2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Mannshvörf á Íslandi: „Mikilvægt fyrir fólk að fá lúkningu“

Mannshvörf valda bæði óhug og samkennd meðal íslensku þjóðarinnar, enda íbúar fáir, sambýlið þétt og allir þekkja alla eða tengjast. Okkur finnst óhugnanlegt að einstaklingur geti horfið eins og jörðin hafi gleypt hann án nokkurrar skýringar. Hin óleysta gáta um hvað gerðist, hvers vegna og hvernig veldur ættingjum og vinum hugarangri og umræðan um mannshvörf og þá einstaklinga sem horfnir eru lifa lengi með fólki og leita ítrekað upp í umræðu og umfjöllun. Sumir lögreglumenn telja fulla þörf á að stofna „cold case“ deild, sem meðal annars gæti skoðað eldri mannshvörf.

Mannlíf fjallar um tíu mannshvörf frá árinu 1945. Til viðbótar er fjallað um eitt mál þar sem Íslendingur sneri heim eftir að hafa verið talinn látinn í 12 ár.

„Lögregluembættin annast leit þegar einstaklingur hverfur, við komum ekki inn í mannshvarfsmál fyrr en formlegri leit er hætt og einhverjir mánuðir eru liðnir frá því, “ segir Runólfur Þórhallsson, formaður kennslanefndar og aðstoðardeildarstjóri í greiningardeild ríkislögreglustjóra. „Við tryggjum að viðkomandi lögregluembætti fylli út alþjóðleg skjöl, svokölluð AM- og PM skjöl, um hinn horfna. Það er okkar aðkoma að mannshvörfum.“

Runólfur Þórhallsson, formaður kennslanefndar og aðstoðardeildarstjóri í greiningardeild ríkislögreglustjóra.

AUGLÝSING


Á skjölin sem byggja á stöðlum Interpol eru skráðar ítarlegar upplýsingar um hinn horfna sem nýtast kennslanefnd við að bera kennsl á viðkomandi, þar á meðal almennar upplýsingar, eins og nafn og fæðingardagur, sérkenni á borð við ör og húðflúr auk upplýsinga um lækni og tannlækni viðkomandi. Runólfur segir skjölin þó ekki fyllt út í öllum leitarmálum. „Ef vísbendingar eru um að hvarfið hafi verið með vilja, getur verið að skjölin séu ekki útfyllt og viðkomandi fari því ekki á horfinna manna skrá.

Þegar líkamsleifar finnast fer síðan ákveðið ferli í gang og við aðstoðum lögregluembættin við þau mál. Tæknideild lögreglunnar og lögregluembætti bera hitann og þungann af málunum. Við tryggjum að réttarmeinarannsókn fari fram og hvaða kennsl eru möguleg: er hægt að fara í tannlæknastaðfestingu, þarf að fara í DNA eða er mögulegt að taka fingraför, það eru þessi þrjú helstu kennsl,“ segir Runólfur. „Það er allur gangur á því hversu langan tíma tekur að bera kennsl á líkamsleifar. Það er meginreglan að hægt sé að ná DNA-sýni og tíminn að fá það greint tekur ekki langan tíma, getur hlaupið á vikum, mesta lagi mánuðum. Tæknideildin hér heldur utan um DNA-sýni, en við fáum staðfestingu og leitum til Svíþjóðar með þau. Það hefur hins vegar komið upp sú umræða að við getum farið að sinna þessari greiningu hér á landi.“

Mannshvörf frá 1945

Kennslanefnd starfrækt í rúm 30 ár

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur starfað frá árinu 1989, en hlutverk hennar er að bera kennsl á óþekkt lík eða líkamsleifar. Undir kennslanefnd heyra rannsóknarlögreglumenn, tæknimenn lögreglu; sérfræðingur á líftæknisviði (DNA), réttarlæknir, réttartannlæknar, meinafræðingur og læknir. Líkt og fram kemur í ársskýrslum lögreglunnar tók ríkislögreglustjóri þá ákvörðun árið 2014 að efla nefndina, meðal annars vegna stóraukins ferðamannastraums til landsins með aukinni hættu á að bera þurfi kennsl á fleiri einstaklinga en fyrr, bæði ef einstaklingar farast eða hópslys verða. Árið 2017 var fjölgað í nefndinni, en í henni eru þrír starfsmenn, og tæki voru keypt sem auðvelda störf tæknimanna, meðal annars handröntgentæki sem auðveldar störf réttartannlækna í nefndinni, bæði á vettvangi stórslyss og við líkskoðun og krufningar og sérstök myndavél ætluð réttartannlæknum til myndatöku af munnholi.

Skráin yfir horfna menn er meðal annars byggð á upplýsingum frá lögreglustjórum landsins sem ber að tilkynna mannshvarf innan þriggja mánaða frá því að það er tilkynnt, gömlum skjalaskrám og annars konar geymsluformum. Upplýsingar koma frá Slysavarnarfélaginu sem svo hét, en í einhverjum tilvikum eru blaðaúrklippur einu upplýsingar um viðkomandi mannshvörf.

„Við höfum rætt það margir lögreglumenn, sérstaklega þeir sem komnir eru á aldur, að við teljum fulla þörf á að vera með svona „cold case“-deild. Mannshvörf eru einmitt vettvangur sem gæti verið mjög sniðugt að garfa í og væri gagnlegt fyrir lögregluna, en ákærusviðið var á síðasta ári með 6.300 mál skráð og á meðan svo er þá er ekki tími til að skoða eldri mál. Þarna er sóknarfæri að nýta þá sem komnir eru á aldur til að koma inn í minnst hálfu starfi til að garfa í gömlun málum. Við í kennslanefndinni höfum, þegar tími vinnst til, farið á Þjóðskjalasafnið og borið saman dagsetningar og fleira, og gramsað þar í gömlum skjölum. Allavega að reyna að finna meira en gamlar blaðaúrklippur.“

Elísabet Bahr Ingólfsson

Hannes Pálsson

210 manns skráðir horfnir

Kennslanefnd heldur skrá yfir óupplýst mannshvörf, í henni eru nöfn 120 einstaklinga, sem horfið hafa frá árinu 1945 og teljast enn týndir, 1 kona og 119 karlar. Skráin er fyrsta heildstæða skrá yfir mannshvörf á Íslandi en töluverð vinna liggur að baki hennar. Í ársskýrslunni eru nöfn einstaklinga ekki birt, en upplýsingar eru birtar um árið sem viðkomandi hvarf og aldur hans þegar hann hvarf, kyn, ríkisfang, hvort hvarfið var á sjó eða landi og hvar talið er að viðkomandi hafi horfið, til dæmis í Reykjavík eða Skjálfandaflóa. Á skránni frá 1945 eru 65 mannshvörf á sjó, 10 einstaklingar sem hafa horfið hér á landi eru með erlent ríkisfang, og staðsetning þriggja mannshvarfa er skráð óljós. Þrír einstaklingar eru á lista yfir fólk sem hefur horfið erlendis á þessari öld, auk nokkurra eldri mála sem flest eru tengt sjóslysum, það yngsta frá árinu 1991, að sögn Runólfs. „Jón Þröstur Jónsson sem hvarf í Dublin á Írlandi í fyrra er kominn í skrána. Við höldum sérstaklega utan um mannshvörf erlendis. Fjöldi horfinna einstaklinga fer eftir hvaða tíma við miðum við, við höldum utan um horfinna manna skrá og á henni eru, frá upphafi skráningar, 210 manns,“ segir Runólfur. „Frá árinu 1945 eru þeir 120, í málunum sem eru eldri er kominn ákveðinn ómöguleiki í að staðfesta einhver kennsl.“

Sjá einnig: 120 mannshvörf á Íslandi síðan 1945

Júliús Karlsson og Óskar Halldórsson

Saknæmt athæfi skoðað í örfáum málum

Af þeim 120 mannshvörfum frá 1945 sem eru á skrá kennslanefndar eru einungis örfá mál þar sem rannsakað var hvort saknæmt afhæfi hafi átt sér stað. „Það fór talsverð vinna í mál Valgeirs Víðissonar og einnig Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem eru þau mál sem hafa einnig vakið mesta athygli. Meðan ekki er hægt að leggja fram skýr gögn um saknæmt athæfi þá heita málin mannshvörf,“ segir Runólfur.

Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson

„Mikilvægt fyrir fólk að fá lúkningu“

Í Mannlífi 31. janúar birtist viðtal við Birgittu Jónsdóttur, en með hjálp DNA-greiningar tókst nú í janúar að bera kennsl á höfuðkúpu föður hennar, Jóns Ólafssonar, sem hvarf á aðfangadag árið 1987. Höfuðkúpan sem fannst árið 1994 var rannsökuð á þeim tíma sem hún fannst með þeirri tækni og aðferðum sem til voru á þeim tíma, en síðan lá höfuðkúpan í geymslu lögreglunnar þar til hún var send í DNA-greiningu í fyrra. Nafn Jóns er því farið út af skránni um horfna menn.

Sjá einnig: Það verður að opna umræðuna um sjálfsvíg

„Við sáum það, eins og hjá Birgittu, hvað mikilvægt er fyrir fólk að fá lúkningu í þessi mál og því erum við að fara í það verkefni að byggja upp DNA-grunn til að stytta þennan greiningartíma. Ef við náum í ættingja allra þeirra sem eru á horfinna manna skrá og þeir veita samþykki sitt þá er hægt að vinna málin strax. Þetta eru erfið mál og það tekur verulega á fjölskyldu og vini að fá ekki skýra niðurstöðu,“ segir Runólfur Þórhallsson, formaður kennslanefndar og aðstoðardeildarstjóri í greiningardeild ríkislögreglustjóra.

„Ekki voru til DNA-sýni úr ættingjum Jóns, en vinna er hafin við safna sýnum frá ættingjum einstaklinga sem eru skráðir í gagnagrunni kennslanefndar sem óupplýst mannshvörf. Ekki er ljóst hversu mörg sýnin verða, en líklegt að þau muni skipta tugum. Runólfur segir fólk taka jákvætt í beiðni um DNA. „Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir og nokkrir eru á leiðinni til okkar og aðrir búnir að veita sýni. Við ætlum að leyfa tímanum aðeins að líða áfram og leyfa fólki að melta þetta áður en við förum í greiningarvinnu að hafa uppi á mögulegum ættingjum. Og einhvers staðar þarf að draga línuna, hversu langt aftur í tímann við viljum fara,“ segir Runólfur og telur líklegast að byrjað verði á yngri málunum.

Matthias Hinz og Thomas Grundt

Jón Þröstur Jónsson

Guðlaugur Kristmannsson

Halldór Heimir Ísleifsson

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum