Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Lögreglumaður birtir launaseðilinn-Undrast skilningsleysi ríkisvaldsins: „Við lögreglumenn erum manneskjur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hreinn Júlíus Ingvarsson 35 ára gamall varðstjóri í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu veltir fyrir sér starfinu og af hverju hann sinnir því enn, í færslu sem hann birti á Facebook í gær.

Færsluna skrifaði hann á frívakt, þar sem hann sat einn heima með hugsunum sínum, meðan konan hans var í vinnu og börnin þeirra í leikskóla og grunnskóla. Fríið var þó ekki vaktafrí, heldur kom í ljós að Hreinn hafði tognað í baki eftir handtöku á síðustu vakt.

„Ég sit hérna heima hjá mér í fríi, eða þannig, og get velt þessu fyrir mér. Það var hrækt yfir mig blóði og hráka í gær, ég kýldur og þegar ég var að gera skýrsluna á lögreglustöðinni þá fann ég fyrir miklum verk í mjóbaki. Við skoðun á slysadeild kom í ljós að ég hafði tognað í bakvöðva við handtökuna. Þannig það er frí í dag,“ segir Hreinn og undrast hann það skilningsleysi sem lögreglumenn mæta gagnvart ríkisvaldinu við gerð kjarasamninga.

Það var hrækt yfir mig blóði og hráka í gær, ég kýldur

Hreinn segir í samtali við Mannlíf að hann hafi farið í lögreglustarfið þar sem hann vildi hjálpa fólki, en hann útskrifaðist sem lögregluþjónn árið 2010. Hans meginhugsun þegar hann hóf störf í lögreglunni 24 ára gamall hafi verið og sé enn þörfin til að hjálpa samborgurum sínum. Aðspurður um hvort að hann hafi alist upp við starfið svarar hann: „Góð spurning og svarið er já og nei. Pabbi starfaði um skamma stund sem H-maður á Siglufirði (ólærður) og starfaði í lögreglunni þar af og til í nokkur ár.

„Svo náttúrulega snýst þetta starf yfirleitt um að reyna tala við fólk og reyna að róa ástand með munninum og mér hefur alltaf þótt það spennandi, það er sama hversu ruglað ástandið er að geta rætt við fólk rólega og náð því niður eða fá það á niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.“

Segir Hreinn í færslunni að reyndur lögreglumaður hafi sagt við hann að ef Hreinn hafi viljað starf þar sem hann fengi þakkir og hrós fyrir störf sín, þá væri hann á röngum stað, og benti hann Hreini á að fara frekar í slökkviliðið.

- Auglýsing -

Og ef þú værir 24 ára að hlýða þér 35 ára hvaða starf myndir þú fara í? „Leiklist allan daginn,“ svarar Hreinn hlæjandi þeirri spurningu blaðamanns. „Bara eitthvað ekki eins þungt.“

Svo náttúrulega snýst þetta starf yfirleitt um að reyna tala við fólk og reyna að róa ástand með munninum

Lögreglumenn eru manneskjur eins og allir aðrir

Hreinn segir starfið á margan hátt fallegt og ákveðna rómantík felast í því. Hins vegar vegi erfiðu spurningnar þyngra. „Bara ef ég hefði getað sagt 24 ára strákbjánanum að gera eitthvað annað er hugsun sem stundum læðist að mér,“ segir Hreinn.

- Auglýsing -

„Málið er nefnilega að við lögreglumenn erum manneskjur með okkar bresti, vandamál og tilfinningar eins og allir aðrir og erum kallaðir til á verstu augnablikum fólks. Til að geta leyst verkefnin farsællega þurfum við oftar en ekki að samsvara okkur skjólstæðingnum, setja okkur í spor þeirra og vera með þeim í hvaða harmleik sem fólk stendur frammi fyrir,“ segir Hreinn og segir það hafa valdið honum ýmsum vandamálum í gegn um tíðina því lögreglumenn reyni að gera erfiðustu stundir fólks bærilegri.

Hreinn hefur lent í áföllum á lífsleiðinni eins og fleiri og rekur áföll sín í færslunni. Hann hefur misst tvíburadætur, ömmur og afa, frænda og glímt við kvíða og allskonar vandamál.

„Ég hef tvisvar, eftir að ég missti börnin mín, tekið þátt í endurlífgun á ungabarni. Í fyrra málinu fékk ég hálfgert taugaáfall því á meðan ég var að reyna að hnoða barnið til lífs fann ég sjálfan mig í huganum á sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem ég hélt á stelpunum mínum og rankaði við mér grátandi á vettvangi. Ég var ekki stoltur af mér þarna en reyndi að halda andliti, ég samsvaraði mér of mikið. Það er ekkert hægt að flýja þessar tilfinningar,“ segir Hreinn, en segir lögreglumenn klára sín verkefni sama hvernig þeim líður eða hvort þeir treysta sér í það eða ekki. Það gildir um þessi verkefni líkt og önnur sem við glímum við á hverjum degi og stundum oft á dag.

Hreinn segir að honum sárni þegar starfs hans og framlag er ekki metið til launa. Hann segist einnig eiga erfitt með að skilja hvernig ráðamönnum og þá kannski sérstaklega forsætisráðherra tekst að gleyma lögreglumönnum þegar kemur að hrósi og þökkum til framlínustétta þessa lands sem margar hverjar hafa unnið þrekvirki í því ástandi sem vonandi er að líða undir lok. „Hvernig er hægt að gleyma orðinu „lögreglan“ þegar Ísland er á neyðarstigi almannavarna?,“ segir Hreinn og bætir við:

„Síðustu mánuðir hafa verið gríðarlega erfiðir fyrir þjóðina og við sjáum það í þyngri og erfiðari verkefnum en ríkisvaldið virðist ekki getað samsvarað sér lögreglumönnum.“

Maður skilur samt þegar konan, vinir og fjölskylda spyrja af hverju ert þú í lögreglunni

Með færslunni birtir Hreinn launaseðil sinn fyrir apríl, og tekur hann fram að hann reyni eins og hann getur að vinna bara dagvaktir og taka ekki aukavaktir þar sem hann er fjölskyldumaður og vilji ekki að starfið bitni meira á fjölskyldu hans, en þarf.

Launaseðill

„Maður skilur samt þegar konan, vinir og fjölskylda spyrja af hverju ert þú í lögreglunni. En ég er farinn að skilja hver ég er með aldrinum, hvers vegna ég stend í þessu. Öll mín reynsla innan og utan lögreglunnar getur vonandi hjálpað fólki á betri stað en það var á áður en ég kom á vettvang. Við lögreglumenn vitum hver við erum og fyrir hvað við stöndum.“

Færsluna má lesa í heild sinni hér.

Við þökkum HJI-0810 fyrir þessi orð:AF HVERJU ERT ÞÚ Í LÖGREGLUNNI?- eftir Hrein Júlíus Ingvarsson, varðstjóra nr….

Posted by Lögga á vakt on Mánudagur, 18. maí 2020

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -