• Orðrómur

Lokayfirlýsing DV: Jón Ósmann sakaður um rangfærslur og áreitni

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Um hádegisbil í dag sendi DV frá sér yfirlýsingu vegna máls sem hefur verið í hámæli undanfarna daga. Mál þetta varðar hraða afgreiðslu Utanríkisráðuneytisins á svokölluðu liprunarbréfi vegna ferðar ólögráða barns til föður síns, sem búsettur er erlendis, fyrir tilstilli Jakobs Frímanns Magnússonar. Þetta átti sér stað í byrjun árs 2020, þegar heimsfaraldurinn var fyrst að fara af stað af fullum þunga.

Jakob Frímann er náinn vinur föðurins og fyrrum starfsmaður Utanríkisráðuneytisins, en hann sendi beiðnina á ráðuneytið og óskaði eftir hraðri afgreiðslu málsins, sem tók á endanum einungis nokkrar klukkustundir. Að sögn móður barnsins, sem fór með lögheimili þess, hafði hún ekki heimilað að ferðin yrði farin á þessum tímapunkti. DV sendi frá sér aðra yfirlýsingu á dögunum þar sem blaðamenn lýstu tveggja sólarhringa áreitni, hótunum og andlegu ofbeldi frá fólki nákomnu Jakobi Frímanni, sem að sögn þeirra hófst eftir að blaðamaður hafði hringt í Jakob til að gefa honum færi á að tjá sig um málið. Mannlíf tók fréttina, yfirlýsingar og fyrirliggjandi gögn saman og skýrði út hér.

Sjá einnig: Furðulegt fréttamál: Jakob Frímann, liprunarbréfið, barnið og DV

Lokayfirlýsing DV

Í nýrri yfirlýsingu DV, sem jafnframt er sögð sú síðasta, er nýlegri yfirlýsingu föður barnsins sem liprunarbréfið snerist um svarað. Það er ritstjóri DV, Björn Þorfinnsson, sem er skrifaður fyrir greininni.

Þar segir meðal annars að ástæða þess að DV hafi ekki viljað birta yfirlýsingu föðurins, Jóns Ósmanns Arasonar, sé sú að með yfirlýsingu sinni hafi Jón Ósmann óbeint opinberað nafn sonar síns, drengs í viðkvæmri stöðu. Auk þess segir að yfirlýsing Jóns hafi innihaldið rætnar ásakanir í garð móður drengsins.

DV áréttar að drengurinn hafi verið fjórtán ára þegar upphaflega málið, er varðar umtalað liprunarbréf, kom upp. Hann hafi orðið fimmtán ára síðasta vor og sé því ekki tæplega sextán ára, eins og faðirinn talar um í skrifum sínum.

- Auglýsing -

Upphafleg frétt snerist ekki um fjölskylduharmleik

Í yfirlýsingu blaðsins segir sömuleiðis að upphafleg frétt hafi ekki á nokkurn hátt snúist um harmleik og erfiðleika þessarar fjölskyldu og drengsins, heldur hafi fréttin verið um meint óeðlileg afskipti Jakobs Frímanns af útgáfu liprunarbréfsins og samskipti hans við Utanríkisráðuneytið – einkum og sér í lagi sú staðreynd að Jakob Frímann hafi fengið að því er virðist flýtimeðferð á útgáfu bréfsins og athugasemdalausa úrvinnslu þess. Það sjáist best á því að ráðuneytið hafi síðar fundið sig knúið til að afturkalla bréfið og biðja móður drengsins afsökunar á því að hafa ekki rannsakað málavexti og fullyrðingarnar sem fram komu í erindi Jakobs Frímanns til ráðuneytisins. Sömuleiðis er áréttað að DV hafi eftir fremsta megni reynt að hlífa drengnum við gerð fréttarinnar. Talað hafi verið um barn en ekki dreng og ekki gefið upp hvar í heiminum faðirinn væri búsettur. Ekkert í fyrstu fréttinni hafi verið rekjanlegt til hans í augum almennings.

Hvers vegna kom Jakob að málinu?

- Auglýsing -

Líkt og Mannlíf velti upp í lok nýlegrar fréttaskýringar um málið, segir í yfirlýsingu DV að það skjóti skökku við að bæði Jakob Frímann og Jón Ósmann geri lítið úr útgáfu liprunarbréfsins og aðkomu Jakobs. Þar segir að ef hver sem er hefði sannarlega getað fengið slíkt liprunarbréf jafn hratt og auðveldlega og raun ber vitni í þessu máli, þá hefði Jón Ósmann sannarlega getað sent beiðnina sjálfur án allrar aðkomu Jakobs Frímanns.

Ritstjórinn ítrekar að ljóst sé að mennirnir tveir hafi nýtt sér stöðu og sambönd Jakobs Frímanns, sem þjóðþekkts einstaklings og fyrrum starfsmanns Utanríkisráðuneytisins, til að fá liprunarbréfið útgefið og stimplað á aðeins nokkrum klukkustundum, athugasemdalaust. Fullyrt er að á þessum tíma, í byrjun veirufaraldursins, hafi verið afar mikið álag á Utanríkisráðuneytinu og að um 2000 liprunarbréf hafi verið gefin út á þessum tíma.

Ritstjóri DV bendir á að Jakob Frímann hafi lagt ríka áherslu á það við blaðamann að upphaflega fréttin færi ekki út fyrr en eftir kosningar. Það hefur Jakob sjálfur sagt í sinni eigin yfirlýsingu.

Jón Ósmann sakaður um áreitni og rangfærslur

Í yfirlýsingu DV segir að Jón Ósmann hafi byrjað að áreita starfsfólk DV aðeins stuttu eftir að blaðamaður hafði samband við Jakob Frímann vegna málsins. Einnig segir að strax eftir að fyrsta frétt DV um málið kom út hafi Jón Ósmann og sonur hans byrjað að skrifa athugasemdir við fréttina á vefnum. Fréttin hafi sannarlega ekki fjallað um fjölskylduharmleik eða forræðismál. Þar með hafi nöfn þeirra beggja verið opinberuð, en Jón Ósmann hefur sakað DV um að hafa opinberað feðgana.

Björn segir þá ákvörðun að loka athugasemdakerfinu hafa verið tekna til að hlífa mætti drengnum við nafnbirtingu.

Ennfremur segir að Jón Ósmann hafi ítrekað reynt að fá blaðið til að fjalla um forsjárdeilu foreldranna og þar með son hans sem yrði þannig nafngreindur, beint eða óbeint. Það hafi DV ekki viljað gera.

Ritstjórinn segir blaðið ekki hafa byggt hina upprunalegu frétt á túlkun móðurinnar, eins og Jón Ósmann sagði í sinni yfirlýsingu. Blaðið hafi fengið gögn málsins frá fjölskyldu og aðstandendum móðurinnar og einu beinu samskipti DV við móðurina hafi verið í formi símtals þar sem hún var spurð hvort hún setti sig upp á móti umfjölluninni. Það var gert vegna þess að fréttin byggði að hluta til á gögnum um samskipti lögfræðings móðurinnar við Utanríkisráðuneytið. Jakobi Frímanni hafi sömuleiðis verið gefið tækifæri til að bregðast við og segja frá sinni hlið málsins.

Símtöl og „viðurstyggileg skeyti“

Um samskipti og símtöl Jóns Ósmanns við DV segir meðal annars:

„Í fyrsta símtali Jóns við Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra DV, þá má heyra Jón Ósmann vaða til , banka kröftulega á hurð sonar síns og krefjast þess að hann talaði við blaðamann sem hann fullyrðir að móðir hans hafi sigað á hann. Sú staða sem saklaus drengurinn var settur í var í meira lagi ógeðfelld og lýsir sjúku hugarástandi. Hver myndi ekki hlífa barninu sínu við slíku?“

Jón Ósmann sagði í yfirlýsingu sinni að hann hefði einungis einu sinni talað við blaðamanninn Erlu Hlynsdóttur í síma. Í yfirlýsingu DV er það sagt undarleg staðhæfing hjá Jóni, því símtölin hafi verið mun fleiri. Sömuleiðis eru „viðurstyggileg skeyti“ sögð hafa verið send á Erlu Hlynsdóttur og yfirmenn fyrirtækisins í nafni sonarins. Björn segir soninn hafa verið skráðan með tölvupóstfang í fyrirtæki föðurins.

Að lokum segir ritstjórinn að það hafi síðast í gærkvöldi gerst að skeyti bárust blaðamanni DV í nafni sonarins, en það hafi innihaldið hótanir um líkamlegt ofbeldi.

 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -