Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Niðurstöðurnar komu Steingrími ekki á óvart – „Því miður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart. Því miður,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Mannlíf um niðurstöður könnunar á starfsumhverfi á Alþingi þar sem sérstök áhersla var lögð á einelti og kynferðislega og kynbundna áreitni. Könnunin leiddi meðal annars í ljós að 20% svarenda hafa einhvern tímann orðið fyrir einelti í starfi sínu á Alþingi og 16% hafa einhvern tímann orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi.

Steingrímur segir mikilvægt að ráðist var þessa könnun og jákvætt hversu góð þátttakan var þannig að niðurstöðurnar eru marktækar. Af 206 manns svöruðu 153 og náði könnunin til þingmanna og starfsfólks Alþingis.

Hann segir niðurstöðurnar vera mikilvægan grunn fyrir þá vinnu sem koma skal. „Þessi skýrsla er hvorki upphaf né endir heldur hluti af löngu ferli.“

Könnunin tók mið af rannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á kynferðislegri áreitni og ofbeldi á evrópskum þjóðþingum. Steingrímur segir niðurstöður þeirrar rannsóknar hafa gefið ákveðna vísbendingu um hvernig staðan er hér á landi. Hann tekur fram að í þeim rannsóknum hafi ekki verið um heildstæða könnun að ræða heldur hafi þátttakendur boðið sig fram til að tjá sig og við þá tekin viðtöl.

Jafnréttisnefnd Alþingis ræðir nú eftirfylgni könnunarinnar og framhaldið er í höndum nefndarinnar.

Að mati Steingríms væri skynsamlegt að gera sambærilega könnun í það minnsta einu sinni á kjörtímabili. „Þegar fram liði væri þá hægt að mæla hvernig hlutirnir þróast. Þá gæti komið til greina að fylgja könnuninni eftir með dýpri rannsókn sem byggði á viðtölum,“ útskýrir Steingrímur.

- Auglýsing -

Steingrímur segir kollega sína í nágrannalöndum Íslands horfa hingað. „Forsetar í öðrum þingum hafa fylgst með því hvernig við gerum hlutina. Bæði hvað þessa könnun varðar og líka hvernig #meetoo-byltingin fór fram á Alþingi og hvernig við breyttum siðareglunum 2018,“ segir hann.

Sláandi en kom ekki á óvart

Steingrímur segir niðurstöðurnar sláandi en að þær hafi því miður ekki komið honum á óvart. „Ef við tökum mið af niðurstöðum sambærilegrar könnunar sem Félagsvísindastofnun vann fyrir velferðarráðuneytið um stöðuna á vinnumarkaðinum almennt, þá kemur þetta ekki á óvart. En auðvitað er þetta sláandi,“ segir hann.

- Auglýsing -

Hann tekur fram að niðurstöður könnunarinnar hafi leitt í ljós að þingmannastarfið væri útsettara fyrir þeim þáttum sem einblínt var á í könnuninni en önnur störf á Alþingi. Hann segir að áhugavert yrði að skoða af hverju það stafar. „Niðurstöðurnar leiða í ljós að þingmenn verða ekki aðeins fyrir einelti og kynferðislegri og kynbundinni áreitni inni á vinnustaðnum heldur líka þar sem þeir sinna verkefnum sem tengist starfinu utan vinnustaðarins.“

Hvað eineltið varðar segir Steingrímur dapurlegt að sjá niðurstöðurnar um áhrif á fjölskyldur þingmanna. „Það er dapurlegt að sjá að fjölskyldur þingmanna verða reglulega fyrir erfiðleikum, bæði í námi og starfi, vegna starfa þeirra á þingi.“

Mikilvægt að halda umræðunni á lofti

Steingrímur segir að könnunina vera mikilvægan þátt í því að halda umræðunni um vinnustaðamenningu á Alþingi á lofti. „Það þarf náttúrlega að opna umræðuna og viðhalda henni. Það er ekki nóg að gera svona könnun einu sinni og rifja niðurstöðurnar upp einstöku sinnum.“

„Það þarf náttúrlega að opna umræðuna og viðhalda henni.“

Hann segir könnunina haldast í hendur við önnur verkefni sem Alþingi hefur unnið að, svo sem „rakarastofuráðstefnuna“ sem haldin var 2018 í samvinnu við UN Woman á Íslandi í kjölfar #meetoo-byltingarinnar. Þar gafst þingmönnum og ráðherrum tækifæri til að eiga opinskáar samræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna.

Steingrímur segir #meetoo-byltinguna hafa sýnt svart á hvítu hversu stórt vandamálið er. „Þegar fólk steig fram með sínar sögur í #meetoo byltingunni sáum við hversu útbreitt vandamál er, ekki bara á Alþingi heldur í samfélaginu öllu, og þessi könnun er mikilvægur þáttur í að taka á þessu vandamáli sem þarf að horfast í augu við.“

Skýrslu um könnunina má lesa hérna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -