Föstudagur 11. október, 2024
0.7 C
Reykjavik

Opið bréf snjómokstursverktaka til íslensku þjóðarinnar: „Gleðin alltaf minnkað meira og meira“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rúnar Ingi Árdal snjómokstursverktaki segist oft mæta ömurlegu viðmóti frá fólki en hann hefur undanfarin 11 ár rutt snjó á Akureyri. Hann segir starf sitt vera það vanþakklátasta starfar sem hann hefur unnið við og biðlar til íslensku þjóðarinnar um viðhorfsbreytingu.

Rúnar ritar langan pistil á Facebook þar sem hann lýsir vel því viðmóti sem íslenskir snjómoksturmenn fá hjá löndum sínum. Við skulum gefa hinum norðlenska snjómokstursverktaka einfaldlega orðið:

„Ég vinn hjá verktaka í snjómokstri. Í kringum síðustu mánaðamót kom snjórinn en þegar hann kom var það af fullri alvöru. Flestum finnst snjórinn vera svo jólalegur og fallegur en ég sé bara vekjaraklukkuna stillta á hánótt og þreytu. Þetta er 11. veturinn sem ég vinn við mokstur og mér hefur alltaf þótt það gaman en síðustu ár hefur gleðin alltaf minnkað meira og meira.

Það snjóaði 2 daga í lok nóvember en samt féll snjódýptarmet fyrir þann mánuð frá upphafi mælinga, 75cm, desembermetið féll strax í byrjun mánaðar, 105cm yfir öllu. Það sem komst næst því var 100cm árið 1965. Við hjá fyrirtækinu sem ég vinn hjá mokum plön fyrir hátt í 50 fyrirtæki á hverri nóttu ef snjóar, þurfum að fylgjast með hvort snjói og hvað mikið því ekki má maður eyða peningum fyrir kúnnan og moka eitthvað sem er ekki neitt.

Þessi plön þurfa að vera klár fyrir opnum hjá fyrirtækjunum og svo þurfum við að vera til taks fyrir Akureyrarbæ ef það er hringt. Því fleiri vélar sem bærinn vill fá því fyrr þurfum við að fara á fætur til að ná að klára fyrir fyrirtækin á réttum tíma. Þegar bæjarvinnan er búin á daginn þá taka húsfélög og einstaklingar við.

Í snjómagni eins og kom á 2-3 sólarhringum um síðustu mánaðamót er alveg sama hvað við förum snemma á fætur, það er allt í hers höndum og allir reyna að gera sitt besta til að gera eitthvað fyrir alla kúnnan. Það verður hins vegar ekkert 100%, tíminn er ekki nægur, plan sem venjulega er mokað á klukkutíma tekur 2,5 tíma og svo framvegis.

- Auglýsing -

Ég var svo heppinn að eignast mitt fyrsta barn í september, yndislega stúlku. Ég get ekki sagt að ég hafi hitt hana fyrstu 10 daga desembermánaðar, við vinnufélagarnir vorum allir að vinna 15-18 tíma á sólarhring og ekkert annað í boði en að vakna þegar klukkan hringdi. Konan mín er í fjarnámi frá háskóla í Skotlandi og var að skila verkefnum á þessum tíma og í ofanálag varð litla skottan veik, ég var sjálfur með 38.5 í nokkra daga og hef sjálfsagt smitað litla greyið. Þannig fjölskyldu- og heimilislífið var ekki upp á marga fiska. Þetta er svo sem allt gott og blessað, ég veit við hvað ég vinn og það koma tarnir sem klárast alltaf fyrir rest.

En nú kemur tilgangurinn með þessum skrifum. Snjómokstur er vanþakklátasta starf sem ég hef unnið, þarna kynnist maður því hvað fólk getur látið út úr sér við aðra einstaklinga, orð sem ég vona að litla stelpan mín eigi aldrei eftir að læra. Við mokum vitlaust, snjórinn er fyrir, það er ekki mokað nógu vel hjá þessu húsi, af hverju er þessi gata ekki mokuð fyrst og svo framvegis. Svo ég tali nú ekki um það sem fólk skrifar á samfélagsmiðlana.

Við mokstursmennirnir ráðum þessu ekki. Það er framkvæmdamiðstöð sem er að kaupa verktakana í vinnu hjá sér og við gerum það sem okkur er sagt að gera. Ég ásamt fleirum fórum og hjálpuðum konu niðri á Eyri um daginn sem var föst, ég var að moka í næstu götu og nágranni hennar kom og bað mig að ýta með sér sem ég gerði að sjálfsögðu. Hún las mér pistilinn af hverju væri ekki búið að moka hennar götu og svo framvegis. Einhversstaðar þarf að byrja og það er ekki hægt að byrja á götunni hjá öllum því miður sagði ég og hjálpaði svo hinum að ýta og hún komst leiðar sinnar án þess að þakka fyrir sig.

- Auglýsing -

Fólk notar miðfingurinn óspart á okkur snjómokstursmennina, treður sér inn í göturnar sem við erum að moka kannski bara til að keyra í gegn þó það sé önnur fær gata við hliðina sem skilar fólki á sama áfangastað, oft fer sami bíllinn margar ferðir í gegn. Einn var svo ósvífinn að segja vinnufélaga mínum að það þyrfti að hreinsa vel hjá sínu húsi, hann ætti fatlað barn. Þetta gerðum við samviskusamlega í mörg ár, í hvert skipti sem gatan var mokuð en komumst svo að því að þessi maður átti ekki og hafði aldrei átt fatlað barn. Við erum allan daginn að taka ákvarðanir, er bíll undir snjónum þarna, er kantsteinninn hérna, hvar er aftur brunnlokið sem stendur uppúr malbikinu þannig maður hangir í beltinu ef maður keyrir á það. Við erum allir þreyttir og mannlegir, gerum mistök og skemmum hluti, en varla viljandi er það?

Fólk færir oft ekki bílinn sinn úr götunni þó það sé búið að horfa á mann út um gluggann allan tímann og kemur svo út þegar maður er búinn að brasa allt í kringum bílinn og færir hann aðeins svo hann standi á auðu. Sumir bílar færast aldrei allan veturinn og sumum er ekki hreinsað af þannig maður heldur að þeir séu snjóhaugur. Sem betur fer eru svo aðrir sem koma út á eldingshraða og græja þetta án vandamála.
Svo bilar vélin hjá manni, það fer mjög illa með tækin að moka snjó, ef maður er heppinn þá getur maður látið draslið hanga fram að hádegismat og gert við þá og gripið bara ristað brauð á kaffistofunni, annars þarf maður að fara og gera við eins hratt og hægt er og halda svo áfram að moka.

Sem betur fer eru aðrir sem eru góðir og kurteisir, við fáum veif, bros eða kannski smáköku í vélina, fólk sem skilur að við erum að gera okkar besta og vel það. Það sem ég vil segja með þessum skrifum er að það liggur ekki alltaf lífið á, það er oft hægt að taka smá krók eða jafnvel bíða bara smá stund. Það verður enginn rekinn úr vinnu þó viðkomandi þurfi að bíða eftir snjómoksturstæki eða ég vona ekki. Verum góð hvort við annað segir einhvers staðar og notum endurskinsmerki.

Með ósk um gleðileg og vonandi rauð jól.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -