegar húsráðendur komu til dyra voru hinsvegar allir á staðnum hlæjandi og brosandi. Það kom fljótlega í ljós að um gamnislagsmál hafði verið að ræða og allir á staðnum perluvinir.

Það vekur upp spurninguna hver það hafi verið sem tilkynnti athæfið – hvort nágranna hafi hreinlega sýnst vera um að ræða ósvikin og hörð átök, eða hvort þarna hafi einhver legið í leyni og fylgst með fjörinu, súr yfir að vera ekki boðið með.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -