Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Héraðsdómur neitar að leita til EFTA í tveimur vaxtamálum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeim kröfum Neytendasamtakanna að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tveimur af þremur málum, í vaxtamálinu svokallaða. Einu vafaatriði hefur þó verið vísað til dómstólsins. RÚV greinir frá þessu.

Neytendasamtökin höfðuðu þrjú mál á hendur Arion banka og Landsbanka, til þess að láta reyna á lögmæti skilmála lána með breytilega vexti. Um er að ræða neytendalán sem tekin voru á mismunandi tímum þegar mismunandi lög voru í gildi. Neytendasamtökin óskuðu til að byrja með eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, þar sem lögin sem reynir á í málinu eru innleiðing Evróputilskipunar. Héraðsdómur hafnaði þeim kröfum í tveimur af þremur málum. Í þriðja málinu ákvað dómari þó að óska eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna eins vafaatriðis er varðar lán sem var tekið eftir að lög um fasteignalán tóku gildi árið 2017.

Sú spurning sem dómari varpar til EFTA-dómstólsins fjallar um það hvort skilmálar Landsbankans um breytilega vexti samræmist ákvæði sem mælir fyrir um að viðmiðunarvextir lána sem bera breytilega vexti, þurfi að vera skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannprófanlegir fyrir neytandann.

Í hinum tveimur málunum telur dómurinn fyrirliggjandi dæmi hjá dómstólnum nægilega leiðsögn.

„Það er mikilvægt að taka fram að í hvorugri afstöðu dómsins, það er að segja að hafna ósk um álit eða spurningu hans til EFTA dómstólsins, felst afstaða til meginkrafna í málinu, um að skilmálarnir verði dæmdir ólöglegir,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. „Málunum verður haldið áfram í héraðsdómi eins og ekkert hafi í skorist í þeim málum sem ekki þarfnast leiðbeiningar EFTA dómstólsins. Hinu málinu er frestað þar til niðurstaða fæst hjá EFTA dómstólnum.“

Neytendasamtökin héldu í málaferlin vegna mats þeirra á að skilmálar lána með breytilegum vöxtum séu ólöglegir. Það sé vegna þess að ákvarðanir bankanna um vaxtabreytingar séu matskenndar og ógagnsæjar.

- Auglýsing -

„Það sem er svo mikilvægt við að fá ráðgefandi álit EFTA dómstólsins er að við teljum þann dómstól hafa yfirburðarþekkingu á þessum lögum þar sem margoft hefur reynt á þau og niðurstaðan þar verið á þá leið sem samtökin hafa haldið fram í Vaxtamálinu,“ segir Breki.

Afborganir lána á óverðtryggðum, breytilegum vöxtum hafa farið hratt hækkandi að undanförnu, í kjölfar verðbólgu og hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

Mannlíf ræddi við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, um þetta og tengd mál, í febrúar síðastliðnum. Þá talaði hann meðal annars um óskýrar vaxtaákvarðanir bankanna.

- Auglýsing -

„Það væri nú ágætt ef það væri, eins og lög gera ráð fyrir, skýrt hvernig vextir bankanna tækju breytingum. En það er því miður ekki þannig. Þess vegna þurftum við að fara í þetta dómsmál,“ sagði Breki.

Eins og þekkt er orðið hafa viðskiptabankarnir skilað ofurhagnaði undanfarið.

Í viðtalinu í febrúar sagði Breki meðal annars að nú sem aldrei fyrr væri þörf á því að bæði bankarnir og önnur fyrirtæki myndu draga úr arðsemiskröfum. Hann sagði ársreikninga sýna að það væru fleiri en bankarnir sem væru að skila miklum hagnaði, það ætti við um ótal fyrirtæki líka.

„Nú er bara komið að því að atvinnulífið sýni þá stillingu sem atvinnulífið krefst alltaf af launþegum þegar launþegar eru að semja um laun og kjör. Það er það sem við getum gert; að krefja fyrirtæki um ráðdeild og að þau rói sig aðeins í arðsemiskröfum.“

Breki sagði að ef fyrirtækin og bankarnir svöruðu þessu kalli væri vel hægt að halda út þetta tímabundna ástand sem nú væri uppi.

„Annað er ávísun á óróa í haust þegar kjarasamningar eru lausir – ef það á að velta þessu endalaust inn í verðlagið og halda í þessar háu arðsemiskröfur. Slíkt höfrungahlaup hefur aldrei skilað neinu nema aukinni vansæld,“ sagði hann. „Það vill enginn þann óstöðugleika sem þessu mun fylgja. Hann er engum til góðs.“

 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var því haldið fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði hafnað kröfum Neytendasamtakanna í Vaxtamálinu svokallaða. Þetta er ekki rétt, heldur hafnaði dómurinn þeirri ósk lögmanna að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í öllum málunum þremur. Í einu málanna ákvað þó héraðsdómur að leita til dómstólsins vegna eins vafaatriðis er varðar lán sem var tekið eftir að lög um fasteignalán tóku gildi árið 2017. Vaxtamálið heldur áfram fyrir héraðsdómi og þriðja málið bíður álits EFTA-dómstólsins áður en áfram verður haldið. Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við þetta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -