Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Malagafanginn – Þegar íslenska þjóðin safnaði pening fyrir góðkunningja lögreglunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslendingar hafa lengi verið þekktir fyrir miskunnsemi og gott hjartalag þegar kemur að lítilmagnanum. Þetta sést best þegar safna þarf fyrir einhverju misþörfu, til dæmis þegar safna þarf fyrir sveltandi börn úti í heimi eða þegar hljóðfæraleikarar vilja bestu mögulegu hljóðfærin, svo eitthvað sé nefnt. Árið 1985 söfnuðu Íslendingar pening fyrir Sigurð Stefán Almarsson, með hjálp DV, en hann hafði orðið fyrir því óláni að vera handtekinn á Spáni vegna gruns um að hann hefði brotist inn í íbúðir Íslendinga þar í landi. Var hann í fjölmiðlum kallaður Malagafanginn og má segja að hann hafi verið smástirni um hríð.

DV hóf umfjöllun um Malagafangann þar sem hann lýsti slæmum aðbúnaði í fangelsinu en hann kvaðst alsaklaus af glæpnum sem hann var sakaður um. Vöktu fréttirnar svo mikla athygli að fólk vildi endilega fá að senda honum pening og hafði DV milligöngu um þær sendingar. Þannig skrifaði einn lesandi Dagblaðs Vísis á sínum tíma:

3337-6995 hringdi: Mér finnst ábyrgðarlaust af íslenskum stjórnvöldum að frelsa ekki manninn sem er í haldi í Malaga. Hann er að niðurlotum kominn, taugakerfi hans er í rústum. Hér er um mannréttindamál að ræða. Maðurinn er íslenskur þegn og það þarf að koma honum út úr þessum vandræðum hið bráðasta. Ég hvet fólk til að láta heyra í sér vegna þessa máls.

Og svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi tekið þetta til sín, því DV sagði síðar frá heimsókn starfsmanns utanríkisráðuneytisins í fangelsið á Malaga:

Utanríkisráðuneytið: Ekki væsir um Malagafangann

Þótt drengurinn sé grunaður um innbrot og þjófnað er að sjálfsögðu óviðunandi að ekki sé búið að rétta í málinu eftir heila 8 mánuði. Það brýtur meira að segja í bága við spænsk lög, sagði embættismaður í utanríkisráðuneytinu um málefni Malagafangans. En það á ekki að væsa um hann í fangelsinu. Við höfum haft milligöngu um peningasendingar til hans, bæði frá aðstandendum og óskyldum. Þetta er maður sem á eftir óuppgerðar sakir hér á landi. Ég held að hann sé að bera saman aðstæður á Litla-Hrauni og þessu spænska fangelsi og honum líkar bersýnilega ekki sá samanburður, sagði embættismaðurinn. Í kjölfar skrifa DV um ömurlega aðstöðu þessa íslenska fanga á Malaga hafa fjölmargir einstaklingar tjáð sig reiðubúna til að láta fé af hendi rakna svo hægt sé að kaupa fangann út. Sjálfur segir Malagafanginn í bréfum, er borist hafa til DV, að verðið sé 100 þúsund krónur. Síðast þegar fréttist hafði íslenska söfnunarfólkinu tekist að öngla saman 60 þúsund krónum. -EIR.

En Malagafanginn var ekki allur þar sem hann var séður því upp kom grunur um að hann væri að stunda ávísanafals innan rimla fangelsisins:

- Auglýsing -

Malagafanginn ekki af baki dottinn:

Læðir ávísunum út á milli rimlanna

Allar líkur benda til þess að Malagafanginn stundi ávísanafals í klefa sínum í spænska fangelsinu í Malaga. Þar hefur hann sem kunnugt er setið á tíunda mánuð án þess að koma fyrir dómara. Ég keypti ávísun að upphæð 5.000 krónur í janúar síðastliðnum en fékk hana í hausinn frá bankanum nokkrum dögum síðar, sagði kaupmaður í Mosfellssveit í samtali við DV. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að ávísunin var undirrituð af Malagafanganum í bak og fyrir og dagsett 30.12.’84. Ávísun þessi er nú í vörslu Rannsóknarlögreglu ríkisins auk annarra er Malagafanginn gaf út án þess að innistæða væri fyrir hendi. Alls eru þær 8 talsins að upphæð 95.000 krónur, skrifaðar á Spáni en aðeins ein eftir að pilturinn var settur á bak við lás og slá. Megnið af ávísununum lenti i höndum okkar fyrir hreina tilviljun. Við vorum að gera fíkniefnaleit á pilti er var að koma frá Spáni og fundum þá í fórum hans fjölda ávísana undirritaðar af Malagafanganum, sagði rannsóknarlögreglumaður aðspurður. Það átti að koma þessu í pening hérlendis, alls 80.000 krónur.

- Auglýsing -

Að lokum kom óskabarn þjóðarinnar, Malagafanginn, heim á íslenska grund. Og það leið ekki langur tími þar til hann tók að brjóta af sér hér á landi. Dagfari skrifaði pistil um málið sem var marínerað í kaldhæðni og húmor:

 

Malagafanginn á heimavelli

Í fyrravetur bárust þær fréttir hingað til lands að ungur Íslendingur hefði verið handtekinn suður á Spáni, nánar tiltekið á Malaga, og þar hefði hann mátt dúsa í fangelsi mánuðum saman upp á vatn og brauð. Þessar fréttir fengu mjög á landann sem er góðhjartaður og miskunnsamur og má ekki aumur sjá á nokkrum manni. Áður en varði var hafist handa um almenna fjársöfnun fyrir Malagafangann og gekk maður undir manns hönd að leysa hann úr haldi.
Ekki dró það úr vorkunnsemi Íslendinga að við og við bárust bréf frá fanganum í prísundinni, þar sem hann lýsti á dramatískan hátt hörmungum sínum og aumkunarverðri vistinni innan fangelsismúranna, og bjuggust menn við því á hverri stundu að tilkynning bærist um dauða fangans vegna vosbúðar og pyndinga spánskra fangelsisyfirvalda.
Eftir margra mánaða harðræði og einangrun barst sú gleðifregn til Íslands að fanginn væri loks laus og var honum jafnskjótt sendur farmiði þar sem fanginn var boðinn velkominn heim.
Í öllu því írafári, sem yfir gekk til að forða þessum veslings einstæðingi og saklausa fórnarlambi úr höndum spánskra illmenna, láðist alveg að geta þess hvers vegna manninum hafði verið stungið inn. Helst var þó að skilja að meintur glæpur hans hefði verið sá, að hafa verið gripinn í misgáningi fyrir refsibrot, sem einhver annar hefði framið.
Aldrei hefur almennilega verið upplýst hvað endanlega olli þvi að fanginn slapp úr prísundinni. Í Helgarpóstinum í síðustu viku er hins vegar haft við þennan fanga viðhafnarviðtal, opinskátt og hreinskilið, eins og nú tíðkast, og þar kemur fram að það var enginn annar en sjálfur utanríkisráðherra sem gekk í málið í tilefni af heimsókn forseta Íslands til Spánar. Má af þessu sjá að Malagafanginn hefur verið látinn laus í skiptum fyrir forsetann og diplomatískan frið milli Spánar og Íslands. Af þessu er ljóst að Malagafanginn er og hefur verið þungavigtarmaður í pólitíkinni og ekki nema von að við hann séu birt viðhafnarviðtöl eftir heimkomuna.
Það láðist aftur á móti að taka það fram í þessu sama viðtali að Malagafanginn hefur gert það gott eftir að hann kom heim. Munu fáir menn hér á landi hafa getið sér jafngott orð hjá lögreglunni í Reykjavík sem þessi víðfrægi og stórpólitíski Malagafangi því varla hefur það innbrot verið framið hér á höfuðborgarsvæðinu að slóðina mætti ekki rekja til þessa sama manns. Um það leyti, sem viðtalið er tekið, mun kappinn hafa setið í Síðumúlanum fyrir margföld innbrot og aðra smáglæpi sem hann telur óþarfa að rekja í viðtölum við í fjölmiðla.
Sýnir það vel muninn á spönskum fangelsum og íslenskum að meðan hann þarf að smygla út bréfum úr prísund sinni á Spáni býður hann blaðamönnum til viðtala hér í Síðumúlanum. Í viðtalinu kemur fram að fangelsisvistin hafi ekki verið jafnslæm á Spáni eins og af er látið því yfir fangelsismúrana rigndi yfir hann og samfangana margföldum skömmtum af hvers kyns fíkniefnum sem héldu bæði honum og öðrum fangelsislimum við efnið. Er helst að skilja að það hafi verið óþarfa afskiptasemi hjá íslenska utanríkisráðherranum að skipta á sér og forsetanum og hrekja sig úr þessu ókeypis gósenlandi fíkniefnanna.
Malagafanginn heldur því statt og stöðugt fram að hann sé saklaus af ákærum á hendur sér fyrir þjófnað á Spáni. Sú afneitun er afar trúverðug enda varla við því að búast að maður, sem lætur greipar sópa um íslensk heimili, nenni að vera að stela einhverju smáræði af bláfátækum Spánverjum. Sannleikurinn er líka sá að menn fá ekki blaðaviðtöl við sig á forsíðum nema þeir steli af Íslendingum á heimavelli.

Baksýnisspegill þessi birtist áður 2. september 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -