Föstudagur 3. febrúar, 2023
2.8 C
Reykjavik

Lyf við ADHD ófáanlegt í 23 daga: „Ótrúlegt að ég skuli vera uppistandandi“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Lyfið Elvanse, sem ávísað er við einkennum athyglisbrests og ofvirkni, hefur verið ófáanlegt hér á landi síðan í lok janúar. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem sér um dreifingu á lyfinu segir framleiðslubrest hafa orðið og að fyrirtækið taki stöðuna alvarlega. Í samtali við Mannlíf lýstu nokkrir einstaklingar, sem taka lyfið að staðaldri, þeim óþægindum og í sumum tilfellum alvarlegu einkennum sem skorturinn hefur valdið þeim.

Þegar blaðamaður athugaði málið kom í ljós að Elvanse hefur ekki fengist í Lyfju síðan 25. janúar. Von er á nýrri sendingu í dag, þann 17. febrúar, ef allt gengur eftir. Það sama á við um önnur apótek. Þeir verst settu hafa því verið án lyfsins í 23 daga þegar sendingin loks berst í apótek.

 

Geðlæknar geta lítið gert

Margir geðlæknar hafa vart haft undan við að svara fyrirspurnum sjúklinga sinna um málið. Hendur þeirra eru bundnar, því það eru tvær skammtastærðir ófáanlegar af lyfinu; 30 mg og 50 mg. Auk þess er ekki mælt með því að fá hærri skammtastærð ávísaðri og skipta hverri töflu niður í hluta. Lyfið er hannað þannig að hylkið sleppir út jöfnum skammti yfir heilan dag. Læknar hafa því þurft að flytja sjúklingum sínum þau tíðindi að ekkert sé hægt að gera í málinu annað en að bíða eftir sendingu.

Sjúklingur sem ræddi við blaðamann sagði lyfjafræðing í apóteki hafa lýst stöðunni sem alvarlegri, í ljósi þess að ekkert samheitalyf sé til fyrir Elvanse.

Annað lyf á markaðnum sem notað er við athyglisbrest með og án ofvirkni er lyfið Concerta. Það er þó ekki svo að læknar geti skipt Elvanse út fyrir Concertu fyrir sjúklinga sína eins og ekkert sé. Einungis er gefið út lyfjaskírteini fyrir annað lyfjanna tveggja, svo sjúklingur eigi rétt á niðurgreiðslu. Hafi einstaklingur lyfjaskírteini fyrir annað þeirra hefur hann það ekki fyrir hitt. Það sama gildir um önnur metýlfenídatlyf, eins og Ritalin og Ritalin Uno.

- Auglýsing -

„Get ekki haldið utan um lífið“

Blaðamaður Mannlífs ræddi við fleiri einstaklinga sem hafa liðið fyrir skortinn á Elvanse. Margrét vakti til að mynda athygli blaðamanns á því að þetta væri sannarlega ekki í fyrsta sinn sem þetta gerðist.

„Síðast þegar það var skortur keyrði ég alla leið austur á Hvolsvöll af því að ég vissi af glasi þar. Núna hef ég verið án þess í fjóra daga og hjálpi mér allir heilagir, það er ótrúlegt að ég skuli vera uppistandandi. Án lyfjanna er ég ekki heil manneskja, ég get ekki haldið utan um lífið. Skólinn situr á hakanum, heimilið situr á hakanum af því að ég set allt mitt, sem er ekki mikið, í krakkana. Það er alveg óþolandi að þurfa stöðugt að kvíða því að þurfa að ná í lyfin sín.“

- Auglýsing -

Önnur kona lýsti afar slæmri líðan án lyfjanna. Hún sagði raunar að sér hefði aldrei liðið jafn illa. „Ég fer ekki fram úr rúminu, geri ekkert af viti. Ég fæ panikkköst upp úr þurru og krassa upp úr fjögur á daginn. Sef síðan ekkert um nætur.“

„Skorturinn fer mjög illa í mig. Ég hef ekki lent í þessu núna en síðast þegar þetta var þá lenti ég mikið í þessu. Þetta voru nokkrir mánuðir sem þetta lyf var ekki til hér heima og lífið mitt fór svolítið úr skorðum þar sem lyfin hjálpa mér svo rosalega mikið í öllu í lífinu,“ sagði Rut. „Ég tek 50 mg en þegar ég lenti í skortinum þá var mér boðið 30 mg sem virkar ekki nógu vel fyrir mig. Ég tek 30 mg seinni partinn til að klára daginn en yfir daginn þarf ég að taka 50 mg og ég má ekki missa úr dag.“

 

Framleiðslubrestur hjá lyfjafyrirtækinu

Dreifingaraðili Elvanse á Íslandi er Distica. Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að um sé að ræða sérframleiðslu á lyfinu fyrir Ísland. Framleiðsluvandamál hafi komið upp hjá lyfjafyrirtækinu á Írlandi í desember sem hafi valdið því að engin sending kom af lyfinu í janúar.

„Síðan gátu þau framleitt fyrir okkur í janúar,“ segir Júlía Rós. Sendingin var væntanleg með flugi seinni partinn í gær, klukkan hálf fimm. Það þýðir að lyfið ætti að verða fáanlegt í dag.

Nokkur apótek sem blaðamaður Mannlífs ræddi við áttu von á sendingu á lyfinu í dag, 17. febrúar. Aðspurð segist Júlía Rós eiga von á því að það gangi eftir. „Ef það hefur ekkert komið upp á, engin hitastigsfrávik eða neitt slíkt.“

„Í svona framleiðslu getur bara alltaf eitthvað komið upp á,“ segir hún. „Þeir eru alltaf að leita allra leiða til þess að flýta framleiðslunni en það eru náttúrulega svo stífar gæðakröfur að það má ekkert klikka. Það taka því allir mjög alvarlega þegar svona kemur upp á.

Júlía Rós segir að Distica fái lyfin send til landsins með hraðsendingafyrirtæki. „Þannig að við erum bara búin að vera að vinna þétt með þeim til þess að koma þessu til landsins sem fyrst.

Við erum algjörlega á tánum, eins og alla daga. Hlutverk okkar er náttúrulega að tryggja lyfjabirgðir í landinu. Þannig að við fylgjum svona mjög vel eftir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -