Miðvikudagur 7. júní, 2023
7.8 C
Reykjavik

Ómar Pétursson miðill sér víkinga: „Í þessum gömlu víkingafötum, með hjálm, góðan skjöld og sverð“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hann starfar meðal annars sem heilari. Segist vera í sambandi við leiðbeinendur að handan og hjálpar fólki til að líða betur og aðstoðar fólk sem heyrir, sér eða skynjar eitthvað óeðlilegt á heimilum sínum. Ómar Pétursson leggur áherslu á kærleikann. „Við megum ekki gleyma að njóta jarðvistarinnar og læra eitthvað af henni vegna þess að þegar hún er svo búin þá hefur fólk alla eilífðina til að sinna handanheiminum.“

 

 

„Ég átti leikfélaga í æsku sem ég spáði þá ekki í að aðrir sáu ekki. Bróðir minn hafði orð á því löngu síðar að hann myndi eftir mér þar sem ég hafði setið úti í horni og verið að spjalla við einhvern sem enginn sá nema ég. Þetta var mér einhvern veginn svo eðlilegt. Þetta var ekkert sem truflaði mig.“

Hverja sá Ómar Pétursson? Komu þeir honum fyrir sjónir eins og mannanna börn?

„Já, og það var sérstaklega einn. Ég er nú búinn að hitta hann eftir það. Hann er álfur. Það er álfabyggð við þorpið þaðan sem ég er, Bakkafirði.“

Ég sá stundum eitthvað sem ég vissi að enginn annar sá en spáði ekki mikið í þessa leikfélaga mína.

- Auglýsing -

Ómar segist ekki hafa spáð mikið í þetta fyrr en um fermingaraldur. „Ég sá stundum eitthvað sem ég vissi að enginn annar sá en spáði ekki mikið í þessa leikfélaga mína. Þegar ég var að nálgast fermingaraldurinn þá sá ég nú hluti sem kannski enginn ætti að sjá; maður sér ekki alltaf allt fallegt. Það fylgir stundum. Þá man ég eftir því að ég bað um að fá frið og þá í sjálfu sér sá ég ekkert að ráði í nokkur ár; ekki þannig að ég spáði neitt í það. Þetta er ekkert óalgengt. Það er gjarnan sagt að langflest börn verði vör við eitthvað án þess kannski að átta sig á því og það dregur úr þessu þegar þau nálgast kynþroskaaldurinn. Svo er spurning hjá hverjum þetta kemur kannski aftur eftir kynþroskann. Það hefur kannski að gera með sakleysi barna. Þau eru bara opin. Það er ekki búið að búa neitt til í huga þeirra.“

Næmnin fór að gera aftur vart við sig á menntaskólaárunum. „Ég vissi alveg af þessu en var svo sem ekkert að sækjast eftir þessu. Maður var að hugsa um annað á þessum árum. En leiðbeinendur mínir sóttu svolítið á þetta. Ég fann alveg að ég gat hjálpað fólki; sem sagt heilað það. Ef fólki leið illa þá kannski fór ég og spjallaði við það og því leið miklu betur á eftir þannig að meðvitað eða ómeðvitað var ég sem sagt að nota hæfileikana en var aldrei að fullnýta þá ef ég get sagt sem svo. Það var ekki fyrr en árið 2007 en þá dreif ég mig á námskeið hjá Bjarmanum á Dalvík og síðan hef ég unnið markvisst að því að fara á námskeið, bæta þekkinguna og þjálfa mig.“

Ómar segir að á þessum tíma hafi fólk jafnvel gengið að sér og spurt hann hvort hann gerði sér grein fyrir hvað hann væri mikill heilari. „Og áður en ég fór á námskeiðið fór ég á einkafund þar sem miðill sagði að ég væri með fullt af fólki með mér og spurði hvort ég ætlaði ekkert að nota fólkið til að hjálpa öðrum. Hún sagði svo að ég ætti eftir að læra það þegar ég væri tilbúinn.“

- Auglýsing -

 

Margfalt fleiri

Ómar segir að þetta snúist um að læra að stjórna tengingunni við handanheim og virkja rétt orkuna sem viðkomandi hefur. „Maður getur til dæmis hjálpað fólki með höfuðverk en við erum ekki kraftaverkamenn. Þetta virkar ekki þannig. Þetta snýst fyrst og fremst um að læra og vinna svolítið markvisst með orkuna. Þetta snýst líka um að skynja og þekkja verndarana sem eru með manni til að virkja þá í að hjálpa manni. Þegar ég vinn í dag bið ég einhvern þeirra um að hjálpa ákveðnum aðila og ég bið annan um að hjálpa öðrum. Um það leyti sem ég var að fara á fyrstu námskeiðin átti ég ekkert auðvelt með að vera þar sem voru margir – svo sem að fara á mannamót eða í verslunarmiðstöðvar af því að ég varð svo þreyttur á eftir. En þegar ég var búinn að fara á námskeið þá áttaði ég mig og skildi þetta; fólk á svona fjölmennum stöðum er náttúrlega bara misjafnlega uppbyggt. Við heilarar erum stundum kallaðir ljósberar; við erum kannski eins og 150 vatta pera og svo þegar við förum til dæmis í verslunarmiðstöðvar þá eru þar einhverjir sem eru kannski eins og 20 eða 50 vatta perur og orkan leitar sjálfkrafa að jafnvægi. Og ef maður býr ekki til vernd í kringum sig eins og ég kalla það – passar upp á sína orku – þá fer orkan sjálfkrafa. Það er ekki það að sá sem stendur við hliðina á manni ætli að sér að taka hana; þetta er bara í rauninni náttúran. Jafnvægi í náttúrunni.

Ég bið um sérstaka vernd og loka mig af þannig að ég geti farið og verið venjulegur eins og ég segi stundum.

Þegar ég var í verslunarmiðstöðvum skynjaði ég margfalt fleiri heldur en voru þar. Í dag er þetta ekkert vandamál því ég er búinn að skilgreina vinnutíma minn; ég passa mig sérstaklega þegar ég fer á svona staði. Ég bið um sérstaka vernd og loka mig af þannig að ég geti farið og verið venjulegur eins og ég segi stundum. Eftir að ég virkjaði þetta er miklu auðveldara fyrir mig að fara á svona staði. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í minni heilun er að fara kannski á kaffihús þar sem eru margir, setjast niður bara með minn kaffibolla og svo undirbý ég mig og fer að vinna. Ég horfi í kringum mig og hendi svo orkuboltum í þá sem ég tel þurfa á að halda. Þetta er bara ég.“

 

Sá bara beinagrindina

Ómar byrjaði að heila á Dalvík og svo á Akureyri hjá Sálarrannsóknarfélaginu á Akureyri. „Það var gríðarlega mikil reynsla og maður þroskaðist og þróaðist býsna hratt á þessum árum. Ég man eftir því þegar einn lagðist á bekkinn hjá mér; mér brá mikið þegar ég settist til fóta vegna þess að ég sá bara beinagrindina. Þá var verið að sýna mér að hann væri með skakkan hryggjarlið.

Fyrst til að byrja með þegar var verið að kenna manni var mjög algengt að ég fann verki þess sem ég var að heila.

Þetta snýst hins vegar ekki alltaf um að sjá eitthvað heldur er þetta meira tilfinning; hvað ég fæ til mín. Hvað þeir sem eru með mér segja við mig. Þetta hefur verið allur skalinn. Fyrst til að byrja með þegar var verið að kenna manni var mjög algengt að ég fann verki þess sem ég var að heila. Það er algengt til að byrja með en þá er verið að sýna manni og kenna og svo eftir því sem maður styrkist og gerir meira þá þroskast maður þannig að maður þarf ekki að finna verkina til að vita hvar þeir eru. Maður lærir það á námskeiðum hvernig maður getur unnið við þetta án þess að taka það endilega inn á sig. Þeir sem fara ekki á námskeið taka kannski hlutina of mikið inn á sig og vita svo ekki hvernig þeir eiga að losa sig við það. Það er mikilvægt að þeir sem vinna við þetta taki hlutina ekki inn á sig; það verður að koma því frá sér svo að viðkomandi sitji ekki uppi með vandamálið í stað þess sem verið er að hjálpa.“

Ómar Pétursson.
„Fyrst til að byrja með þegar var verið að kenna manni var mjög algengt að ég fann verki þess sem ég var að heila.“ (Mynd: Helgi Jónsson.)

Seiðkarl

Ómar segist geta lokað fyrir hæfileikann þegar hann vill. Og opnað. Hann fékk á sínum tíma kennslu eða þjálfun til að geta gert það.

„Það er mjög óhollt fyrir líkamann að vinna í þessari orku allan daginn.“

Orkan. Það er þessi orka. Það er sagt að það sé sérstök orka hjá heilurum. Miðlum.

„Orkan getur farið svolítið eftir því hvað viðkomandi þarf á að halda. Orkan hjá mér getur oft verið mjög köld en hún getur líka verið heit. Ég hef þrisvar farið á námskeið hjá Arthur Findlay College í Stansted í Bretlandi og eitt kvöldið var kennarinn með sýnikennslu uppi á sviði. Ég settist tiltölulega framarlega. Sá sem var á sviðinu hafði aðgang að orku allra í salnum og fann ég eins og það væru reknir pólar í gegnum mig; ég var í Sahara-eyðimörkinni öðrum megin og norðurpólnum hinum megin.“ Ómar hlær. „Þetta er rosalega misjafnt, sérstaklega þegar ég fer í trans sem ég hef svolítið gert sem er bara hluti af þróuninni eða þroskanum en þá verð ég mjög kaldur. Það er bara hluti af því að mínir leiðbeinendur eru að passa mig.“

En það er mikilvægt að passa upp á kærleikann og einnig trúna.

Hvað með þægilega orku sem sumir finna fyrir hjá miðlum?

„Það er ekki hægt að vinna við að hjálpa öðrum nema með kærleika og það er þessi þægilega orka sem fólk finnur. Það er mikilvægasti þátturinn. Og ef fólk ætlar að fara að vinna við þetta þá þarf það að sinna sjálfu sér. Viðkomandi byrjar alltaf á því að taka sjálfan sig aðeins í gegn til þess að það sé ekkert hjá honum sem mögulega truflar þegar hann fer að hjálpa einhverjum öðrum. Þannig að það er heilmikil sjálfsvinna sem felst í því að fara þessa leið. Þetta er náttúrlega mjög gott fyrir mann sjálfan því maður hreinsar til og maður á alltaf að horfa meira fram á við en í baksýnisspegilinn. En það er mikilvægt að passa upp á kærleikann og einnig trúna. Ég segi oft að það skipti ekki öllu máli á hvað fólk trúir; það getur trúað á álfa og tröll og notað þau til að hjálpa sér eða það getur trúað á Jesú. Mér er sama hvað það er. Það er bara svo mikilvægt að viðkomandi trúi og hafi þannig trúna og kærleikann með sér í því sem verið er að gera. Þannig næst miklu betri árangur.“

Ómar talar um verndara sína. Ingibjörg, dóttir hans, teiknaði mynd af einum þeirra og hangir hún á vegg á heimilinu. Ómar segir að dóttir sín hafi séð verndarann vel. Hann kallar hann Valdimar, því hans rétta nafn sé svo erfitt og óþjált í framburði, og segir að hann hafi verið uppi í Bretlandi í kringum 1300-1400. „Ég kalla hann seiðskratta; honum finnst það ekki skemmtilegt. Hann var uppi á sama tíma og Merlin og þessir; þessar þjóðsögur sem voru í Bretlandi. Hann er seiðkarl eða galdrakarl, svolítið líkur Gandalf.“

Ómar Pétursson.
„Valdimar.“ „Valdimar er annar af mínum tveimur aðalleiðbeinendum sem eru búnir að vera með mér frá upphafi og í sjálfu sér miklu lengur en þennan tíma hérna en það er önnur saga.“ (Mynd: Helgi Jónsson.)

Ómar segir að öllu fólki fylgi tveir verndarar eða leiðbeinendur. „Þó þeir kallist verndarar þá mega þeir ekkert gera nema að maður biðji þá um aðstoð. Þeir mega ekki grípa fram fyrir hendurnar á manni; ef maður talar ekki við þá eða skynjar þá ekki þá mega þeir það ekki. Valdimar er annar af mínum tveimur aðalleiðbeinendum sem eru búnir að vera með mér frá upphafi og í sjálfu sér miklu lengur en þennan tíma hérna en það er önnur saga.“

 

Fordómar

Það er stundum sagt að trúin flytji fjöll. Getur það haft áhrif þegar fólk trúir því að heilari geti hjálpað?

Ég hef hitt marga og svo kemur fólk aftur til mín í heilun; það er svo þakklátt af því að því líður svo vel.

„Það er ekki spurning. Ég tengi þetta stundum við máltækið „guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir“ vegna þess að ef fólk hefur trú á því að það geti gert eitthvað þá er viðkomandi að minnsta kosti kominn hálfa leið. Það skiptir svo miklu máli að hafa trú á sér sjálfum eða því sem verið er að gera. Ég hef hitt marga og svo kemur fólk aftur til mín í heilun; það er svo þakklátt af því að því líður svo vel. Ég kem stundum með ráð, sérstaklega ef þetta er andlegt, um hvernig fólk getur unnið betur í sér og gert betur til að passa upp á sig. Maður sér framþróunina. En svo kemur fólk stundum reglulega til mín og það gerist ekki neitt. Það er einfaldlega af því að það hefur ekki trú á því að eitthvað sé að gerast; það þarf að hafa trú á því sem verið er að gera fyrir viðkomandi. Við erum rúmlega 20 heilarar og miðlar hérna norðan heiða sem sendum gjarnan á milli okkar tölvupóst ef við fáum einhverjar beiðnir inn og ég get nefnt dæmi um fólk sem við höfum fengið inn á borð til okkar og ári síðar skildu læknar ekki hvað gerðist. Ég segi líka að þetta vinnur allt saman; Arthur Findlay College er aðalskóli spíritistafélagsins í Bretlandi og þeir eru með námskrá og þetta nám er viðurkennt í Bretlandi og þeir sem hafa útskrifast mega starfa við hlið lækna á sjúkrahúsum. Ég segi oft að ef við hugsum til einhvers í hreinum kærleika þá getum við aldrei gert annað en að hjálpa eitthvað. Við getum aldrei skaðað.“

Ómar segir að hér á landi sé hins vegar stutt í fordóma gagnvart þeim sem vinna við þessi mál og nefnir hann hjúkrunarfræðinga sem hann segir að noti hæfileika sína í starfi sínu án þess að hafa hátt um það.

 

Andarnir í húsunum

Ómar segist bjóða upp á þjónustu sem felist í að aðstoða framliðna sem trufla fólk í híbýlum þess. Hann segir að sumir heyri hljóð; heyri til dæmis dyrum lokað eða umgang. Aðrir sjá eitthvað og skynja. „Stundum talar fólk um gamlan mann sem er að trufla en þá getur það verið einhver sem byggði húsið eða er afi eða langafi viðkomandi sem ætlar bara að líta eftir. Þegar ættingjar okkar falla frá eru þeir oft einhvers staðar nálægt og vilja halda áfram að passa upp á okkur.“

Ómar segist hafa um 30 framliðna sér til aðstoðar við svona verkefni.

„Fólk spyr hvort ég vilji hjálpa því að „hreinsa“ en þetta snýst ekki um að hreinsa. Ég skal segja þér sögu sem hjálpaði mér til þess að skilja af hverju ég vil ekki kalla þetta því nafni. Ég var á sínum tíma fenginn til að aðstoða fólk í húsi sem bjó í Reykjavík og var ég búinn að mæla mér mót klukkan fimm. Ég var bara að rölta í bænum og var mættur um 20 mínútum fyrir fimm. Ég settist á stein úti í garði og horfði í kringum mig; þarna er mikið af gömlum húsum og eitthvað um hús sem höfðu verið færð þangað en höfðu staðið áður annars staðar í borginni. Ég var kominn í gírinn af því að ég ætlaði að skoða umhverfið í kringum húsið og fór að vinna. Þá sá ég fjölda framliðinna í hinum húsunum sem voru að fylgjast með mér.“

yfirgnæfandi meirihluta tilfella eru það þeir sem eru nýfluttir í hús svo sem börn varir við einhverja en þá eru það kannski þeir sem eru að passa upp á húsin.

Þögn.

„Ég fór að velta því fyrir mér af hverju þeir væru að fylgjast með mér og þá sagði einn þeirra að hann kynni ekki við okkur sem værum að reka þá á milli húsa. Ég spurði hvað hann ætti við. Hann spurði hvort ég hafi ekki heyrt talað um góðan anda í húsum og að fólki fyndist vera misgott að koma í hús. Og það er akkúrat það sem þetta er: Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella eru það þeir sem eru nýfluttir í hús svo sem börn varir við einhverja en þá eru það kannski þeir sem eru að passa upp á húsin. Þeir hafa kannski fengið það hlutverk hinum megin eða þá að þeir byggðu húsið á sínum tíma og tengjast því þannig. Oftar en ekki snýst þetta um að semja við viðkomandi, sérstaklega ef ung börn eiga í hlut sem eru nýflutt í húsið af því að sum börn eru næm. Þeir átta sig ekki endilega á því að börn eru næmari og skynja þá. Oft snýst þetta um að ræða við þá látnu og segja þeim að passa sig á að börnin verði ekki vör við þá. Þetta snýst ekki um að reka drauga út úr húsum.

Börn eru næmari en fullorðnir eins og ég hef nefnt og með tiltölulega sterkt ljós og draga þá oft að sér fólk að handan. Ég veit að maður á ekki að segja þetta en það er oft talað um að látnir fari beint í sumarlandið en það er ekki alltaf svo einfalt; fólk lendir í slysi og áttar sig ekki alltaf á því að það er farið yfir. Svo líður sumum illa og finnst þeir ekki eiga skilið að fara yfir. Það eru svo margar hliðar á þessu. Þetta fólk dregst að svona ljósverum í leit að hjálp og í þeim tilfellum þarf að hjálpa þeim að ná áttum og koma þeim alla leið yfir. Og þá er það farið. Ég gæti haft nóg að gera við að reka framliðna á milli húsa,“ segir Ómar og hlær, „en þetta snýst ekki um það. Þetta snýst að langmestu leyti um að viðkomandi skilji það að hann sé að trufla börnin og þurfi þá að draga sig til baka. Í 95% tilfella er það ekkert annað. Þetta snýst um að hjálpa til.“

Ómar segir að þegar hann aðstoði framliðna yfir þá taki það stundum tíma. „Maður vill alltaf gera þetta í góðu og það er svo mikilvægt að gefa sér tíma í það og hugsa kannski til fólks tvo til þrjá daga í röð til þess að ná alveg í gegn eða ná að fara yfir allt saman. Fólkið sem býr í húsunum skynjar oft frið og talar oft við mig um það eftir á að börnin séu farin að sofa betur og verða ekki hrædd. Svo fylgist ég stundum með og í einu tilfelli hafði stelpa á heimili verið ómöguleg og eftir að hafa aðstoðað við það heimsótti ég einu sinni fjölskylduna og því fylgir alltaf ákveðin heilun. Það var hundur á heimilinu og sótti hann svolítið í mig á meðan ég var þarna. Húsmóðirin hafði samband við mig nokkrum dögum síðar og þakkaði mér fyrir heimsóknina og sérstaklega það að hundurinn sem hafði verið haltur og ómögulegur varð eins og stálsleginn eftir heimsóknina.“

Ómar Pétursson
„Ég gæti haft nóg að gera við að reka framliðna á milli húsa,“ segir Ómar og hlær, „en þetta snýst ekki um það.“ (Mynd: Helgi Jónsson.)

Víkingasveitin

Ómar segist vera með heila víkingasveit að handan sér til aðstoðar.

„Ég hitti á sínum tíma í veislu eina frænku mína í Reykjavík og spjölluðum við saman. Það barst eitthvað í tal hvað ég væri að sýsla og hún spurði hvort ég gæti ekki heimsótt hana og hjálpað henni. Ég heimsótti hana daginn eftir og þá kom í ljós að það gat enginn sofið í einu  herberginu á heimili hennar. Hundurinn hennar gat ekki einu sinni verið þar inni. Ég fór inn í herbergið og tengdi mig inn á það. Þar var stytta sem hún hafði fengið gefins sem hafði komið frá Bretlandi og það sem var inni í herberginu hafði komið með styttunni. Ég bað viðkomandi um að hætta að trufla og fór svo fram.

Ég fór að ræða við þessa þrjá og þá kom einn í viðbót og sá reyndist vera frá víkingaöld á Íslandi.

Eiginmaður frænku minnar sagði svo að ég þyrfti að heimsækja vinafólk þeirra sem bjó ekki langt frá og við fórum þangað og sagði vinkona þeirra að þau hjónin yrðu alltaf fyrir ákveðinni truflun í svefnherberginu. Ég fór að skoða þetta og skynjaði að það hafði mikið gengið á í þessu húsi. Ég sagði við húsmóðurina að þeir væru þrír sem væru að trufla þau og þá sagði konan að hún hefði aldrei sagt áður að hún hefði séð þrjá skugga þar inni. Ég fór að ræða við þessa þrjá og þá kom einn í viðbót og sá reyndist vera frá víkingaöld á Íslandi. Við verðum að átta okkur á því að farið er um víðan völl við byggingaframkvæmdir og á víkingatímanum voru menn ekkert alltaf jarðaðir á ákveðnum blettum þannig að það er búið að raska fleiri en einni víkingagröf. Yfirleitt gerist nú ekkert en í þessu tilfelli voru þessir tilteknu aðilar ekkert sáttir við það. En það náðist sátt. Þegar ég var búinn að semja við þessa þrjá um að þeir skyldu hætta að trufla og athuga hvort þeir gætu ekki fundið frið einhvers staðar annars staðar þá kom þessi fjórði til mín tveimur dögum síðar og spurði hvort hann mætti ekki bara vera með mér áfram og hjálpa mér. Hann og vinir hans. Og þar með eignaðist ég 14 manna víkingasveit.“

Ómar segist vera búinn að sjá þá alla. Hann segir að fyrsti víkingurinn sem hann hitti heiti Hrærekur og að teiknimiðill hafi teiknað mynd af honum fyrir sig.

„Hann er í þessum gömlu, góðu víkingafötum og með hjálm, góðan skjöld og sverð. Ég nota hann stundum; ef fólk verður fyrir ákveðinni truflun fer hann stundum með sína menn. Mér finnst vera þægilegt að biðja þá um vernd fyrir hús.“

 

Kærleikurinn

Ómar segir að fólk sem vinni sem miðlar eða heilarar verði sumt fyrir fordómum eins og þegar hefur verið minnst á. Neikvæðni. „Við sem störfum í þessu erum jafn misjöfn eins og við erum mörg og það verður alltaf. Það er alveg sama um hvaða atvinnugrein er að ræða – það eru alltaf einhverjir óheiðarlegir sem skemma fyrir hinum. Það er ekkert öðruvísi í þessum geira. Ég hef svolítið talað um það að sálarrannsóknarfélög ættu að búa til námskrá því að það er eitthvað um að fólk mæti á eitt heilunarnámskeið og er svo sjálft farið að kenna eða farið að vinna sem miðlar eftir stuttan tíma. Ég brýni fyrir fólki að taka hlutunum rólega. Þetta er langhlaup. Það verður að gefa sér tíma í þjálfunina.“

Valdimar virðist fylgjast með viðtalinu á striganum sem hangir á veggnum. Ómar er spurður hverjir séu í herberginu þessa stundina.

„Valdimar er alltaf með mér og Wu, kínverskur nálastungulæknir. Ég í rauninni vinn aldrei neitt svona nema að þeir séu einhvers staðar nálægt. Það er eitt stykki grábjörn hérna líka. Svo er ég með indíána sem heitir Guli hundur; hann er svolítil tenging við björninn. Það er algengt að fólk sem er í andlegum málum tengist eitthvað indíánum. Indíánar og Inkarnir eru andlegustu verurnar sem hafa gengið um jörðina á okkar tímum; svo ef við förum lengra aftur í tíma þá getum við talað um fólkið sem var í Atlantis.“

Ómar er spurður hvað það hafi gefið honum að aðstoða fólk á þennan hátt. „Mér er gefinn þessi hæfileiki að hjálpa fólki og það gefur mér ótrúlega mikið. Ég verð ekki ríkur af þessu. Það sem gefur mér ótrúlega mikið er til dæmis að fara á kaffihús í jólaösinni og henda orkubolta á þá sem ég tel þurfa á að halda. Það veit enginn hvað ég er að gera en mér er nákvæmlega sama af því að ég tel mig vera að gefa fólki og senda því orku sem það þarf á að halda.“

Ómar stofnaði á sínum tíma Facebook-síðuna „Tveggja heima tal“ þar sem fólk veltir fyrir sér andans málum. Síðan er opin þannig að það þarf ekki að sækja um að verða þar meðlimur. „Fólk er kannski að spyrja spurninga og mér finnst vera í lagi að fólk geti haft þarna skoðanaskipti hvort sem það er að setja myndir af bollunum sínum eða spyrja ráðleggingar ef það á kannski erfitt með að sofa.“ Má segja að þetta sé þá hluti af heilun Ómars? „Já, það má segja það. Eins og allt annað á þetta að byggjast á kærleika og að fólk tali saman og veiti hvert öðru ráð.“

Ómar stofnaði á sínum tíma Facebook-síðuna „Tveggja heima tal“ þar sem fólk veltir fyrir sér andans málum. (Mynd: Helgi Jónsson.)

Við megum ekki gleyma að njóta jarðvistarinnar og læra eitthvað af henni vegna þess að þegar hún er svo búin þá hefur fólk alla eilífðina til að sinna handanheiminum.

Hvað er dauðinn í huga Ómars? „Hann er bara framhald. Simone Key, sem er breskur miðill, sagði að við megum ekki gleyma þessum jarðneska tíma því að í samhenginu er hann tiltölulega stuttur. Við megum ekki gleyma að njóta jarðvistarinnar og læra eitthvað af henni vegna þess að þegar hún er svo búin þá hefur fólk alla eilífðina til að sinna handanheiminum.“

Ómar segir að kærleikurinn sé aðalatriðið.

Guðfinna Þorsteinsdóttir samdi ljóðið Lífsreglur og fer Ómar með hluta eins erindisins sem segir mikið.

 

Þerraðu kinnar þess er grætur.
Þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta,
sólargeisla kærleikans.

 

„Þetta er búið að vera mitt mottó. Þetta er það sem menn verða að hafa að leiðarljósi.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -