Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Miðgarður kominn með leyfi til að hýsa leiki í efstu deildum: „Það liggur fyrir frá KSÍ“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dýrasta knattspyrnuhús landsins, Miðgarður er orðið gjaldgengt til að hýsa knattspyrnuleiki í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu, en hingað til hefur Garðabær sagt húsið vera byggt til æfinga og annarra nota.

Fyrri fréttir

Í frétt DV um áhorfendastæði Miðgarðs í apríl í fyrra var sagt frá því að áhorfendur sjái ekki nema um 85 prósent af keppnisvellinum í höllinni og í annarri frétt frá DV er talað um að hin 18.200 fermetra höll, sem kostaði um fjóra milljarða króna, uppfyllti ekki skilyrði til þess að hægt væri að keppa í henni í efstu deildum Íslands. Til þess væri lofthæðin of lág eða 14 metrar en lágmarkshæð fyrir keppnisvöll eru 20 metrar. Í Dr. Football-hlaðvarpsþættinum var hneikslast á þessu en þar lét Hjörvar Hafliðason hafa eftir sér eftirfarandi orð: Garðbæingar byggðu dýrustu höll sögunnar og það má ekki keppa í henni. Geta þessir jólasveinar ekki gert neitt rétt í Garðabænum?“

Séð frá hinu sérkennilega áhorfendastæði
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Þessu svöruðu bæjaryfirvöld og sögðu að aldrei hafi verið ætlunin að byggja keppnishöll fyrir efstu deildir knattspyrnunnar heldur hafi húsið aðeins verið ætlað fyrir æfingar og æfingaleiki, auk annarrar þjónustu sem þangað er hægt að sækja. Þá hafi verið ákveðið að láta áhorfendur mæta afgangi því áherslan væri á iðkendur og þjálfara. Í svörum frá bænum sem DV fékk, kom fram að byggingareiturinn hafi verið svo takmarkandi fyrir breidd salarins að þetta hafi verið eina raunhæfa lausnin.

Viðsnúningur

Nú virðist hinsvegar komið annað hljóð í skrokkinn ef svo má að orði komast. Í svörum bæjarins við spurningum Mannlífs um knattspyrnuhöllina kom meðal annars fram að Miðgarður sé gjaldgengur fyrir leiki í efstu deildum knattspyrnunnar. Spurningin hljóðaði svo: „Telur Garðabær kostnaðinn við byggingu og hönnun Miklagarðs ásættanlega, í ljósi þess að einungis er hægt að bjóða upp æfingar í húsinu en ekki keppnisleiki í efstu deildum?“ Svar barst frá Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, samskiptastjóra Garðabæjar: „Það liggur fyrir frá KSÍ að það er hægt að spila knattspyrnuleiki í Miðgarði í öllum flokkum á öllum getustigum, þar með talið meistaraflokkum karla og kvenna í öllum deildum. Nú þegar hefur fjöldi kappleikja farið fram í húsinu, þar á meðal landsleikir. Áhorfendasæti eru fyrir rúmlega 800 manns.“

- Auglýsing -

Mannlíf reyndi að ná sambandi við formann og stjórn KSÍ til að fá þetta staðfest en hefur ekki fengið nein svör, hvorki í tölvupósti né í gegnum síma.

Myglan á undanhaldi

Jarðvegssveppur greindist undir gervigrasinu í Miðgarði í október í fyrra, eftir mikið vatnsveður. Vel hefur tekist að halda sveppinum í skefjum en von er á að skemmt efni undir gervigrasinu verði fjarlægt von bráðar. Mannlíf spurði Garðabæ eftirfarandi spurningu: „Geturðu sagt mér hvað lekinn sem varð í húsinu í fyrra, sem olli myglu í gervigrasinu, hefur kostað Garðabæ? Hvernig ganga viðgerðir á gervigrasinu? Hver ber ábyrgð á þeim galla sem olli lekanum sem varð í óveðri?“

- Auglýsing -

Í svari samskiptastjóra bæjarins kemur fram að kostnaðurinn sem fram er kominn sé tiltölulega lágur eða um fjórar milljónir en enn á eftir að skipta á grasinu.

„Eftir að jarðvegssveppurinn greindist undir gervigrasinu hefur það verið úðað með sótthreinsiefnum á 6 vikna fresti auk þess sem tekin hafa verið ryksýni úr andrúmslofti í knattspyrnusalnum til að meta hvort gró eru í andrúmsloftinu. Ljóst er að með þessum ráðstöfunum hefur tekist að halda sveppnum í skefjum og engin önnur merki um myglu komið fram. Kostnaður vegna þessa, það er sýnataka, framkvæmdir og hreinsun nema tæpum 4 milljónum króna (samtals fyrir árin 2022 og það sem af er ári 2023).  Fjarlægja þarf skemmt efni undan gervigrasinu og hreinsa eftir það samkvæmt þeim leiðbeiningum og verklagi sem Mannvit heldur utan um fyrir Garðabæ.

Stefnt er að því að gera það þegar knattspyrnuvertíðin hefst fyrir alvöru utanhúss og verður því lokið fyrir haustið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -