Föstudagur 20. maí, 2022
12.8 C
Reykjavik

Morðin á Sjöundá: Lögðu á ráðin um að drepa maka sína

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Vorið 1802 hvarf maður frá bænum Sjöundá á Rauðasandi. Hann hafði búið á hálfri jörðinni ásamt konu sinni og börnum, en á hinum helmingi jarðarinnar bjuggu önnur hjón. Talið var að maðurinn hefði látist af slysförum – sennilega hefði hann hrapað fyrir björg. Þegar húsfreyjan á hinum helmingi jarðarinnar lést hinsvegar skyndilega um tveimur mánuðum síðar, læddist að mörgum sá grunur að dauðsföllin hefði hugsanlega ekki borið að með eðlilegum hætti. Á þeim tímapunkti var það nefnilega á flestra vitorði að ekkjan og ekkillinn væru að draga sig saman – og hefðu raunar verið byrjuð á því fyrr um veturinn.

 

Jón hverfur

Hjónin Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu á bænum Sjöundá á Rauðasandi, ásamt börnum sínum þremur. Bærinn var kenndur við ána Sjöundá, sem var nefnd svo vegna þess að hún var sjöunda áin frá Bjarnkötludalsá.

Vorið 1801 fluttust þangað önnur hjón til þess að taka yfir helming jarðarinnar á móti Bjarna og Guðrúnu; þau Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir. Jón og Steinunn áttu fimm börn. Sá orðrómur komst fljótlega á kreik að þau Bjarni og Steinunn hefðu farið að draga sig saman framhjá mökum sínum, ekki svo löngu eftir að seinni hjónin fluttu á jörðina. Samkvæmt heimildum var samkomulagið á Sjöundá ekki til fyrirmyndar veturinn á eftir.

Það var síðan í apríl árið 1802 að Jón hvarf sporlaust. Þegar ljóst varð að hann myndi ekki skila sér var talið sennilegt að hann hefði hrapað fyrir björg í Skorarhlíðum, sem eru dálítið austan við Rauðasand. Þá voru þau þrjú eftir fullorðin á bænum.

 

Skyndilegur dauði Guðrúnar

- Auglýsing -

Það var einungis um tveimur mánuðum síðar að Guðrún Egilsdóttir lést sviplega á heimili sínu. Þá fór sveitunga þeirra Bjarna og Steinunnar að gruna að ekki væri allt með felldu.

Þegar sá orðrómur að þau Bjarni og Steinunn hefðu ráðið mökum sínum bana var orðinn ansi hávær, ákvað séra Jón Ormsson að láta hreppstjórana Sigmund Jónsson og Ólaf Sigurðsson opna kistu Guðrúnar, áður en hún var greftruð, og skoða líkið gaumgæfilega. Fleiri voru á staðnum þegar kistan var opnuð, enda var það gert inni í kirkjunni sjálfri. Ýmsir þeirra virðast sömuleiðis hafa fengið að virða líkið fyrir sér og voru allir þessir menn að mestu sammála um það að enga áverka mátti sjá á líkinu sem gátu bent til saknæms athæfis. Séra Jón Ormsson skrifaði sýslumanni þessa álitsgerð sína og sagði sömuleiðis að þrátt fyrir orðróminn í sveitinni teldi hann sjálfur að Guðrún hefði látist vegna „veikleika“ sem hafði plagað hana reglulega síðustu árin. Það var því ljóst að Guðrún hafði ekki verið fullkomlega heilsuhraust.

 

Grunur styrkist

- Auglýsing -

Þarna virtust þau Bjarni og Steinunn því vera laus allra mála. Sögusagnirnar gerðu það þó að verkum að Steinunni var gert að flytjast með börn sín, búslóð og fé frá Sjöundá. Hún var látin setjast að hjá bróður sínum að Grænhól á Barðaströnd.  Augljóst var að sambandi þeirra Steinunnar og Bjarna var þó ekki lokið, því Bjarni ræddi það stuttu síðar við prófast að þau Steinunn vildu fá að eigast sem fyrst og hefja búskap saman, með blessun kirkjunnar.

Sumarið leið, en ljóst var að ekki voru allir enn sannfærðir um sakleysi parsins. Jón Pálsson, hreppstjóri í Keflavík, var einn þeirra sem var þess fullviss að dauða Guðrúnar hefði borið að með saknæmum hætti, hvað svo sem líkskoðunin átti að hafa leitt í ljós. Hann var sagður hafa tekið Bjarna tali og sagt við hann að sá orðrómur væri á kreiki að Steinunn hefði drepið Guðrúnu með því að byrla henni eitur út í vatnsgraut. Bjarna átti að hafa orðið brugðið við þessa ásökun. Samkvæmt Jóni Pálssyni svaraði hann því til að hún hefði ekki dáið af því, heldur hefði henni batnað. Jón sagðist þá hafa þrýst meira á hann, en Bjarni hafi þá snúið við og þrætt ákaft fyrir að Guðrúnu hefði verið byrlað eitur. Hann þverneitaði því líka yfir höfuð að nokkur tilraun hefði verið gerð til þess að bana henni. Eftir þessi samskipti styrktist Jón Pálsson hreppstjóri enn frekar í grunsemdum sínum.

Um haustið var formlega óskað eftir því að dauði Guðrúnar og hvarf Jóns yrði rannsakað og málsókn fyrirskipuð á hendur Bjarna og Steinunni, þar til þau yrðu annað hvort hreinsuð af sökum eða sakfelld. Sömuleiðis átti að sækja séra Jón Ormsson og skoðunarmenn hans til saka fyrir að hafa ekki kallað til lækni áður en Guðrún var jörðuð. Þar þóttu þeir hafa sýnt af sér vítavert gáleysi.

 

Lík Jóns rekur á fjörur

Strax daginn eftir að óskað var eftir rannsókn og málshöfðun vegna dauða Guðrúnar, fannst loks lík Jóns rekið á fjörur í Bjarnarnesi. Líkið var skoðað vandlega og skýrsla gerð um ástand þess, sem var sannarlega ekki gott, enda hafði það verið lengi í sjónum. Báðar hendur og tær höfðu dottið af, og holdið hafði losnað frá höfðinu. Það sem vakti hinsvegar mesta athygli skoðunarmannanna var að ekkert bein virtist brotið í líkamanum. Það þótti nánast ómögulegt að ekkert bein hefði brotnað í líkama manns sem hrapað hefði fyrir björg. Á líkinu fannst hinsvegar hola, neðarlega á hálsinum, sem gekk djúpt inn og niður undir bringu. Það var talið líklegt að holan væri af mannavöldum, sennilega eftir hnífstungu. Mennirnir voru ekki í nokkrum vafa um að líkið væri af Jóni Þorgrímssyni frá Sjöundá, miðað við heildaryfirbragð og limalag, sem og fatnað. Hreppstjórnarnir Sigmundur Jónsson á Stökkum og Jón Pálsson í Keflavík voru einnig fengnir til að koma á staðinn og skoða líkið. Þeirra úrskurður var sá sami og eftir það héldu þeir rakleiðis á Sjöundá til að ræða við Bjarna. Honum var enn brugðið þegar erindið var borið upp við hann, en fór með mönnunum af fúsum og frjálsum vilja. Þeir settu hann í gæslu en tókst ekki að fá játningu upp úr honum.

Næstu vikurnar var Bjarni í varðhaldi, en þrætti alltaf fyrir verknaðinn. Þann 7. nóvember var hann loks fluttur í Sauðlauksdal í strangari gæslu, þar sem sex menn vöktu yfir honum. Steinunn var þá sótt og komið með hana á sama stað, svo hægt væri að hefja rannsókn og yfirheyrslur yfir þeim báðum. Þeir sem sóttu Steinunni sáu það strax að hún var ólétt.

Daginn eftir setti sýslumaður þing og hóf rannsókn á málinu. Bjarni og Steinunn voru bæði yfirheyrð lengi en voru samkvæm sér í framburði. Bjarni sagðist hafa farið með Jóni að reka fé og að hann hefði síðast séð til hans á leið inn í Skorarhlíðina. Hann sagði að þegar hann hafi farið að leita að Jóni seinna um daginn hefði hann séð skýr ummerki um að hann hefði hrapað.

 

Steinunn gefur sig

Þegar kom að yfirheyrslum um dauða Guðrúnar bar Steinunni og Bjarna saman fyrst um sinn. Þau sögðu að Guðrún hefði orðið veik og kastað upp eitt kvöldið, nokkru áður en hún dó. Henni hefði batnað fljótlega og ekki mikið virst ama að þar til hún skyndilega lést. Þau voru ítrekað spurð um grautinn sem hafði verið talinn skaðvaldurinn. Bjarni þóttist ekkert vita en Steinunn gaf sig eftir langar yfirheyrslur. Hún sagði Bjarna einn daginn hafa komið inn í búr, þar sem Steinunn var, tekið upp bréf úr vasa sínum og sáð örlitlu dufti úr því út á graut í ausu. Steinunn sagðist hafa rétt Guðrúnu grautarausuna og að Guðrún hafi borðað grautinn. Um kvöldið hafi hún síðan fengið uppköstin. Steinunn hélt því fram að hún vissi ekki hvers konar duft Bjarni hefði verið með í bréfinu. Þegar þessi saga Steinunnar var borin undir Bjarna vildi hann ekkert segja. Þá var tekið hlé á yfirheyrslunum til morguns. Daginn eftir játuðu þau Bjarni og Steinunn bæði á sig sakir.

 

Bar fyrir sig sjálfsvörn

Bjarni sagðist hafa viljað ryðja Jóni úr vegi, en sagði það hafa verið vegna þess að hann taldi Jón hafa verið að brugga sér launráð. Hann lýsti því að þennan dag sem þeir ráku féð saman hefði Jón gengið á eftir honum og þegar Bjarni hafi snúið sér við hafi Jón reitt staf sinn upp til höggs og sagt: „Já, nú skal fram, sem ætlað er“. Þá sagðist Bjarni hafa brugðist fljótt við og orðið fyrri til að slá til Jóns og rota hann. Bjarni sagðist hafa drepið Jón með þessu höggi, þrátt fyrir að hafa ekki ætlað sér það, í sjálfsvörn. Jón hafi ekki verið saklaus, þar sem hann hefði ætlað sér að ráðast á Bjarna.  Bjarni neitaði því alltaf að hafa stungið Jón.

 

Vildi fría Steinunni frá reiði Jóns

Eftir að allar játningar höfðu fengist upp úr parinu var Bjarni spurður hvers vegna hann hefði myrt Jón. Bjarni sagðist þá hafa verið farinn að hata hann, vegna framkomu hans við Steinunni. Hann sagði Jón oft hafa deilt við konu sína vegna hans. Hann sagðist hafa viljað fría Steinunni frá reiði Jóns vegna tilfinninga hennar í garð Bjarna. Hann hafi líka verið að koma í veg fyrir að Jón segði frá framhjáhaldinu. Auk þessa hefði ofangreindur illvilji Jóns í garð hans sjálfs líka spilað inn í.

Bjarni sagðist hafa myrt Guðrúnu, eiginkonu sína, til þess að þau Steinunn gætu gift sig og hafið líf saman. Hann sagði Steinunni hafa þrýst á sig að drepa Guðrúnu. Hann sagði líka að Guðrún hefði verið farin að bera út sögur um framhjáhald þeirra Steinunnar og Bjarna.

 

Sagðist hafa óttast ofbeldi frá Jóni

Um það hvers vegna hún hafi viljað eiginmann sinn feigan sagði Steinunn að hún hafi verið farin að bera kala til hans vegna framkomu hans í hennar garð. Hún sagðist hafa verið hrædd um að hann færi að beita hana líkamlegu ofbeldi, eins og hún sagði hann hafa hótað, ef hún kæmi nálægt Bjarna framar. Hún sagði að yfirhylming hennar á morðinu stafaði af ást hennar til Bjarna, „og af henni og Bjarna rís öll mín ólukka“.

Steinunn sagðist hafa viljað Guðrúnu feiga til þess að geta gifst Bjarna og svo að Guðrún hætti að bera út sögur um þau tvö.

 

Dómur kveðinn upp

Að lokum fór svo að Bjarni var dæmdur til dauða. Auk þess skyldi hann klipinn þrisvar með glóandi töngum á leið frá þeim stað þar sem afbrotin voru framin, til aftökustaðarins. Þar skyldi höggvin af honum hægri höndin, því næst skyldi höfuðið höggvið af og líkami hans loks stegldur. Steinunn skyldi hálshöggvin og höfuð hennar sett á stjaka. Málið fór síðan fyrir landsyfirrétt þar sem dæmt var í maí vorið eftir. Þar var dómurinn staðfestur í meginatriðum, en þó var dómurinn yfir Bjarna hertur. Í staðinn fyrir að vera glipinn þrisvar, skyldi hann klipinn fimm sinnum með glóandi töngum, fluttur til aftöku með bert höfuð, snöru um háls og samanbundnar hendur.

Málið velktist um í réttarkerfinu eftir þetta og fór svo að danskir dómarar úr hæstarétti töldu það duga að Bjarni yrði klipinn fjórum sinnum. Hönd hans og höfuð skyldi þó setja á stjaka. Nokkru síðar mildaði konungur dóminn og ákvað að Bjarni skyldi ekki pyntaður.

 

Steinunn lést árið 1805, stuttu áður en til stóð að taka hana af lífi. Bjarni var líflátinn í Kristianssand í Noregi stuttu eftir það. Steinunn var dysjuð á Skólavörðuholti, en árið 1915 voru bein hennar tekin upp og jarðsett í Hólavallakirkjugarði. Árið 2012 settu ættingjar hennar legstein á gröfina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -