Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Már Gunnarsson hlýtur Kærleikskúluna 2019

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Afhending Kærleikskúlunnar 2019 fór fram á Kjarvalsstöðum kl. 11. Monika Abendroth hörpuleikari setti athöfnina með hörpuleik. Áslaug Guðrúnardóttir kynningar- og markaðsstjóri Listasafns Reykjavíkur sagði frá listamanni Kærleikskúlunnar 2019.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var kynnir á athöfninni og systir hennar, Nína Kristín Sigurbjörnsdóttir, sá um að afhenda handhafa Kærleikskúlunnar 2019 sína viðurkenningu en Nína Kristín er meðal gesta Reykjadals. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til starfs í þágu barna og ungmenna sem koma í sumarbúðirnar Reykjadal.

Bjöllukór Valgerðar flutti ljúfa tóna og loks flutti handhafi Kærleikskúlu ársins, Már Gunnarsson eitt lag.

Framúrskarandi fyrirmynd

Már Gunnarsson sundkappi og tónlistarmaður er handhafi Kærleikskúlunnar 2019. Már er framúrskarandi fyrirmynd og hefur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra ákveðið að veita honum Kærleikskúluna í ár. Ólöf Nordal listakona gerir Kærleikskúluna sem heitir SÓL ÉG SÁ.

Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til Reykjadals, sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni.

- Auglýsing -

Blindan engin hindrun

Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Már Gunnarsson er tvítugur afreksmaður í sundi og tónlistarmaður. Það er álit stjórnar Styrktarfélagsins að Már sé einstök fyrirmynd. Hann er blindur en lætur það ekki hindra sig í að ná markmiðum sínum. Þrátt fyrir ungan aldur er Már afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í baksundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra.

- Auglýsing -

Már sló tíu Íslandsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í september auk þess sem hann vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi. Þá náði hann framúrskarandi árangri á íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í 25 metra laug en hann var þrisvar á tíma sem er undir núgildandi heimsmeti. Már setur markið hátt, hann stefnir á að komast á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó árið 2020 og ætlar sér að vinna til gullverðlauna í 100 metra baksundi.

Már er einnig tónlistamaður. Nýverið sópaði hann að sér viðurkenningum á Söngvakeppni Lionsklúbbsins fyrir blinda sem haldin var í Póllandi. Már var í þriðja sæti í keppninni en hann sló í gegn meðal áheyrenda og var valinn vinsælasti keppandinn. Að auki fékk hann verðlaun frá Félagi fréttamanna í Póllandi. Már er ekki bara einstök fyrirmynd fyrir íþróttmenn með fötlun, heldur er jákvæðni hans og staðfesta eftirtektaverð og eitthvað sem allir geta tileinkað sér.

Ólöf Nordal og Kærleikskúlan

Fingurnir skrifuðu Sólarljóð og hreyfðust aldrei síðan

Ólöf Nordal hefur skapað Kærleikskúluna SÓL ÉG SÁ. Verkinu fylgir þjóðsaga en Ólöf mun útskýra verkið nánar á Afhendingu Kærleikskúlunnar í dag. Hér er sagan sem fylgir verkinu: Þegar Sæmundur fróði lá banaleguna og mönnum virtist hann andaður hreyfðust á honum þrír fingurnir á hægri hendinni sem vildu þeir taka um eitthvað. Lengi voru menn í efa um hvað slíkt hefði að þýða; loksins voru ýmsir hlutir bornir að fingrunum, en þeir héldu áfram að hreyfast þangað til þeim var fenginn penni, þá beygði sig einn fingurinn utan um hann; síðan var réttur pappír hinum fingrunum, og beygði sig annar fingurinn að honum; þá var nú sjálfsagt að fá hinum þriðja blekbyttuna. Eftir það skrifuðu fingurnir Sólarljóð og þegar þeim var lokið slepptu þeir ritfærunum og urðu máttvana og hreyfðust aldrei síðan.

Ólöf er afkastamikill listamaður og eru verk hennar fjölbreytt. Hún er höfundur margra útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi, má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Vitid ér enn – eda hvat? í anddyri Alþingishússins, Bríetarbrekku við Þingholtsstræti og umhverfislistaverkið Þúfu á Granda. Nú stendur yfir yfirlitssýning í Listasafni Reykjavíkur á verkum Ólafar. Titill sýningarinnar er ÚNGL og spannar tæplega þrjátíu ára feril hennar. Ólöf hefur gefið Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra Kærleikskúluna SÓL ÉG SÁ og allur ágóði af sölu hennar rennur til sumarbúðanna Reykjadals.

Kærleikskúlan 2019

Ævintýri og ógleymanlegar minningar í Reykjadal

Sala Kærleikskúlunnar skipar stóran sess í fjáröflunarstarfi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þetta er í sautjánda sinn sem félagið gefur út Kærleikskúluna en margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa lagt félaginu lið með því að skapa listaverk á glerkúluna.

Kærleikskúlan SÓL ÉG SÁ kemur í verslanir um land allt laugardaginn 7. desember. Söluaðilar kúlunnar taka enga þóknun fyrir söluna. Því rennur allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. Þangað koma fötluð börn og ungmenni alls staðar að af landinu. Dvölin börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en mikið er lagt upp úr því að skapa ævintýri og ógleymanlegar minningar hjá þeim gestum sem þar dvelja.

Fjölbreytt safn listaverka

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og er SÓL ÉG SÁ því sautjánda kúlan. Úr er orðið fjölbreytt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum.

Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson og Elín Hansdóttir. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni: www.kaerleikskulan.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -