Mánudagur 16. september, 2024
5.8 C
Reykjavik

Maður dæmdur í 16 ára fangelsi: „Það á enginn að þurfa að deyja á þennan hátt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Maður lést eftir mikla höfuðáverka 7. október 2007. Hinn ákærði, neitaði sök og bar við minnisleysi sökum drykkju og lyfjaneyslu. Dómarar töldu sök ákærða óvéfengjanlega og var hann í kjölfarið dæmdur í 16 ára fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. maí 2008.

Ákærði neitaði sök

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann á fertugsaldri í 16 ára fangelsi fyrir að ráða nágranna sínum bana í íbúð hans að Hringbraut í fyrra. Banamaður hins látna var dæmdur til að greiða fjölskyldu hans hálfa milljón króna í skaðabætur auk sakarkostnaðar og málsvarnarlauna að fjárhæð samtals 2,3 milljónir króna.

Ákærði neitaði sök en að mati dómsins þótti sannað að hann hefði ráðið honum bana. Í aðdraganda verknaðarins höfðu mennirnir tveir komið inn í blokkina um hádegisbil hinn 7. október 2007. Sannað þótti að ákærði hefði þar slegið til hins látna a.m.k. þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki. Hvert og eitt högganna hefði getað valdið dauða og átti ákærði að vita það að mati dómsins. Ekki var upplýst hvers vegna hann sló hann. Taldi dómurinn skýringa helst að leita í annarlegu ástandi ákærða, þótt því yrði samt ekki slegið föstu. Átti ákærði sér engar málsbætur að mati dómsins.

Blóð fannst úr hinum látna á ákærða

Þegar lögreglumenn komu á vettvang eftir verknaðinn tók ákærði á móti þeim og sagðist hafa komið að manninum liggjandi í blóði sínu. Sagðist hann ekki vita hver hefði veitt honum áverkana en hafði grunsemdir um annan íbúa í húsinu. Talaði lögreglan við þann aðila auk fleiri íbúa í húsinu en ekkert var grunsamlegt við þá. Á fingri ákærða var hins vegar nýtt sár og duft á handarbaki og töldu lögreglumenn það hafa komið úr slökkvitækinu sem talið var líklegt árásarvopn. Þá fannst blóð úr hinum látna á ákærða. Var hann handtekinn og settur í gæsluvarðhald.

Lá í rúminu með kodda fyrir andlitinu

Þegar myndir úr eftirlitsmyndavélum við Nóatúnsverslun á Hringbraut voru skoðaðar sáust ákærði og hinn látni á þeim í verslunarferð og mátti ráða af myndunum að eitthvert ósætti hefði verið með mönnunum. Myndir í eftirlitsvélum við Hringbraut 121 sýndu mennina þá koma inn í blokkina og þar sást ákærði vera að slá til höndunum.

Kannaðist hann þó ekki við neitt ósætti milli sín og hins látna. Sagðist hann hafa haldið áfram að drekka með honum eftir að inn var komið þangað til hinn látni sofnaði. Sagðist ákærði þá hafa farið heim til sín en komið aftur nokkru síðar til að athuga hvort nágranni sinn væri vaknaður svo þeir gætu haldið áfram að drekka. Hefði hann þá komið að honum liggjandi í rúmi sínu með kodda fyrir andliti og hefði hann frussað á sig blóði. Upplýst var að ákærði hafði drukkið nokkra daga fyrir verknaðinn og tekið mikið af lyfjum. Sagðist hann því ekki muna vel eftir atvikum.

- Auglýsing -

Ákærði á að baki sakaferil frá árinu 1998 vegna auðgunarbrota og hefur hann hlotið sex refsidóma. Málið dæmdu héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, Helgi I. Jónsson og Jón Finnbjörnsson. Verjandi var Hilmar Ingimundarson hrl. og sækjandi Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari.

Háþróuð tækni notuð við vettvangsrannsókn

Stöð 2 sýndi í þættinum Ummerki vettvangsrannsókn í tengslum við morðið. Beitt var háþróaðri tækni við skoðun blóðferla á vettvangi en blóðblettir þóttu segja aðra sögu en hinn grunaði í málinu. Þannig sýndu lögun blóðbletta að þeir höfðu komið til við högg en ákærði hélt því fram að félagi hans hefði hóstað blóði. Þá greindust örlitlir blóðblettir á úlpu ákærða sem varð til að varpa á hann sterkum grun en blóðið var úr hinum látna. Upptökur úr eftirlitsmyndavél við verslun í nágrenninu sýndu enn fremur að ákærði og hinn látni höfðu rifist rétt fyrir morðið.

Hafði breytt heimilinu í greni

Ákærði hringdi í lögreglu sunnudaginn 7. október og greindi frá því að hinn látni lægi meðvitundarlaus og blóðugur á heimili sínu að Hringbraut. Ákærði var nágranni hans í fjölbýlishúsinu. Er lögregla kom á vettvang var hann látinn en koddi var yfir höfði hans. Hann hafði fengið þung á höfuð og duftleifar úr slökkvitæki voru framan í honum. Slökkvitækið var á gólfinu og blóð úr hinum látna var á því.

- Auglýsing -

„Íbúðin sem hinn látni bjó í er í eigu Félagsbústaða Reykjavíkurborgar. Eftir ítrekaðar kvartanir nágranna kröfðust Félagsbústaðir þess að hinn látni yrði borinn út. Málið fór fyrir dómstóla og kvað héraðsdómari upp úr að hinn látni skyldi áfram vera í íbúðinni vegna þess að hann hefði aðeins fengið eina formlega viðvörun. Samkvæmt leigusamningi þurfti hins vegar tvær.

Georg Viðar Björnsson, húsvörður í húsinu á Hringbraut, sagði í viðtali í septemberlok 2007 að hinn látni hefði breytt heimili sínu í nokkurs konar greni.

„Það er hálfur bærinn á eftir honum og fólk kemur til hans bæði dag og nótt. Ef hann er ekki heima fer það bara inn um svaladyrnar,“ sagði Georg Viðar. Nágrönnum stóð stuggur af hegðun hins látna, en hann og gestir hans skildu eftir sig sprautur og nálar í húsinu.“

Reyndi að koma sök á nágranna

Þegar ákærði var spurður út í áverkana á hinum látna á vettvangi sagðist hann ekki hafa veitt honum þá en sagðist hafa konu sem bjó í húsinu grunaða. Eftir að lögregla hafði rætt við konuna var ekki talin ástæða til að gruna hana um ódæðið.

Niðurstaða dómstóla var að ákærði væri sakhæfur. Morðtilefni kom hins vegar aldrei fram og er hulið um hvað félagarnir tveir deildu. Ákærði bar við óminni fyrir atburðum.

Í dómi Hæstaréttar í málinu árið 2008 er það reifað svo:

Banamaðurinn var ákærður fyrir manndráp með því að hafa sunnudaginn 7. október 2007, veist að hinum látna á heimili hans og slegið hann minnst þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki, með þeim afleiðingum að höfuðkúpa brotnaði á þremur stöðum. Hann fékk mikla heilablæðingu sem dró hann til dauða að kvöldi. Ákærði neitaði sök.

Enginn á að þurfa að deyja á þennan hátt

Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að sannað væri að hinn ákærði hefði á þeim tíma sem hér um ræðir verið að langmestu leyti í óminnisástandi og því væri ekki byggjandi á reikulum framburði hans. Með vísan til blóðbletta á fatnaði ákærða, blóðs úr hins látna á slökkvitækinu, tæknirannsóknar lögreglu og til vitnisburðar nánar tilgreindra vitna, var talið sannað að ákærði hefði slegið að minnsta kosti þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitækinu sem sannað var með áliti réttarmeinafræðings að hefði leitt hann til dauða.

Þá var talið að ákærði hefði ekki geta dulist að höfuðhöggin myndu leiða til dauða. Var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann dæmdur til 16 ára fangelsisvistar. Fallist var á skaðabótakröfu systkina hins látna að fjárhæð 504.733 krónur, en hún var reist á reikningum sem tengdust sakarefni málsins.

Auk þess var hann dæmdur til að greiða systkinum hins látna hálfa milljón króna í skaðaætur. Lögmaður ákærða sagði eftir að dómurinn var kveðinn upp að tekin yrði ákvörðun síðar um það hvort málinu yrði áfrýjað. Til þess hefur ákærði fjórar vikur.

Systir hins látna, sagði: „það á enginn að þurfa að deyja á þennan hátt, hvorki hann né aðrir.“

 

Heimildir:

Ágúst Borgþór Sverrisson. 14. desember 2020. Tímavélin: Slökkvitækismorðið á Hringbraut – Blóðblettirnir sögðu söguna. DV.

Innlendar fréttir. 23. maí 2008. Hlaut 16 ára fangelsi fyrir manndráp við Hringbraut: Sló nágranna sinn þremur þungum höggum með slökkvitæki en neitaði ákærunni. MBL.

Innlent. 22. maí 2008. Sextán ára fangelsi fyrir manndráp við Hringbraut. Vísir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -