Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Ólína kveður systur sína Gauju: „Góðgerðarmaður margra sem nú sakna og syrgja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, rithöfundur og fyrrverandi alþingkona, kveður á Facebook systur sína, Guðbjörgu Þorvarðardóttur sem lést nýverð. Guðbjörg var dýralæknir og rak Dýralæknastofa Dagfinns. Hún var 71 ára og lætur eftir sig eiginkonu og fósturson. Ólína deilir minningargrein sem hún skrifaði ásamst systur sinni Halldóru. Dagurinn í dag sé helgaður Gauju og muni verða „erfiður en fallegur kveðjudagur.“

„Það er sár tilfinning að setja niður á blað minningarorð um systur sína, en öllu er afmörkuð stund. Nú hefur ævi Gauju systur okkar verið mörkuð stund og henni lokið. Gauja var stórbrotinn persónuleiki og í okkar lífi var hún „stór systir“ í orðsins fyllstu merkingu, með brosið sitt breiða, þróttmikla röddina og hlýtt hjartað. Hún var einstakur persónuleiki, hugumstór, lífsglöð og algjört tryggðartröll,“ segja þær systur.

Gauja var laus við allan hégóma og ávallt trú sinni sannfæringu. „Áberandi þáttur í fari Gauju var hversu sjálfstæð hún var í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var algjörlega laus við hégóma og lét tískustrauma og tíðaranda ekki hafa mikil áhrif á sig, enda hafði hún sjálfa sig, gildismat sitt og lífsviðhorf gjörsamlega á hreinu. Þannig gekk hún fram í lífinu, heil og sönn í öllum samskiptum við annað fólk. Og það munaði um Gauju þar sem hún kom, ævinlega málefnaleg, rökföst og trú sannfæringu sinni en alltaf sanngjörn.“

Gauja var sérstaklega víðförul og hvar sem hún var reyndist hún hrókur alls fagnaðar. „Gauja systir átti sér margar hliðar, var í senn raunsæ og jarðbundin en í sömu andrá lífskúnstner sem kunni að njóta og fagna lífinu. Þeim fækkaði ört löndum veraldar sem Gauja hafði ekki heimsótt, því húnhafði unun af að ferðast og kynna sér sögu og menningu annarra þjóða. Hún var félagslynd og hafði sterka nærveru. Öll hennar framganga endurspeglaðist af víðsýni, skynsemi og umburðarlyndi. Hreinskilin var hún og hafði samkennd með öðrum. Hún var hrókur alls fagnaðar í góðum hópi á glöðum stundum, vinamörg og það var gott að eiga hana að vini,“ segja þær systur.

„Nú hefur elsku systir okkar fengið hvíldina sem hún var farin að þrá undir það síðasta. Hún skilur eftir sig stórt skarð. Í hugum okkar lifir minningin um systur sem var höfðingi í lund, sannur vinur vina sinna og góðgerðarmaður margra sem nú sakna og syrgja. Þyngstur er harmur Juliette konu hennar og Tuma sem var henni sem sonur. Þeim færum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -