Miðvikudagur 27. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Mótorhjólamenn með hrein sakavottorð koma til bjargar börnum: „Við fylgjum barninu út á leikvöll“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við liðsinnum börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og eru orðin skelkuð og særð. Við veitum þeim inngöngu að samtökunum og reynum að efla þau til að vera ekki hrædd í þeim heimi sem þau lifa í,“ segir Ash forseti B.A.C.A. á Íslandi, í samtali við Mannlíf.

Meginmarkmið samtakanna felst í að hjálpa börnum að yfirstíga óttann sinn á eigin verðleikum. Ash útskýrir að á meðan fá þau skjaldborg samtakanna til að upplifa sig örygg, og þegar öryggið sé komið þá óttinn öllu jafna fljótur að fara.

Samtökin B.A.C.A. Bikers Against Child Abuse voru stofnuð 1995 í Bandaríkjunum og eru starfrækt í þeim tilgangi að vernda og búa til öruggara umhverfi fyrir misnotuð börn. 

Hjörtu þeirra Adda og Bangsa dró þá til að stofna B.A.C.A. Iceland árið 2016. Vert er að nefna að meðlimir samtakanna njóta nafnverndar og starfa því undir gælunöfnum. 

Samtökin 

B.A.C.A. eru skráð góðgerðarðarsamtök á Íslandi og því er talað um kaflann en ekki klúbb eða mótorhjólaklúbb (enska heiti: MC/Motorcycle club)

- Auglýsing -

Samtökin eru til staðar fyrir öll börn sem lifa við ótta og er reiðubúið að vinna með þeim aðilum og úrræðum sem eru til staðar er fyrir börnin. Þá hafa samtökin liðsinnt skjólstæðingum sem leitað hafa til Kvennaathvarfsins síðan árið 2017. 

Aðspurður hversu margir meðlimir séu í samtökunum svarar Ash að það sé eitt af því sem aldrei sé gefið upp en tekur fram að það séu nógu margir í augnablikinu til að sinna verkefnunum. 

„Við getum lengi á okkur blómum bætt en við erum nógu mörg til að sinna þeim verkefnum sem eru fyrirliggjandi og að taka að okkur fleiri verkefni,“ segir Ash og hvetur áhugasama að kynna sér starfið og ævinlega sé þörf á fleiri meðlimum.

- Auglýsing -

Leðurklæddir mótorhjólatöffarar á róló

Ímynd mótorhjólakappans er hávær og oft á tíðum ógnvekjandi, en á bak við þá staðalímynd getur barnið sótt í öryggi og fundið fyrir merkjanlegum vinskap. Þar liggur styrkur B.A.C.A. 

Í erfiðustu tilvikunum dvelja börnin á athvarfi og sökum utanaðkomandi ógnar hafa börnin ekki haft kost á að fara út að leika sér. Ash lýsir að undir þeim kringumstæðum mætir hrúga af leðurklæddum mótorhjólatöffurunum: „Við fylgjum barninu og fjölskyldu þess út á leikvöll. Og börnin fá að brosa aðeins framan í sólina og róla sér“. 

Ash lýsir því hvernig barnið er vart um sig á leiðinni út á róló en í næstu heimsókn eða jafnvel á ferðinni aftur af leikvellinum þá beri ekki vott af hræðslu. „Þarna er í rauninni bara verið að hleypa börnunum aftur út í lífið.“ 

Í einni af fyrstu fylgd meðlima B.A.C.A. á leikvöllinn í hverfinu voru komin ansi mörg andlit út í glugga. Ekki leið á löngu þar til lögreglan var mætt á svæðið. Ash segir að gott samstarf vera á milli samtakanna og lögreglunar, og henni er ávallt gert viðvart þegar slík fylgd á sér stað: „Því við vitum að fólk hringir.“

Það kitlar í Ash þegar hann rifjar upp þegar lögreglan útskýrði að þeir hafi verið nauðbeygðir þurft að mæta þar sem tilkynningarnar voru orðnar svo margar. Í kjölfarið var gengið í hús með bækling samtakanna.

Ferlið – Börnin eru meðlimir

Við inntöku barns í samtökin er því gefið vesti og bakmerki. Barnið fær tvo tengiliði á vegum samtakanna sem þau geta hringt í allan sólarhringinn og ef þörf þykir mæta aðilar á staðinn. „Ef ástandið á barninu er þannig að því líður illa sökum ótta,“ bætir Ash við.

Í byrjun hefur forráðamaður barnsins samband við samtökin og óskar eftir aðstoð. Barnatengiliður samtakanna, Dr. Granny, annast öll samskipti við forráðamann barnsins og þar næst hefst „initial contact“ eða fyrstu kynni við skjólstæðinginn/barnið: 

„Barnatengiliðurinn á okkar vegum fer með nokkrum öðrum meðlimum í heimsókn,“ segir Ash og útskýrir að barnatengiliðurinn sé eini aðili samtakanna sem hefur ítarlegar upplýsingar um málið en aðrir meðlimir vita ekki af hverju barnið er hrætt. „Það kemur okkur ekki við,“ útskýrir Ash enda ekki hvað henti heldur valdefling barnsins höfð að leiðarljósi.

„Barnatengiliðurinn er ansi skeleggur hjá okkur í að greina málin,“ segir Ash en eftir fyrstu kynni við barnið er málið lagt fyrir stjórn samtakanna og þá er lagt mat á hvort málið sé tækt fyrir samtökin. Sé málið samþykkt er farin önnur heimsókn til barnsins og því gefið val um hvort það vilji gerast meðlimur samtakanna: 

„Að miklu leyti snýst starfið um að gefa barninu val aftur og stjórn á eigin lífi og aðstæðum.“

Vilji barnið ganga í samtökin fær barnið að velja sér vesti og bakmerki sem því líkar vel við, auk minni merkja sem má sauma og skreyta vestið sitt með. 

Lítil athöfn 

Því næst mætir allur kaflinn á mótorhjólunum sínum á þann stað sem barnið dvelur og barnið kynnt fyrir öllum og er formlega afhent vestið sitt. Því næst gefst barninu kostur á að fara í hjólatúr með öllum hópnum. „Þá erum við búin að mæla út stærðina á barninu og mætum með gallann. Hjálm og hanska, buxur og jakka og allt saman,“ segir Ash enda fyllsta öryggis gætt. 

Barnið er kynnt fyrir tengiliðunum sínum tveimur. Til minningar fær barnið innrammaða ljósmynd af sér með öllum kaflanum og á bakhlið myndarinnar eru nöfn og símanúmer tengiliðanna.

„Það er ótrúlega mikið sem barnið virðist fá þegar það gerir sig grein fyrir því hvað er kominn breiður hópur sem er reiðubúinn til að standa við bakið á því í gegnum þykkt og þunnt“

Í upphafi er lagt upp með vikulegum heimsóknum. Þegar traust og öryggi hefur myndast er barninu í einvald sett hversu mikla þörf það hefur fyrir mótorhjólavini sína. Mikilvægast er að barnið upplifi traust og að staðið sé við gefin loforð. Ash brosir út í annað þegar hann útskýrir farsælustu tilvikin: „Þá er þetta orðið þannig að við mælum okkur mót, við mætum og þá er barnið kannski ekki heima og farið út að leika.“ 

„Það er í raun sætasta stundin. Þegar við finnum að barnið hefur ekki þörf fyrir okkur lengur,“ bætir Ash við.

Björgunarsveit barna

Innan raða samtakanna eru meðal annars doktors menntaður kennari, félagsráðgjafar og sérfræðimenntaðir úr ólíkum geirum. Allir meðlimir B.A.C.A. stunda dagleg störf í atvinnulífinu og sinna starfi kaflans til hliðar líkt og þekkist hjá björgunarsveitarfólki „Þetta eru þau skilaboð sem við reynum að koma til skila til vinnuveitanda okkar,“ segir Ash og bætir við að atvinnurekandi hans sé mjög skilningríkur. 

„Sértu komin/n í stöðu tengiliðs og ef barn hringir og óskar eftir aðstoð, þá er alveg sama á hvaða tíma sólarhrings eða hvað þú ert að gera – Þú mætir!“ segir Ash og brýnir á því að börnin eru búin að ganga í gegnum nógu mikið og að kaflinn verði að standa við gefin loforð: „Og það gerum við!“

Málin sem öryggisteymi samtakanna tekst á við erum misjöfn og í einhverjum tilvikum þurfa börnin fylgd til og frá skóla. Í þeim tilvikum þarf tengiliður kaflans að mæta ögn seinna til daglegu vinnu sinnar og fá vilyrði frá atvinnurekanda að skjótast frá yfir miðjan daginn. 

Engu máli skiptir hvenær sólarhringsins er hringt eða hvernig viðrar. Tengiliður B.A.C.A. mætir.
Mynd / aðsend

Inntökuferli B.A.C.A.

Mæta þarf á þrjá kaflafundi sem haldnir eru í höfuðstöðvum samtakanna fyrsta miðvikudag hvers mánaðar til að fá að skila inn umsókn. Sitja þarf um það bil 40 námskeið og tekur undirbúningurinn frá einu upp í eitt og hálfu ár áður enn meðlimur telst fullgildur. Snúa námskeiðin bæði að velferð og samskiptum við börn en auk þess eru námskeið sem fara yfir forvarnir og hættur við að lenda í árekstrum við alvöru mótorhjólaklúbba. 

„Það er mjög stíf þjálfun,“ útskýrir Ash og tekur fram að allir þurfi að skila inn sakavottorði og veita heimild fyrir að sótt sé ítarlegra sakavottorð til Saksóknara, þar sem eru engin tímamörk. Allir meðlimir skila inn sakavottorði á tveggja ára fresti.

Hjálparsími samtakanna er: 780 2131

Hér að neðan má sjá myndskeið frá samtökum B.A.C.A í Bandaríkjunum:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -