Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Neytendur milli steins og sleggju: „Séu kröfur greiddar er verið að staðfesta réttmæti þeirra“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona sem lenti í því að vöktun Motus á umdeildum reikningi og uppflettingar fyrirtækisins hjá Creditinfo, löskuðu lánshæfismat hennar töluvert, upplifði sig í erfiðri stöðu gagnvart innheimtufyrirtækinu. Báðir kostir í stöðunni voru slæmir í hennar huga; að borga reikning sem hún taldi ekki eiga rétt á sér, eða að fylgjast með reikningnum hækka og lánshæfismati lækka á meðan beðið væri eftir niðurstöðu kærunefndar.

 

Lítið um svör

Um er að ræða reikning sem kröfuhafi og konan deildu um. Konan taldi reikninginn ekki réttmætan, í það minnsta ekki í óbreyttri mynd. Hún fór með málið fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa eftir að hafa fengið reikninginn í heimabanka sinn og staðið í stappi við kröfuhafann, en fékk síðan í framhaldinu kröfu frá Motus. Hún hafði samband við Motus og lét vita af því að um umdeildan reikning væri að ræða og að málið væri komið til kærunefndarinnar. Samskipti við Motus gengu illa og lítið var um svör. Á meðan lækkaði lánshæfismat konunnar hjá Creditinfo, vegna vöktunar og uppflettinga Motus.

 

Hugleiddi að greiða með fyrirvara 

Konan, sem hefur reifað málið í samtali við blaðamann Mannlífs og lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, segist hafa orðið óttaslegin vegna lækkandi lánshæfismats og hækkandi upphæðar kröfunnar með álögðum dráttarvöxtum og gjöldum. Hún hafi því velt því fyrir sér að greiða kröfuna til þess að losna við þau umtalsverðu hliðaráhrif sem hún olli, með þeim fyrirvara að fá reikninginn endurgreiddan ef úrskurður yrði henni í vil.

Konan sendi eftirfarandi fyrirspurn á Motus, á vefsíðu fyrirtækisins:

- Auglýsing -

„Ef ég greiði ykkur, getið þið þá ábyrgst að ég fái endurgreitt ásamt kostnaði ef krafan verður dæmd ógild? Þessum aðila er ekki treystandi til að endurgreiða þegar hann er nógu siðlaus að útbúa reikning sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.“

Svar barst frá Motus í gegnum vefinn degi síðar. Þá hafði konan áður reynt að fá svör frá fyrirtækinu í gegnum tölvupósta og koma mótmælum sínum á framfæri.

„Séu kröfur greiddar er verið að staðfesta réttmæti þeirra. Búið er að flytja mál yfir í löginnheimtu og þá átt þú að geta tekið til varnar,“ sagði í svarinu frá Motus.

- Auglýsing -

Konan gat ekki hugsað sér að greiða reikninginn undir þessum formerkjum. Hún furðaði sig einnig á því að innan við mánuður hafi liðið frá því að fyrsta bréf frá Motus var dagsett, þar til krafan var komin yfir í löginnheimtu.

Þegar hún spurðist fyrir um það kom í ljós að kröfuhafi hafði einfaldlega óskað eftir því að krafan yrði flutt yfir í löginnheimtu, með tilheyrandi auknum kostnaði, og fyrirtækið orðið við því. Þess ber að geta að lögfræðikostnaður bætist við önnur gjöld þegar kröfur fara í löginnheimtu.

 

Fór í löginnheimtu á 20 dögum

Fyrsta bréf frá Motus var dagsett þann 5. febrúar síðastliðinn en konan fékk það ekki í hendurnar fyrr en um viku síðar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hún fékk var krafan send yfir í löginnheimtu þann 25. febrúar. Það liðu því einungis 20 dagar frá því að fyrsta bréf var dagsett, þar til krafan var komin í löginnheimtu.

Krafan var að lokum fryst þann 9. mars síðastliðinn, á meðan niðurstöðu er beðið frá Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Þá hafði konan þó þegar lækkað úr flokki A niður í flokk C í lánshæfismati hjá Creditinfo. C-flokkur þykir afar slakur, hálfgerður „ruslflokkur“ og getur flokkunin haft umtalsverð áhrif á einstaklinga. Til að mynda ef viðkomandi ætlar sér að kaupa fasteign, endurfjármagna eign, taka yfir fyrirtæki eða leggja af stað í annars konar viðskipti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -