Laugardagur 30. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Mótmælt við Ríkisútvarpið: „Getur verið að Palestína sé tabú fjölmiðlasamfélagsins í dag?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn refsileysi glæpa á blaðamönnum.

Í dag mótmælti fólk af því tilefni með táknrænum gjörningi fyrir utan Útvarpshúsið í dag. Mótmælendur vöktu athygli á þeim gríðarlega fjölda blaðamanna sem skipulega hafa verið myrtir af Ísraelsher á undanförnum tólf mánuðum. 180 blaðamenn hafa verið drepnir á Gaza og hið minnsta 129 blaðamenn teknir til fanga.

Frá mótmælunum.
Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Mótmælendur, lögðust á jörðina, með alþjóðlegt merki blaðamanna og lágu þar hreyfingarlausir í 10 mínútur. Yfirlýsing var lesin upp þar sem fram kom gagnrýni á fréttaflutning meginstraumsmiðla af þjóðarmorðinu.

Í fréttatilkynningu frá mótmælendum segir meðal annars: „Sá fréttaflutningur sem almenningi er boðið upp á er villandi og gefur ekki raunsanna mynd af þeim hrottalegu stríðsglæpum sem Ísraelsher fremur.“

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu mótmælenda:

„Í dag eru 393 dagar liðnir. 

- Auglýsing -

393 dagar, síðan sú hrina þjóðarmorðs sem hið svokallaða Ísraelsríki fremur á Palestínsku þjóðinni hófst. 

393 dagar, síðan að sá glæpur, sem svo augljóslega hefur verið fylgitungl þessarar þjóðarmorðshrinu, þöggunin um þjóðarmorðið hófst.

Þöggunin sem megnið af vestrænum meginstraumsfjölmiðlum hefur gerst sek um að beita. 

- Auglýsing -

Þöggun sem beitt er með því að villa bæði meðvitað og ómeðvitað um fyrir almenningi, með “umfjöllun” og eða “umfjöllunarleysi” af þeim hrottalegu stríðsglæpum sem framdir eru í akkorði af Ísraelsher á Gaza og á Vesturbakkanum.

Um glæp gegn mannkyni, sem framinn er fyrir augum okkar allra.

Fjölmiðlar hafa tekið afstöðu með kúgaranum og þannig normalíserað hryllinginn í félagi við stjórnvöld og aðrar ábyrgar samfélagsstofnanir. 

Hvernig?

Jú með því að beita aðferðum eins og „engri umfjöllun“ t.d. á morðum á öllum þessum fjölda blaðamanna sem skipulega hafa verið drepnir, pyntaðir og höfðu fram að því lifað við gengdarlausar hótanir um dráp á þeim sem og fjölskyldum þeirra. 

„Að flytja ekki fréttina“ er önnur aðferð. 

Þegar Ísraelsher brenndi fólk lifandi með því að skjóta eldvörðum inn í spítala sem einnig var skjól fyrir flóttafólk, þá var fréttina um það hvergi að finna. 

Það var ekki fyrr en viku síðar, líklega fyrir tilstilli gagnrýni almennings, sem var yfirþyrmdur af hryllingi, að frétt af voðaverkinu var troðið inn í tíufréttir á RÚV, viku síðar!

„Að nefna aðeins hluta upplýsinga“, „að veita rangar upplýsingar“, „að leiðrétta ekki rangfærslur“, samanber þá hryllingsfrétt um afhöfðuð börn frá 7.október, sem rannsóknir hafa sýnt fram á fyrir löngu, að var uppspuni frá rótum, étinn beint upp úr áróðurmaskínu ísraelskra stjórnvalda. 

„Orðalag“, það að notast stanslaust við orðið stríð (sem þetta er ekki), átök og hryðjuverkasamtök. 

Þar að auki er það regla fremur en tilhneiging hjá fréttastofum að nota annars vegar orðið  “gísl” þegar talað er um Ísraela sem teknir hafa verið höndum, en hins vegar orðið “fangi” notað þegar dæminu er snúið við. 

„Að nefna 7.október statt og stöðugt sem upphaf þjóðarmorðsins“. 

Þessi atriði ein og sér gera það að verkum að alröng mynd er gefin upp af þjóðarmorðinu. og það er „normalíserað“.

Mjög hættulegur leikur. Mikill ábyrgðarhluti.

Fréttastjóri RÚV hefur borið því við í viðtali að ástæðan þessa geti mögulega verið að engir fréttamenn eru á þeirra vegum á Gaza og þess vegna erfitt að flytja „traustar fréttir“ þaðan.

Þetta er ekki rétt.

Alþjóðlega fréttastofan AL Jazeera sem fréttstofa RÚV hefur nefnt sem eina af sinni heimildafréttaveitu hefur fréttamenn á Gaza á sínum snærum. 

Einnig flytja sjálfstæðir fréttamenn fréttir af Gaza. 

Má þar nefna Emmy-verðlaunahafann Bizan Owda, Motaz Azaiza, Yousef Alhelou og Khaled Beydoun.

Meginþorri almennings hefur horft í 393 daga á börnum slátrað í umvörpum, foreldrum þeirra slátrað, Þau eru svelt með skipulögðum hætti, tekin til fanga pyntuð á ólýsanlegan hátt. Sjúkrahús, grunnskólar háskólar, moskur, kirkjur, bakarí, vatnslagnir eyðilagðar, rafmagn tekið. 

Allt samfélagslegt grunnkerfi Gaza hefur verið sprengt í loft upp.

ÞVÍ EYTT.

ÖLLU EYTT.

Samkvæmt nákvæmri áætlun ísraelskra stjórnvalda, og allt í beinni útsendingu!

Um 1000 fjölskyldur hafa skipulögðum hætti verið þurrkaðar út úr registeri Palestínu! 

Síðan 7. október fyrir rúmlega ári hafa 129 fréttamenn verið teknir til fanga. 

11.400 manns teknir bara á síðastliðnu ári til fanga, bæði börn og fullorðnir sem pyntaðir eru í fanga og pyntingabúðum Ísrael sem líkt hefur verið við Guantanamo.

Engu að síður heyrir maður jafnvel minna fjallað um þjóðarmorðið í íslenskum meginstraumsfjölmiðlum en “listalífið” í Reykjavík eða íþróttaafrek knattspyrnumanna í Evrópu.

Það er nokkuð sérkennilegt að það séum við, almenningur, sem finnum okkur knúin til þess að mótmæla hryllingnum og minnast þeirra 180 fréttamanna sem hafa skipulega verið drepnir á síðustu 393 dögum. 

Aldrei hafa fleiri blaðamenn verið drepnir á stríðstímum frá upphafi mælinga. 

Eðlilegt þætti manni að kollegar þeirra fréttamanna, væru þeir sem hér lægju á jörðinni og tjáðu sig á þennan táknrænan hátt, en svo er ekki.

Eðlilegt væri að fjölmiðlar fjölluðu um þessa aðför að frjálsri blaðamennsku!

Það er stríðsglæpur að myrða blaðamenn og það er brot á alþjóðasamþykktum að hindra fréttaflutning. 

Stríðglæpi fremur Ísrael í akkorði, meðal annars með því að stráfella blaðamenn og hleypa engum blaðamönnum inn á Gaza. 

Þann 8. nóvemer 2023, eða fyrir tæplega ári sendi Blaðamannfélag Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem félagið “fordæmir dráp á blaðamönnum í ÁTÖKUM Ísraelsmanna og Hamas þar sem þá 39 blaðamenn höfðu látið lífið, langflestir í linnulausum loftárásum Ísraelshers á Gaza. 

Síðan þá hefur ekki spurst til Blaðamannafélagsins. 

Ekki þótt aldrei í sögu blaðamennsku hafi hvílík blóðtaka verið skráð.

Þykir það kannski ekki fréttnæmt?

Eða þykir blaðamönnum bara engin ástæða vera nú til aðgerða að hálfu fjölmiðlafólks?

Fréttamenn á Gaza eru eitt af skotmörkum Ísraelshers, eins og börnin og fatlað fólk og allur almenningur, fólkið sem kerfisbundnar árásir eru gerðar á.

Það er skipulögð herferð sem gerð er til að þagga niður í þeim sem þora að skrásetja raunveruleika stríðs og eyðileggingar.

Þannig er gerð bein árás á grundvallarrétt okkar til upplýsinga og til að eyða sögunni,“

Nýleg lýsing fréttamanns sem birt var á Al Jazeera á því hvernig skilaboð hljóma frá Ísraelsher, um hvernig hann verði „eltur uppi, drepinn og öll fjölskyldan líka, þeirra lífi eins og allra, verði eytt af yfirborði jarðar“ svo vitnað sé beint í skilaboð ísraelska hersins. Þetta er dæmi um reglulegar frásagnir fréttamanna, þetta er ekki undantekning.

Ísrael hefur ekki einasta bannað einni helstu heimild heimsins um það sem er að gerast á Gaza, fréttastofu Al Jazeera, að starfa innan Ísrael heldur hafa þeir líka drepið þrjá fréttamenn þeirra og tveir liggja í lífshættu eftir árásir og er bannað að flytja þá til aðhlynningar annarsstaðar.

Einnig réðust þeir inn á krifstofur þeirra á Vesturbakkanum og lokuðu þeim.

Umfjöllun um þetta er lítil sem engin í íslenskum fjölmiðlum!

Veit fjölmiðlafólk almennt ekki að það er stríðsglæpur, að drepa fjölmiðlafólk!

Af hverju fjallið þið ekki um þjóðarmorðið í hlutfalli við stærðargráðuna?

Þennan glæp gegn mannkyni sem við okkur blasir.

Það er sannarlega ykkar hlutverk.  

Engin umfjöllun eða fréttaskýringar um afstöðu íslenskra stjórnvalda hefur verið gerð hér svo vitað sé.

Stjórnmálafólk er ekki krafið skýringa um “hvers vegna þau fordæmi ekki þjóðarmorðið?”

Það er ekki spurt um “Hvar þingsályktunartillaga um viðskiptaþvinganir á Ísrael sé stödd í utanríkismálanefnd?” 

Enginn hefur spurt  Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, hvað eiginlega hún átti við þegar hún, í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum, ýjaði að því að það væri Palestínumönnum um að kenna að sjúkrahús þeirra væru sprengd í loft upp? 

Hefur einhver spurt dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra eða forsætisráðherra hvort þeim finnist eðlilegt að brottvísa Palestínumönnum nú, undir þessum kringumstæðum?

RÚV, ásamt fleiri íslenskum miðlum, hefur gerst sekt um grafalvarlega umfjöllun um mótmælendur, umfjöllun sem málar þá upp sem óeirðaseggi eða óþjóðalýð. 

Tvö dæmi um þetta koma upp í hugann:

Þegar RÚV át upp eftir lögreglu að mótmælendur hefðu hindrað för lögreglu í forgangsakstri. 

Svo alvarlegar ásakanir að allar fréttastofur sem telja sig óhlutdrægar hljóta að leita sér frekari upplýsinga, fá þær til dæmis hjá sjónarvottum.

Hitt dæmið er þegar RÚV blés upp frétt um að þingmaður hefði orðið fyrir árás fyrir utan þinghúsið. 

Einnig algerlega einhliða umfjöllun þar sem málið var dramatíserað og að hluta til farið með rangt mál. 

Svona fréttaflutningur ýtir undir svokallaða skautun í samfélaginu, mjög svo hættulega og á RÚV því sinn þátt í henni.

Spurning dagsins er:

Getur verið að Palestína sé tabú fjölmiðlasamfélagsins í dag?

Áhugavert umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Vaknið!“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -