Laugardagur 9. nóvember, 2024
10.5 C
Reykjavik

Mikið ósætti meðal kennara vegna skæruverkfallanna: „Ég er að segja þér að þetta er fjarstæða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kennarar skiptast í tvær fylkingar vegna hinna nýju verkfallsaðgerða sem kosið er nú um. Í öðrum hópnum eru þeir kennarar sem finnst þetta frábær leið til að knýja fram betri kjör en í hinum hópnum tala menn um siðleysi.

Til hádegis í dag gefst kennurum í leik- grunn og framhaldsskólum landsins að kjósa um fyrirhuguð skæruverkföll. Kennarasambandið hefur nú valið átta skóla á landinu og einn tónlistarskóla, þar sem kennarar eiga að leggja niður störf, ýmist tímabundið eða ótímabundið, þar til tekst að semja um betri kjör. Þeir kennarar sem Mannlíf hefur rætt við að undanförnu segja að fólk innan þeirra raða sé ýmist mjög hlynnt þessari nýstárlegu hugmynd að kennaraverkföllum eða mjög á móti þeim og hafa jafnvel gengið svo langt að kalla þetta siðleysi.

Fjarstæðukenndar sögusagnir

Sögusagnir meðal sumra kennara sem Mannlíf hefur rætt við segja að skólarnir sem valdir voru til að fara í verkföll, hafi verið valdir þannig að innan skólanna séu börn fulltrúa samninganefndar Samtaka sveitarfélaganna við nám. Þessu neitaði Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara í samtali við Mannlíf á dögunum og sagðist dást að hugmyndarflugi fólks.

Í sama streng tekur Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands og meðlimur í stjórn Kennarasambands Íslands.  „Ég held þú getir nú svarað þeirri spurningu sjálfur,“ sagði Þorsteinn í samtali við Mannlíf og skellihló, aðspurður út í sögusagnirnar sem sagt er frá hér að ofan. Bætti síðan við, enn hlæjandi: „Sko, það kemur bara í ljós á morgun [í dag. innskot blaðamanns.] hvaða skólar þetta eru og þá koma örugglega fram einhverjar kenningar“. Spurður hvort hann neiti þessu alfarið svaraði Þorsteinn: „Get ég ekki neitað þessu? Ég er bara að segja þér að þetta er fjarstæða“.

Aðspurður um það hvernig skólarnir hafi verið valdið svarar Þorsteinn: „Ég get ekkert svarað þeirri spurningu einu sinni. Það var bara, hvað á maður að segja? Það voru valdar mismunandi skólagerðir til að spegla landið allt og ef þetta gengur ekki þá koma bara aðrir skólar og aðrir skólar. Og það eru engar djúpar pælingar í því. Alls ekki,“ sagði Þorsteinn og hló.

- Auglýsing -

En hvað finnst Þorsteini um siðferðislegu hliðina á skæruverkfalli kennara, að velja ákveðinn hóp af börnum til að missa úr námi svaraði hann: „Þetta svarar sér eiginlega sjálft. Það var ágætis umræðuþáttur á RÚV heyrði ég, skýring fræðimanns á því. Ég ætla ekkert að kommentera á þetta, þetta er bara sú aðferð sem við erum að fara til þess að ná árangri fyrir okkar félagsmenn og fyrir börnin í landinu fyrst og fremst. Við erum að fara í slíkar aðgerðir ekki síst fyrir börnin í landinu.“

En ef kemur til verkfalls mun ákveðinn hópur missa úr námi ekki satt?

„Ja, svona er bara staðan, þegar grípa þarf til aðgerða þá eru það alltaf einhverjir sem lenda fyrir slíku“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -