Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Móðir Heklu Lindar segir mál George Floyd „rífa upp sárið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta rífur upp sárið,“ segir Guðrún Haraldsdóttir, móðir Heklu Lindar Jónsdóttir sem lést í apríl 2019 við handtöku, um mál Bandaríkjamannsins George Floyd. Floyd lést 25. maí við handtöku þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin lét þunga sinn hvíla á hálsi hans. Mikil mótmæli hafa brotist út í Bandaríkjunum og víðar í kjölfar andláts Floyd.

Hekla Lind og Guðrún.

„Ég vil ekkert blanda þessum tveimur málum saman en ég verð að viðurkenna að þetta rífur upp sárið. Þarna erum við með tvo jaðarhópa, hann var svartur Bandaríkjamaður, og hún var fíkill, og bæði verða þau fyrir lögregluofbeldi og láta lífið við handtöku. Það er ljótt að segja það, en það er eins og ákveðnir hópar hafi ekki mannréttindi,“ segir Guðrún.

„Í tilfelli Heklu er eins og lögreglan leyfi sér að koma illa fram við hana af því að hún var fíkill. Hún var bara venjuleg stelpa en var veik,“ útskýrir Guðrún.

Hekla Lind lést þann 9. apríl 2019 við handtöku og rannsókn réttarmeinafræðings leiddi í ljós að harkalegar aðgerðir lögreglu við handtöku áttu þátt í dauða hennar.

Héraðssaksóknari hóf rannsókn á málinu en málið var látið niður falla í lok sumars 2019. Guðrún og fjölskylda Heklu eru ósátt við það. „Við erum auðvitað ósátt við að málið hafi verið fellt niður en það er núna komið inn á borð umboðsmanns Alþingis.“

Engin upptaka af handtökunni

- Auglýsing -

Mikil umræða hefur skapast í kringum mál Floyd um þá staðreynd að handtakan náðist á myndband þar sem Floyd sést berjast fyrir lífi sínu. Guðrún segir handtöku Heklu ekki hafa náðst á myndband en veltir fyrir sér hvort málið hefði þróast öðruvísi hefðu lögreglumennirnir tveir sem handtóku hana verið með myndavélar á sér.

„Enginn veit hvað gerðist nákvæmlega. Það sem við vitum er hvað réttarmeiningafræðingur segir og hver niðurstaða krufningarskýrslu er,“ útskýrir Guðrún og tekur fram að þær upplýsingar bendi til að lögreglumennirnir hafi farið offari við handtökuna.

„Við vitum að aðgerðir þeirra áttu þátt í því að hún lést. Hún var lítil og nett en þeir báðir yfir 100 kílóum.“

- Auglýsing -

Reynt að „svæfa málið“

Guðrún og aðrir fjölskyldumeðlimir Heklu vöktu athygli á máli hennar á samstöðufundinum sem var haldinn á Austurvelli í vikunni. Hún segir margt fólk hafa komið upp að þeim og sýnt þeim stuðning.

„Fólk sem við þekkjum ekki neitt kom upp að okkur og sýndi okkur samstöðu. Maður fann fyrir stuðningnum,“ segir Guðrún.

Hún segir fjölskylduna eiga fullt í fangi með að halda máli Heklu á lofti í von um að ná fram einhverju réttlæti. „Hún á að fá rödd en það er eins og það sé verið að reyna að svæfa málið. Við getum ekki sætt okkur við það.“

Hún bætir við að það sem fjölskylda Heklu vilji sé að yfirvöld viðurkenni að um mistök við handtöku hafi verið að ræða. „Þó að viðurkenndar handtökuaðferðir hafi verið notaðar, eins og lögreglan heldur fram, þá þarf að spá í hvern er verið að handtaka. Það þarf að lesa í aðstæður. Hún var enginn glæpamaður, hún gerði ekkert af sér en hún var í slæmu geðrofi.“

„Hún á að fá rödd en það er eins og það sé verið að reyna að svæfa málið.“

Eins og áður sagði er mál Heklu Lindar á borði umboðsmanns Alþingis. „Við erum þakklát fyrir að það sé verið að skoða málið. Það sem við viljum er að lögreglan viðurkenni að mistök við handtöku hafi valdið dauða hennar.“ Guðrún bætir við að það sé sárt að standa í þessari baráttu ofan á allt annað sem á undan er gengið.

Hún vonast líka til að mál Heklu Lindar veki fólk til umhugsunar um réttindi fólks með fíknisjúkdóma. „Meðferðin sem Hekla hlaut þegar hún var handtekin … ég er ekki viss um að ég eða þú myndum hljóta svona meðferð. Fólk sem glímir við fíkn er oft fársjúkir einstaklingar og að þarf að viðurkenna það og skoða hvernig á að koma fram við þessa einstaklinga. Þetta er fólk sem þarf á hjálp að halda og það þarf að koma vel fram við það.“

Guðrún segir hvern sem er geta leiðst út í fíkn og segir dóttur sína vera gott dæmi um það. „Fíkn spyr ekki um stétt né stöðu. Það hefði engan grunað að þessi flotta stelpa myndi fara út í eitthvað rugl. Hún átti fjölskyldu sem studdi hana, var afburðanemandi og stóð sig alltaf vel. Svo fór hún eitthvað að fikta og var greinilega með þennan fíkil í sér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -