Þriðjudagur 15. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Ósætti vegna úthýsingu Glímudeildar Njarðvíkur: „Staðfestir illvilja þess einstaklings“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikill styr hefur staðið um ákvörðun Íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar um að úthýsa Glímudeild Njarðvíkur úr bardagahöllinni á Iðavöllum. Í gær birtist færsla á Facebooksíðu Glímudeildarinnar þar sem farið er ofan í saumana á málinu.

Færsla sem birtist á Facebook-síðu Glímudeildar Njarðvíkur í gær hefur vakið athygli en þar er sagt frá því hvernig Íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar með stuðningi Íþrótta- og tómstundaráðs bæjarins hafi „fengið sínu fram“ og loka á afnot Glímudeildarinnar af Bardagahöllinni á Iðavöllum. DV talaði við lögmann Glímudeildarinnar í ágúst síðastliðnum en hann talaði um „stjórnsýslulegt einelti“ en DV hefur síðustu ár flutt nokkrar fréttir af deilum félagsins.

Færslan hefst á eftirfarandi orðum:

„Mölbrotin stjórnsýsla Reykjanesbæjar

Íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, með dyggum stuðningi Íþrótta- og tómstundaráðs (ÍT-ráðs) hefur nú fengið sínu framgengt og lokað fyrir afnot Glímudeildar Njarðvíkur að bardagahöllinni á Iðavöllum. Þar með er barna- og unglingastarfi deildarinnar lokið í bili, sem hefur verið gjaldfrjáls í rúmlega 13 ár og þjálfarar starfað þar í sjálfboðavinnu. Fjölmargir hafa komið að starfi deildarinnar á þessum tíma og almenn ánægja verið með starfið. Deildin er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og hefur eignast fjölmarga Íslandsmeistara, Norðurlandameistara og heimsmeistara og einnig staðið fyrir glímumótum og öðrum viðburðum í Reykjanesbæ fyrir alla aldurshópa. Fyrir síðustu atlögu Íþrótta- og tómstundafulltrúa voru um 100 iðkendur á öllum aldri skráðir í deildina.“

Einnig er sagt frá því í færslunni að Íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar hafi neitað Glímudeildinni um lán á dýnum sem voru keyptar sérstaklega fyrir deildina og er sérmerkt henni, þegar í ljós kom að rýma þyrfti æfingarhúsnæðið.

- Auglýsing -
„Vilja ekki lána dýnurnar

Þegar í ljós kom að Glímudeildin þyrfti að rýma æfingahúsnæðið, var óskað eftir að fá að taka dýnurnar sem keyptar voru sérstaklega fyrir deildina. Þá væri hægt að halda barna- og unglingastarfinu áfram þar til annað varanlegt húsnæði fyndist. Dýnurnar eru merktar deildinni og styrktaraðilum hennar. Reykjanesbær á tvo júdóvelli (dýnusett) sem ekki eru í notkun og einn glímuvöll. Beiðni um að fá að halda dýnunum um sinn, var hafnað af Íþrótta- og tómstundafulltrúa og það staðfestir illvilja þess einstaklings í garð deildarinnar. Hann hótaði einnig að kæra deildina fyrir þjófnað, ef umræddar æfingadýnur yrðu teknar úr núverandi húsnæði við Iðavelli.“

Í færslunni er einnig sagt frá því að lögreglan hafi verið kölluð til þegar iðkendur deildarinnar mættu til að rýma æfingahúsnæðið og sækja hluti sem eru í einkaeigu. Samkvæmt færslunni kærði Íþrótta og tómstundafulltrúinn tiltektina til lögreglu.

„Lögreglan mætir á staðinn

- Auglýsing -

Iðkendur glímudeildarinnar komu nýverið til að rýma æfingahúsnæðið og sækja hluti sem tilheyrði deildinni og eru í einkaeigu. Meðal annars þurfti að losa

æfingabúnað úr loftum og af veggjum. Á meðan verið var að losa þessa hluti, sem eru úr járni og stórir og þungir, var dýnunum rúllað upp til að koma í veg fyrir skemmdir á þeim. Á meðan á þessu stóð hringdi íþrótta- og tómstundafulltrúi, í samráði við forseta bæjarstjórnar (að hans sögn), og kærði tiltektina til lögreglu. Lögreglan kom á staðinn og sagði að íþrótta og tómstundafulltrúi hafi verið að fylgjast með tiltektinni í öryggismyndavélum. Iðkendur fengu ekki að klára að losa æfingaaðstöðuna en fengu það viku seinna.“

Þá fær bæjarráð Reykjanesbæjar einnig á baukinn í færslunni en þar segir að bæjarráðið hafi ítrekað hunsað beiðni stjórnar Glímudeildarinnar um fund vegna málsins.

„Hunsun og ófagleg afgreiðsla opinberra mála

Bæjarráð hefur ekki svarað ítrekuðum beiðnum stjórnar Glímudeildar um að fá fund til að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Þar af leiðandi hafa allar ákvarðanir Reykjanesbæjar byggst á einhliða málflutningi hagsmunaaðila og rógburði. Þegar lögmaður glímudeildar og Umboðsmaður Alþingis hafa óskað eftir rökstuðningi vegna stjórnsýsluákvarðana Reykjanesbæjar, hefur þeim erindum annað hvort ekki verið svarað, eða seint og illa.“Fyrrverandi forseti bæjarstjórnar er sögð í færslunni hafa játað að hafa ekkert vitað af málinu þegar hún samþykkti fundagerð ÍT um að taka æfingarhúsnæðið af Glímudeildinni.

„Forseti bæjarstjórnar vissi ekkert – en greiddi samt atkvæði
Stjórn glímudeildarinnar átti nýlega fund með fyrrverandi forseta bæjarstjórnar, sem samþykkti fundargerð ÍT ráðs um að taka æfingahúsnæðið af glímudeildinni. Á þeim fundi játaði hún að hún vissi ekkert um málið. Sagðist ekki hafa neinar skýringar á framkomu stjórnsýslunnar gagnvart glímudeildinni og kannaðist ekkert við sjónarmið glímudeildarinnar. Að þessu sögðu veltir maður fyrir sér hvort starfsmenn og aðrir fulltrúar Reykjanesbæjar þekki almennt ekki lög um opinbera stjórnsýslu og geri sér grein fyrir sinni ábyrgð í þeim efnum?“

Þá er bent á í færslunni það sem höfundur hennar kallar „hagsmundatengsl og klíkuskap“ en þar segir frá að Glímudeild Njarðvíkur hafi óskað eftir því að verða samþykkt sem félag undir ÍRB undir nýju nafni, Íþróttafélagið Sleipnir en því hafi verið hafnað á aðalfundi.

„Hagsmunatengsl og klíkuskapur

Glímudeild Njarðvíkur tilheyrði áður UMFN en óskaði síðar eftir því að verða samþykkt sem félag innan ÍRB undir nýju nafni: Íþróttafélagið Sleipnir, eftir að formaður UMFN reyndi að leysa eignir Glímudeildar til aðalstjórnar UMFN í trássi við landslög og lög UMFN. Því var hafnað á síðasta aðalfundi og útgefið að Íþróttafélagið Sleipnir yrði aldrei samþykkt því að stjórnarmenn Sleipnis hefðu verið í slæmum samskiptum við ÍT-ráð og fleiri. Þessi yfirlýsing gengur í berhögg við lög ÍRB þar sem stendur:
„3. grein.

Öll íþróttafélög í Reykjanesbæ, sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni, eiga rétt á að gerast aðilar að ÍRB, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem á hverjum tíma gilda um frjálsa íþróttastarfsemi og lögum ÍSÍ.

4. grein.
Óski félag eftir að gerast aðili að ÍRB, skal það senda stjórn ÍRB umsókn sína ásamt lögum félagsins, skýrslu um stofndag þess og ár, stjórn þess og tölu félagsmanna. Uppfylli félagið inntökuskilyrði þessara laga, öðlast það réttindi í bandalaginu eftir að umsókn þess er samþykkt. Stjórn ÍRB úrskurðar um inntöku nýs félags, en ársþing staðfestir“.

Með því að því að Íþróttafélaglið Sleipnir fái að vera aðili að ÍRB, er ÍRB að brjóta sínar eigin reglur, samkvæmt ofangreindu. Þegar betur er að gáð þá er ÍRB nú að mestu skipað starfsmönnum íþróttafélags Keflavíkur og núverandi og fyrrverandi meðlimum ÍT-ráðs. Síðan eru náin fjölskyldu- og vinatengsl einnig í þeim hópi við háttsetta starfsmenn Reykjanesbæjar. Ákvarðanatökur og umfjallanir verða aldreif faglegar í svona umhverfi.“

Að lokum segir frá næstu skrefum deildarinnar:

„Næstu skref
Fullorðinshópur Sleipnis er kominn með æfingaaðstöðu hja vinafélagi í íþróttahúsi Bjarkar í Hafnarfirði. Æfingar á mánudögum og fimmtudögum kl. 20. allar upplýsingar verða á nýrri æfingatöflu sem kemur fram í október.

Barna- og unglingastarfið fer því miður ekki af stað fyrr en nýtt húsnæði fæst frá Reykjanesbæ eða styrktaraðilum.“

Mannlíf heyrði í Hafþóri Barða Birgissyni, Íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar vegna færslunnar en hann neitaði að tjá sig en benti á Friðþjóf Helga Karlsson, formann Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar en ekki náðist í hann við gerð fréttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -