2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Manndráp oftast framin af vini eða ættingja

„Manndrápsmál eru að öllu jöfnu ástríðutengd. Þetta eru þau mál sem snerta okkur dýpst,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Fregnir bárust í vikunni af manndrápsmáli á Spáni þar sem Íslendingar áttu í hlut. Guðmundur Freyr Magnússon, sem hefur á bakinu langan afbrotaferil á Íslandi, er í haldi vegna andláts Sverris Arnar Olsen um liðna helgi. Sverrir var sambýlismaður móður Guðmundar og því stjúpfaðir hans.

Mannlíf rifjar í dag upp átta manndrápsmál sem upp hafa komið allra síðustu ár, eða frá árinu 2016. Til viðbótar er fjallað um eitt mál þar sem gerandinn var dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða þolandans.

Gerandi oft vinur eða fjölskyldumeðlimur

Helgi bendir á að í flestum tilvikunum, eins og jafnan í manndrápsmálum, hafi gerandi og þolandi átt í nánu vina- eða fjölskyldusambandi. Oft sé um fjölskylduharmleik að ræða. „Fjölskyldutengsl eiga við í um helming manndrápsmála erlendis,“ útskýrir Helgi og bætir við að hlutfallið sé þó heldur lægra á Íslandi; gerandi og þolandi séu tengdir fjölskylduböndum í tæplega helmingi tilvika.

AUGLÝSING


Málið sem kom upp á Spáni um síðustu helgi er annað manndrápsmálið í röð þar sem Íslendingur er grunaður um að verða öðrum Íslendingi að bana á erlendri grundu. Gunnar Jóhann Gunnarsson situr í varðhaldi í Noregi, grunaður um að hafa drepið hálfbróður sinn seint í apríl í fyrra. Búist er við að málið fari fyrir dóm í Noregi í febrúar.

Noregsmálið er ekki eina nýlega dæmið um að maður verði bróður sínum að bana en þess má geta að Gunnar hefur játað að hafa valdið dauða bróður síns. Hann hefur þó fullyrt að um óhapp hafi verið að ræða.

Skemmst er að minnast málsins sem upp kom á Gýgjarhóli í Árnessýslu vorið 2018. Þá myrti Valur Lýðsson Ragnar bróður hans eftir að þeir höfðu setið að drykkju á heimili Ragnars. Fyrir það var hann dæmdur til 14 ára fangelsisvistar í Landsrétti í fyrra.

Annað mál, þar sem nánir fjölskyldumeðlimir áttu í hlut, kom upp á Akranesi vorið 2016, en talið er að eiginmaður hafi þar drepið eiginkonu sína áður en hann svipti sig lífi.

Ást, hatur, peningar eða öfund

Helgi segir að ást, hatur, öfund og peningar séu algeng undirrót manndrápa. Atvikin tengist yfirleitt uppgjöri vegna þessara þátta. „Þetta eru yfirleitt heitar tilfinningar; skilnaður, afbrýðisemi, hagsmunatengd mál eins og arfur og annað slíkt.“ Hann segir að í áttatíu prósenta tilvika sé um að ræða karlmenn sem drepi karlmenn, þegar horft sé á manndrápsmál almennt. „Það sem einkennir manndrápsmál eru þessi tengsl á milli gerenda og þolenda.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir að Birnu-málið og Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafi verið afar óvenjuleg út frá fræðilegu sjónarmiði.

Hann bendir þó á að manndráp sé eitt fátíðasta brotið sem sé framið; ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. „Það eru mun meiri líkur á því að látast fyrir eigin hendi en að vera myrtur. Og miklu meiri líkur á því að látast í bílslysi eða öðru slíku.“

Mál sem upplýsast jafnan hratt

Helgi segir það líka einkennandi fyrir þessi mál að þau upplýsist venjulega hratt. „Upplýsingatíðnin er hæst í manndrápsmálum af öllum brotum. Það eru oft svo náin tengsl milli aðila. Og oft kemur það fyrir að gerandinn tilkynnir um málið.“ Hann segir að þessi staðreynd stangist á við þá ímynd sem sjónvarpsáhorfendur fá af manndrápsmálum og nefnir í því sambandi rannsóknarlögreglumennina Barnaby og Sherlock Holmes, sem ráði morðgátur hvor á sínum vettvangi. „Veruleikinn er sá að þessi mál upplýsast hratt. Það þarf yfirleitt engan Sherlock Holmes til að ráða þessi mál.“ Hann nefnir að lögreglan setji manndráp jafnan í mikinn forgang – það kunni að eiga þátt í því hve þau upplýsast jafnan fljótt.

Geirfinnsmálið fráleitt

Helgi tekur þó fram að til séu dæmi á Íslandi um hið gagnstæða; þar sem leggja þarf mikið á sig til að upplýsa sakamál af þessum toga. Hann nefnir annars vegar Guðmundar- og Geirfinnsmálin og hins vegar morðið á Birnu Brjánsdóttur frá 2017. Þessi mál séu bæði þess eðlis að þau hafi heltekið þjóðina. „Þetta eru málin þar sem verið er að leita að morðingja; mál sem tikka ekki í þessi venjulegu box um mikil tengsl á milli aðila og ástríðu. Geirfinnsmálið var eiginlega fráleitt mál. Þar voru engin tengsl, engin ástríða eða sjáanleg ástæða. Þetta brýtur í bága við flest manndráp, meira og minna, hér heima og erlendis.“

Helgi segir að öll frávik þegar komi að manndrápsmálum veki yfirleitt mikla athygli; öll mál sem séu öðruvísi og þá sérstaklega þau mál sem séu ráðgáta, þar sem óvíst sé hver framdi voðaverkið. Hann segir að Birnu-málið hafi verið afar óvenjulegt. Það sé í fyrsta lagi óalgengt að kona sé drepin. Í öðru lagi sé það sjaldgæft að hún þekki ekki gerandann. Helgi segir að í sjötíu til áttatíu prósentum tilvika séu það karlar sem séu drepnir. „Það gerist yfirleitt aldrei að kona sé drepin með þessum hætti.“

Sjaldgæft að ráðist sé á konur í miðbænum

Helgi segir raunar að það sé mjög sjaldgæft að ráðist sé á konur sem séu einar á gangi í miðbænum. Tölfræði sýni að karlar séu í miklu meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi í miðbænum sem annars staðar.

„Það er afar fátítt að ráðist sé á konur niðri í bæ. Karlar verða miklu oftar fyrir ofbeldi af hálfu einhvers sem þeir þekkja ekki mikið. En konur verða yfirleitt fyrir ofbeldi af hálfu einhvers sem þær þekkja; það á við bæði um kynferðislegt ofbeldi og líkamlegt. Þrátt fyrir þessa staðreynd er alltaf þessi umræða um að konur óttist árásir frá ókunnugum mönnum þegar þær eru einar á gangi í miðbænum.“ Karlar þyrftu í raun að hafa meiri áhyggjur en konur á þessum slóðum.

Hnífur algengasta morðvopnið

Í tveimur af þessum málum sem greint er frá í Mannlífi í dag kemur skotvopn við sögu. Annars vegar í harmleiknum á Akranesi, þar sem hjón létust, en hins vegar í máli bræðranna í Noregi. Helgi bendir á að eggvopn séu notuð í um helmingi manndrápa á Íslandi. Þar á eftir sé algengt að fólk sé kyrkt með einhverjum hætti eða barefli notað. Í Bandaríkjunum sé skammbyssan mjög algeng í manndrápsmálum, enda sé skammbyssueign í Bandaríkjunum almenn. Hann segir að þrátt fyrir að Bandaríkjamenn telji sig eiga þessi vopn til að vernda fjölskyldu sína eða sjálfa sig, þá sé miklu algengara að byssunni sé beint að fjölskyldumeðlimum. Augnabliksæði renni stundum á fólk með þeim afleiðingum að það grípur til byssunnar.

Byssueign á Íslandi er tíð, þó skammbyssueign sé það ekki. Spurður hvað valdi því að sjaldgæft sé að skotvopn séu notuð til voðaverka á Íslandi svarar Helgi því til að aðgengi að skammbyssum sé hér mjög takmarkað. „Það er eitthvað í menningu okkar; við lítum ekki á skotvopn sem tæki til að verja okkur eða til að beina að öðru fólki. Við notum vopnin til að skjóta dýr eða í sporti. Þetta er eitthvað sem er greypt í menningu okkar. Byssa er ekki eitthvað sem við grípum til í örvæntingarfullum aðstæðum.“

Tvö manndráp á ári

Helgi segir að á Íslandi hafi síðastliðin 20 ár að jafnaði verið framin um tvö manndráp á ári. Sú tíðni hafi lítið breyst, þó að sum árin komi verr úr en önnur. Tíðnin sé það lág að horfa verði á þróunina yfir lengri tíma. Rétt liðlega 40 manndráp hafa verið framin á Íslandi frá aldamótum.

Helgi segir að tíðni manndrápa hér sé um 0,6 á hverja 100.000 einstaklinga á ári. Í vesturhluta Evrópu sé hlutfallið oft á bilinu 0,7 til 1,0 á hverja 100.000 íbúa, með einhverjum undantekningum þó, til hins verra. Ísland standi því nokkuð vel, tölfræðilega séð.

Eins og tvö nýjustu manndrápsmálin, sem ekki hafa verið til lykta leidd fyrir erlendum dómstólum, bera með sér eiga gerendur í þessum málum sér oft sögu um ofbeldisverk. Helgi segir að fólk sem drepi hafi yfirleitt ofbeldissögu að baki. Raunar sé það algengt að manndráp sé endapunktur á ofbeldisferli þeirra. „Það er mjög fátítt að þeir drepi aftur.“ Hann segist aðeins þekkja tvö dæmi þess á Íslandi að morðingi hafi drepið í tvígang.

Helgi bendir á að gerendur í manndrápsmálum glími oft við undirliggjandi andleg veikindi – þó að þeir séu margir metnir sakhæfir – og að verknaðurinn sé framinn í augnabliksæði. Mjög algengt sé að morð séu framin undir áhrifum áfengis- og eða vímuefna.

Íslendingar brjóta af sér í útlöndum

Tvö nýjustu manndrápsmálin þar sem Íslendingar eiga í hlut hafa gerst í útlöndum; í Noregi og á Spáni. Helgi bendir á að umræðan hér á landi, jafnvel á Alþingi, hafi verið á þá leið að við þurfum að senda erlenda glæpamenn til síns heima. Þeir taki dýrmæt pláss í fangelsum landsins. „Menn gleyma því að Íslendingar fremja afbrot erlendis líka. Við höfum fræg dæmi um fjölmiðlum um það, til dæmis hvað varðar fíkniefni. Útlendingar koma hér við sögu alveg eins og Íslendingar í útlöndum. Það er ekkert ósennilegt að þetta jafnist út. Það eru á bilinu 20 til 25 útlendingar í íslenskum fangelsum, að jafnaði. Það er svipaður fjöldi og Íslendingar í erlendum fangelsum.“

Staðreyndir um 32 manndráp á Íslandi á tímabilinu 1990-2010

  • 79% gerenda voru karlar, 21% konur
  • 75% þolenda voru karlar
  • Notast var við hníf í 44% tilvika
  • Fjölskyldu- eða vinatengsl voru í 72% tilvika
  • Í 9% tilvika þekktust gerandi og þolandi ekkert

 

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum