Laugardagur 21. maí, 2022
5.8 C
Reykjavik

Óeirðirnar við Olís: „Þeir þrykkja honum í jörðina, halda honum niðri og berja hann“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þann 23. apríl árið 2008 kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda á Suðurlandsvegi við Rauðavatn, þegar vörubílstjórar mótmæltu þar háum olíusköttum og of stífum reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra. Lögregla greip til notkunar piparúða á mótmælendur og öskrin frægu „Gas, gas, gas! Af götunni!“ munu seint líða þjóðinni úr minni.

 

Liður í röð mótmæla

Mótmæli þessa dags voru einn liður í röð mótmæla vörubílstjóra sem höfðu byrjað í lok mars. Þau fóru þannig fram að vörubílstjórar lögðu bifreiðum sínum á fjölförnum götum og stöðvuðu þannig umferð. Það var þarna sem Sturla Jónsson kom fyrst fram á sjónarsviðið, en hann var fremstur í flokki í mótmælunum og átti eftir að vera enn meira áberandi í samfélagsumræðunni í kringum efnahagshrunið. Seinna átti Sturla svo eftir að fara í hin ýmsu framboð, bæði í alþingiskosningum sem og kosningum til embættis forseta Íslands.

Mótmælin þann 23. apríl árið 2008 fóru fram við bensínstöðina Olís á Suðurlandsvegi, við Rauðavatn og Norðlingaholt. Um 20 vörubifreiðum var lagt á veginn og umferð þannig hindruð. Um mánuði fyrr hafði svipaður gjörningur farið fram í Ártúnsbrekku, nokkur skipti í röð. Á Austurvelli höfðu mótmæli verið haldin og þann 1. apríl hafði þáverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, verið afhentur undirskriftalisti vörubílstjóra um lækkun skatta á eldsneyti. Mótmæli áttu sér stað víðar um landið, meðal annars á Suðurlandi og á Akureyri.

Daginn sem bílstjórarnir lokuðu Suðurlandsvegi við Rauðavatn var spenna í loftinu og fleiri en vörubílstjórar mættu á staðinn til þess að ýmist fylgjast með mótmælunum og sýna bílstjórunum stuðning, eða láta að sér kveða.

Lögreglumenn mættu á svæðið í óeirðarbúnaði með piparúða og ætluðu sér að koma í veg fyrir lokunina og leysa mótmælin upp. Það fór ekki betur en svo að það kastaðist í kekki milli lögreglu og bílstjóranna. Átök brutust út og lögreglumenn beittu kylfum og piparúða á mótmælendur. Myndband náðist af því þegar einn lögreglumaðurinn gekk um og öskraði „Gas, gas, gas! Af götunni!“ af öllum lífs- og sálarkröftum, milli þess sem hann úðaði á bílstjóra og aðra mótmælendur. Myndbandið gekk ljósum logum um internetið í kjölfarið og mótmælin hafa síðar verið kennd við þessi öskur lögreglumannsins. Lögreglumenn voru harðlega gagnrýndir fyrir framgöngu sína gagnvart mótmælendum og vörubílstjórarnir sökuðu þá um harðræði. 21 mótmælandi var handtekinn og 16 ökutæki gerð upptæk vegna mögulegra brota á 168. gr. almennra hegningarlaga og fyrstu málsgrein 27. gr. umferðarlaga.

- Auglýsing -

Þetta voru hörðustu átök sem brotist höfðu út milli lögreglu og mótmælenda á Íslandi í langan tíma.

Olíu skvett á lítið bál

„Það sem gerðist hér í morgun er að það var skvett olíu á frekar lítið bál, bál sem réðist mjög vel við. Það var skvett olíu á það í morgun og það er eitthvað sem menn eru ekki búnir að sjá fyrir endann á, hvernig gerir sig.“

„Ég bara skil ekki hvernig ráðamönnum þjóðarinnar datt þetta í hug,“

- Auglýsing -

sagði vörubílstjóri á vettvangi.

„Ég held að enginn hafi átt von að því að til þessa kæmi, en það er mjög erfitt að segja til um það hvað það var og hvers vegna átökin brutust út upprunalega. Lögreglu og vörubílstjóra greinir á um það,“ sagði Guðmundur Gunnarsson, fréttamaður á RÚV, um málið í kvöldfréttum RÚV þennan dag. Atburðunum á Suðurlandsbraut hafði verið sjónvarpað í beinni útsendingu.

 

Atburðarásin

Í upphafi mótmælanna var allt í ró og spekt. Lögregla mætti á svæðið með átta lögreglubifreiðir, ræddi við vörubílstjórana og reyndi að fá þá til þess að færa bifreiðir sínar af umferðaræðinni. Þegar bílstjórarnir neituðu að verða við kröfum lögreglu fór fljótlega að færast harka í leikinn. Fleiri bættust í hópinn eftir að hafa séð sjónvarpsútsendingu frá mótmælunum.

Mótmælendur voru varaðir við gasi og kylfum og gert að yfirgefa götuna, þar sem þeir stóðu í stórum hópi. Einnig útskýrði lögregla að mótmælendur gætu allir átt á hættu að vera handteknir, þar sem það væri lögbrot að teppa götuna með þessum hætti.

„Ef þú fylgist með hérna í nokkrar mínútur, þá látum við verkin tala,“

sagði lögreglumaður í samtali við fréttamann Stöðvar 2 á vettvangi. Eftir það hófust lögreglumenn handa við að ryðja mótmælendum úr vegi og sprauta gasi á þá. Bæði eggjum og grjóti var kastað að lögreglu. Einn lögreglumaður var fluttur á slysadeild með höfuðáverka og nokkrir mótmælendur leituðu læknishjálpar eftir að hafa fengið á sig piparúða.

Mótmælendur sem höfðu safnast á svæðið héldu áfram að ögra lögreglu og ýmsir fóru inn á bensínstöðina að kaupa egg til að kasta. Gosflöskur fengu einnig að fljúga í varnarvegg lögreglumanna. Á þessum tímapunkti höfðu töluvert margir unglingar safnast á svæðið til að halda óeirðunum áfram og mikið til leyst bílstjórana af hólmi.

Atburðirnir tóku undarlegri stefnu þegar útskriftarefni í miðri dimmisjón mættu á svæðið íklæddir búningum í anda nasista seinni heimstyrjaldarinnar. Maður klæddur í gervi rómversks lárviðarskálds arkaði upp að lögreglumönnum með blóm í hendi og reyndi að færa þeim. Lögregla tók uppátækinu heldur illa og teymdi manninn burt.

Það var ekki fyrr en um eftirmiðdaginn að sumir vörubílstjórar fjarlægðu bifreiðir sínar og Suðurlandsvegur gat opnað fyrir umferð á ný. Aðrir bílar voru dregnir burt. Bíll Sturlu Jónssonar, talsmanns bílstjóranna, var til að mynda dreginn burt í lögreglufylgd.

Sturla Jónsson. Mynd/skjáskot RÚV.

„Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að það var lögregla sem átti upptökin að þessu,“ sagði Sturla í samtali við fréttamann RÚV. „Það vildi til að það var strákur sem ætlaði að fara að fjarlægja bílinn hérna, og þá hefði opnast hér í gegn. Þeir meina honum það að fara inn í bílinn hjá sér og þegar menn ætla að styðja hann í því að fara inn í bíl til þess að fjarlægja bílinn, þá gripu þeir á það að ýta við fólkinu og spreyja úða á það allt saman, og handtóku hérna sex menn á eftir.“

„Ég ætla bara að vona að fólkið í landinu átti sig á því að það þarf að fara að standa upp, til þess að þessir þingmenn þarna fari að vinna hérna heima fyrir fólkið, en er ekki alltaf erlendis í einhverri bölvaðri þvælu sem varðar ekki fólkið,“ sagði Sturla ennfremur.

Maðurinn sem hent hafði grjóti í lögreglumann var eltur uppi og handtekinn. Ekki náðist myndband af handtökunni, en sjónarvottur á vettvangi lýsti henni svona í kvöldfréttum RÚV: „Hann stoppar og þá kemur ein löggan að honum og ber hann tvisvar sinnum með kylfunni. Hann lyftir ekki hendi eða gerir neitt. Svo koma þeir fjórir að honum og þeir þrykkja honum í jörðina, halda honum niðri og berja hann. Þá eru þeir komnir fimm saman, og berja hann áður en þeir handtaka hann. Og þetta var ekkert smá, þetta var bara eins og í svæsnustu bíómynd. Ég er bara ennþá í sjokki.“

 

Pínleg upptaka af fréttamanni

Í hópi fréttamanna á vettvangi var Lára Ómarsdóttir, þá starfandi á fréttastofu Stöðvar 2. Upptaka náðist af henni í beinni útsendingu þar sem hún sagði við samstarfsmenn sína að mögulega væri hægt að fá einhvern til þess að kasta eggi að lögreglu meðan á fréttaskoti þeirra stæði. „Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir,“ sagði Lára.

Lára Ómarsdóttir

Upptakan fór í mikla dreifingu og var Lára harðlega gagnrýnd í kjölfarið. Hún bar því við að um grín hefði verið að ræða, en sagði starfi sínu þó lausu stuttu síðar með þeirri skýringu að henni þætti hún hafa misst traust almennings.

„Þetta er búið að fara mjög illa með okkur“

Sturla Jónsson rifjaði mótmælin upp þann 23. apríl 2018 í samtali við Fréttablaðið, þegar áratugur var liðinn frá atburðunum. Hann sagði ástandið einungis hafa versnað á þessum tíu árum.

Sturla sagði að eftir því sem hann best minnti hefði bensínlítrinn verið í kringum 89 krónur þegar mótmælin fóru fram og lítri af dísilolíu um tuttugu krónum ódýrari. Þegar viðtalið var tekið sagði hann verðið vera komið upp í yfir 200 krónur, bæði fyrir bensín og dísil.

„Þetta er búið að fara mjög illa með okkur. Það er bara svoleiðis. 2008 kostaði hvað, þrjátíu þúsund krónur rúmlega að fylla á tankinn á vörubíl? Sami tankur í dag er á rúmlega hundrað þúsund,“ sagði Sturla.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -