Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Olíufélögin sviku viðskiptavini um milljarða: – „Eins al­var­legt og hægt er að hugsa sér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrjú stærstu olíufélög Íslands, sem þá gengu undir heitunum Olíufélagið Olís, Skeljungur og Olíufélagið, voru fyrir Hæstarétti árið 2016 dæmd til að greiða 1,5 milljarð króna í sektargreiðslur vegna ólöglegs samráð á olíuverði hér á landi. Samkeppniseftirlitið hélt því þá fram að olíufélögin þrjú hefðu hagnast um 6,5 milljarð króna með samráðinu.

Olíusamráðsmálið hófst hins vegar 18. desember árið 2001 þegar lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum Skeljungs, Olís og Olíufélagsins, ásamt starfsmönnum samkeppnisstofu, og lögðu þar hald á gögn vegna rannsóknar á brotum gegn neytendum með víðtæku og ólögmætu samráði um verðlagningu.

Rannsókn málsins tók þrjú ár og tók til samráðs frá árinu 1993 til 2001. Þremur árum síðar sektaði Samkeppnisráð olíufélögum um samtals tvo milljarða og 525 milljónir króna en talið var að félögin hefðu hagnast um 6,5 milljarða króna á samráðinu. Olíufélögin vísuðu málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem úrskurðaði að sektin skyldi lækkuð í einn og hálfan milljarð króna.

Olíufélögin þrjú höfðu meðal annars samráð um verðlagningu á fljótandi eldsneyti, gasi, smurolíu og tengdum vörum.

Sektin felld niður

Í október 2004 komst Samkeppnisráð, forveri Samkeppniseftirlitsins, að því að Olís, Skeljungur og Olíufélagið hefðu framið mjög alvarleg brot á samkeppnislögum, með ólögmætu samráði sín á milli um verð á olíu. Úrskurðarnefnd áfrýjunarnefndar samkeppnismála komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að sekta félögin þrjú um 1,5 milljarð króna.

„Eng­um blöðum er um það að fletta, að þetta var ólög­mætt sam­ráð og eins al­var­legt og hægt er að hugsa sér. Það er ekki hægt að svindla meira á sam­keppni en með sam­ráði,“ sagði Heim­ir Örn Her­berts­son, lögmaður Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins, þegar málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi.

- Auglýsing -

Eftir langa málsmeðferð var loksins úrskurðað fyrir héraðsdómi í mars 2012 að félögin hefður haft með sér ólögmætt samráð en sekt félaganna felld úr gildi þar sem brotið hefði veirð á andmælarétti olíufélaganna í málsmeðferðinni. Lá fyrir að olíufélögin hefðu haft með sér ólöglegt samráð en ekki hefði verið hægt að sakfella eða sekta þau þar sem málið hefði bæði verið rannsakað af lögreglu og samkeppnisyfirvöldum.

Skiptu markaðnum á milli sín

Við þessa niðurstöðu gat Samkeppniseftirlitið ekki unað og skaut málinu því til Hæstaréttar. Málinu var hins vegar aftur vísað til héraðsdóms, vegna verulegra galla á málatilbúnaði og höfðuðu olíufélögin þrjú ný dómsmal sem enn miðuðu að því að fá úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, um 1,5 milljarða sektargreiðslu, hnekkt.

- Auglýsing -

Það var svo árið 2016 sem Hæstiréttur féllst loks á það með samkeppnisyfirvöldum að olíufélögin hafi framið mjög alvarleg brot á samkeppnislögum og að hæfilegar sektir félaganna skuli nema samtals 1,5 milljörðum króna.

Samráð olíufélaganna var margskonar og stóð yfir að mati Samkeppniseftirlitisins frá óslitið frá árinu 1993 til ársloka 2001. Höfðu þau meðal annars samráð um um verðlagningu á fljótandi eldsneyti, gasi, smurolíu og tengdum vörum. Auk þess höfðu olíufélögin með sér umfangsmikið samráð um gerð tilboða í tengslum við formleg útboð en dæmi um þolendur þessa samráðs olíufélaganna voru Reykjavíkurborg, Síminn og Landhelgisgæslan.

Olíufélögin gripu einnig til margs konar aðgerða í því skyni að skipta á milli sín markaðnum fyrir olíuvörur hér á landi. Aðgerðirnar miðuðu að því að skipta á milli félaganna markaðnum eftir landsvæðum, viðskiptavinum eða eftirsölu og magni. Félögin náðu t.d. samkomulagi um að Skeljungur myndi sitja einn að bensínsölu í Grindavík og þau skiptu með sér viðskiptum, til dæmis á Ísafirði og Stykkishólmi.

„Þetta geta ekki verið tilviljanir“

Í áraraðir höfðu verið uppi ásakanir um verðsamráð milli olíufélaganna á Íslandi. Neytendasamtökin kærðu olíufélögin til Samkeppnisstofnunar árið 1997 en sú rannsókn dróst í fjögur ár. „Í minni tíð sem viðskiptaráðherra var þessi skipting ekki hafin nema hvað að á stöku stað voru olíufélögin öll þrjú með eina stöð. Nú virðist þetta breytt og aðeins eitt félag annast bensínsöluna á hverjum stað. Og ekki bara það heldur eru allar verðbreytingar hjá olíufélögunum ávallt upp á krónu þær sömu og líka timasetning þeirra,“ sagði Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, um olíusamráðsmálið á sínum tíma: „Þetta geta ekki verið tilviljanir með verðlagninguna. Líkurnar fyrir því að um tilviljanir sé að ræða eru stjarnfræðilegar.“

Eins og áður sagði framkvæmdi Samkeppnisstofnu húsleit rétt fyrir jólin árið 2001 hjá skrifstofum olíufélaganna og fjarlægði ýmis gögn til rannsóknar. Grunur lék á að olíufélögin hefðu brotið gegn 10. grein samkeppnislaganna nr. 7/1993 um ólögmætt samráð. Til leitarinnar þurfti heimild dómara. Í kjölfarið kröfðust olíufélögin þess að öllum tölvugögnum sem lagt var hald á yrði eytt þar sem leitin hafi verið ólögleg.

Rannsókninni lauk í október 2004 með tæplega þúsund blaðsíðna skýrslu þar sem fram kom „að olíufélögin hafi frá gildistöku samkeppnislaga haft með sér yfirgripsmikið og óslitið samráð um verð, markaðsskiptingu og gerð tilboða.“ Samkvæmt niðurstöðnum varaði samráðið að minnsta kosti frá mars 1993 til desember 2001 – allan þann tíma sem olíufélögin höfðu starfað á frjálsum markaði. Hagnaður olíufélaganna á samráðinu nam í það minnsta 6,5 milljörðum að mati Samkeppnisstofnunar en líklega hafi heildartap samfélagsins vegna samráðsins hlupið á tugum milljarða.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, fyrirtækin skipt um eigendur – lyklstjórnendur látið af störfum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -