Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Milljarður dýra drepist í eldunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Myndir af brenndum kóalabjörnum og munaðarlausum kengúruungum í kjölfar gróðureldanna í Ástralíu hafa vakið sterk viðbrögð um allan heim. Áætlað er að milljarður dýra hafi drepist og óttast um einstaka tegundir. Óvíst er hvað verður eftir þegar eldarnir slokkna.

Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur og verkefnastjóri hjá Landvernd.

„Þessar tölur koma frá Chris Dickman, sem er aðalvistfræðingurinn úti, og þetta er varlega áætluð tala fyrir New South Wales, sem hefur orðið verst úti. Það er næstum alveg öruggt að þetta er meira en milljarður dýra.“ Þetta segir Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur og verkefnastjóri hjá Landvernd, um fregnir þess efnis að meira en milljarður dýra hafi drepist í gróðureldunum sem nú geisa í Ástralíu. Dickman, sem er prófessor við University of Sidney, áætlar að 800 milljónir dýra hafi drepist í New South Wales og milljarður á landsvísu. Alls 27 manneskjur hafa látist og 1.600 heimili verið eyðilögð í eldunum, sem hafa farið yfir svæði sem er stærra en Danmörk og Belgía samanlagt.

Myndir af brenndum kóalabjörnum og munaðarlausum kengúrum hafa verið birtar um allan heim en mun fleiri tegundir eru undir og margar sem finnast aðeins í Ástralíu. Í tölum Dickman eru spendýr (fyrir utan leðurblökur), fuglar og eðlur en ekki froskar og skordýr. Um 34 tegundir spendýra hafa orðið útdauðar í Ástralíu á síðustu 200 árum, fleiri en nokkurs staðar annars staðar. Áhyggjur eru uppi vegna gljáandi svarta kakadúans en 300 til 370 voru eftir á Kangaroo Island áður en eldar fóru þar yfir.

Óvíst um líf eftir eldana
„Fólk tengir við kóala og kengúrur en ég hef minnstar áhyggjur af þeim,“ segir Rannveig. Hún ítrekar að um hörmungar sé að ræða fyrir einstaka dýr en „við erum ekki að fara að glata þessum tegundum.“ Í meiri hættu eru tegundir á borð við pokamúsina sem hún rannsakaði í Viktoríu-fylki. „Það eru þessi litlu dýr sem eru búin að lifa mikil áföll í gegnum tíðina; þegar maðurinn kemur og fer að eyða búsvæðum og kemur með tegundir á borð við ketti og refi sem hafa veikt stofnana. Svo koma þessir miklu gróðureldar og þeir geta brennt allt til kola,“ segir Rannveig.

 „Allir vinir mínir úti eru í áfalli. Það eru tveir mjög heitir mánuðir eftir en á venjulegu ári væri eldatímabilið að byrja núna.“

Sérfræðingar hafa bent á að jafnvel þótt dýrin nái að bjarga sér og flýja, eða grafa sig neðanjarðar og bíða, sé ekki útséð um að þau lifi af. „Svæðin eru mismikið brunnin. Ef svæðið sleppur vel þá nær það sér og verður fljótt aftur grænt. Þá geta dýrin snúið aftur. En ef allt er sviðið til ösku þá er það ekki lífvænlegt umhverfi fyrir dýrin,“ segir Rannveig. Jafnvel þótt eldarnir slokknuðu á morgun sé skaðinn nú þegar því gríðarlegur.
„Allir vinir mínir úti eru í áfalli. Það eru tveir mjög heitir mánuðir eftir en á venjulegu ári væri eldatímabilið að byrja núna,“ segir Rannveig. Ómögulegt sé að segja hvaða áhrif hamfarirnar muni hafa til lengri tíma. „Allar tegundir sinna sínu hlutverki í vistkerfinu. Ein tegund heldur annarri í skefjum og þegar tegund hverfur þá hnigna aðrar eða fjölgar. Það raskar vistkerfinu.“ Þá sé ótalið það tjón sem eldarnir hafa og muni valda mannfólkinu.

„Versta martröðin að verða að veruleika“
„Það er búið að vara við þessu mjög lengi og þess vegna er reiðin mjög mikil,“ segir Rannveig um stemninguna meðal vina sinn í Ástralíu og Ástrala almennt. „Þetta kemur vísindamönnum ekki á óvart; það var búið að spá þessu og allt sem menn voru að segja að myndi gerast er að gerast. Þetta er klassísk birtingarmynd loftslagshamfara; tíðni þeirra mun aukast og þær verða ofsafengnari. Þetta er versta martröðin að verða að veruleika.“

Hamfarir í dýraríkinu
*Til að setja tölurnar í samhengi taldi íslenskur búpeningur um 791 þúsund dýr árið 2018 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Inni í tölunni eru minkar og kanínur en ekki hross.
*Dýr á borð við kóalabirni, kengúrur og vamba drepast þegar þeir brenna eða kafna í reyknum. Áætlað er að næstum þriðjungur allra kóalabjarna í New South Wales hafi drepist og að þriðjungur heimkynna þeirra sé eyðilagður.
*Önnur dýr, t.d. lítil spendýr og eðlur, geta forðað sér neðanjarðar eða undir grjót en verða hungurmorða eða rándýrum að bráð þegar eldarnir slokkna og ekkert er eftir.
*Hver dýrategund á jörðinni telur að meðaltali 220 stofna og á því auðvelt með að ná sér ef aðeins nokkrir stofnar deyja út. „Ef þeim fækkar hins vegar einn af öðrum þá verða að lokum sex eftir, þrír, tveir, og jafnvel bara einn,“ segir Dickman. „Þá þarf bara einn atburð og tegundin er horfin; eld, þurrka, hvað sem er.“

Rannveig segir áströlsk stjórnvöld hafa sýnt algjört skilningsleysi á þeirri hættu sem hefur blasað við og stjórnmálamennirnir verið uppteknir við að standa vörð um hagsmuni kolaiðnaðarins. Það verði áhugavert að fylgjast með pólitíkinni næstu misseri.
„Fólkið mitt er í áfalli,“ segir hún um vini sína sem margir eru líffræðingar. „Þetta er fólk sem á að vera að rannsaka dýrin þarna úti. Ég held þeir séu næstum því í afneitun. Þetta er bara sorgarferli, næst verður maður reiður og svo fer maður að sætta sig við þetta og láta til sín taka. En þetta er svo ofboðslega sorglegt, þetta er svo mikið tap.“

- Auglýsing -

Eldarnir muni að sjálfsögðu slokkna að lokum en þá sé spurning hvað verði eftir.
„Maður veit ekki hvað skaðinn verður mikill og hvernig náttúran mun jafna sig. En fórnarkostnaðurinn er allt of mikill. Þarna úti er árlegt „fire-season“ sem fólk er búið undir en nú erum við bara komin á einhvern stað og í eitthvert óþekkt ástand. Maður getur samt ekki haldið áfram nema með von í hjartanu. En þetta er á mælikvarða sem við höfum bara ekki séð áður.“

Handíðir til bjargar dýrunum

„Það þarf að bjarga þessum dýrum sem þó hafa lifað af,“ segir Rannveig um samstillt átak þúsunda víðsvegar um heiminn sem hafa tekið að sér að sauma, prjóna og hekla ýmsar nauðsynjar fyrir þau dýr sem hafa orðið illa úti í eldunum.

Út um allan heim hefur fólk á öllum aldri setið við að útbúa vettlinga fyrir kóalabirni, vefjur fyrir leðurblökur og poka fyrir kengúrur og vamba, sem ungviðið þarf á að halda til að vaxa úr grasi. Áströlsku samtökin Animal Rescue Craft Guild eru meðal þeirra sem hafa látið til sín taka en á Facebook-síðu þeirra er að finna bæði snið og upplýsingar um hvers konar nauðsynja sé þörf. Víða hafa vefnaðarvöruverslanir gefið afslátt vegna handíðanna.

Í erlendum miðlum hefur mátt lesa átakanlegar frásagnir um fólk sem hefur farið á milli pokadýra sem hafa drepist til að athuga hvort ungviði leynist í pokunum en Rannveig segir þetta nokkuð sem Ástralir þekkja vel. „Þetta er eitthvað sem þú gerir þegar þú keyrir á dýr til dæmis. Þú stoppar og hugar að dýrinu og ef þetta er kvendýr þá kíkir þú í pokann og ef þú finnur lifandi unga þá tekur þú hann með þér.“ Ungviðið geti lifað þótt mæðurnar drepist og við alla vegi sé að finna leiðbeiningar um hvað beri að gera.

- Auglýsing -

Nú sé hins vegar svo komið að allir dýraspítalar og athvörf séu stútfull. Þeir sem vilja láta gott af sér leiða geti t.d. tekið upp veskið og styrkt dýraverndarsamtök til lyfjakaupa, nú eða tekið upp prjónana. „Það er sterkt í okkur Íslendingum að prjóna og manni líður svo illa en þetta er eitthvað sem við getum gert. Þá líður manni betur í hjartanu,“ segir Rannveig.

Tekið verður á móti hjálpargögnum á Kex Hostel 3. febrúar en eftir þann tíma má koma þeim til Landverndar í Guðrúnartún 8.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -