Rafmagnslaust á hálfu landinu vegna óhapps hjá Norðuráli á Grundartanga.
RÚV segir frá því að ástaðan fyrir því að rafmagn fór af um helming landsins fyrir stundu sé óhapp sem hafi átt sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga. Enn er á huldu hvað nákvæmlega gerðist en vegna aukins álags á rafkerfi Landsnets í kjölfar óhappsins, sló rafmagni út á óvenju mörgum stöðum á landinu.
„Það kemur högg á kerfið,“ útskýrir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við RÚV.
„Það fór svo dálítill tími í að greina truflunina en við höfum nú yfirsýn og erum byrjuð að byggja upp kerfið á ný,“ segir Steinunn ennfremur en hún er bjartsýn um að rafmagn komist á víðast hvar innan skamms.
„Rafmagn er að detta inn á einum og einum stað, og ég vona að það sé ekki um langt að bíða þar til það verður komið á víðast hvar,“ segir Steinunn.