Fimmtudagur 8. desember, 2022
-1.2 C
Reykjavik

Össur minnist Hrafns: „Ég syrgi hann í dag, og alla daga”

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hrafn Jökulsson var borinn til grafar í dag að viðstöddu fjölmenni.

Gamli stjórnmálaskörungurinn Össur Skarphéðinsson ritaði fallega grein um Hrafn, sem var öllum þeim er til hans þekktu ógleymanlegur persónuleiki í alla staði:

SÓLFARARRÆÐA HRAFNS

Ég hitti Hrafn fyrst við tafl í Melaskólanum, örlítinn, kotroskinn pjakk. Hann var þá 10-11 ára gamall. Strax þá var hann orðinn sá sem við öll þekktum: Ótvíræður foringi, uppreisnargjarn, og fullur af þeirri réttlætiskennd sem einkenndi allt hans líf. Nokkrum árum eftir skákirnar í Meló var ég allt í einu ungur ritstjóri Þjóðviljans og réði hann sem blaðamann. Hann reyndist hvalreki; hamhleypa til verka, eiturskarpur og skrifaði stíl sem minnti á vorgolu. Jafnvel á Þjóðviljanum, þar sem allir voru Íslandsmeistarar í stílsnilld, dáðust menn að töfrum hans.. Engum kom því á óvart þegar Hrafn – aðeins 21 árs – var gerður að umsjónarmanni Helgarblaðsins. Það var þá einn helsti vettvangur menningarumræðu í landinu. Hann beið ekki boðanna, og leiddi fram á sviðið nýja kynslóð listamanna, fólk einsog Gerði Kristnýju, Jón Gnarr og marga fleiri.

Á þessum dögum var Þjóðviljinn bardagablað sem skaut fast og hikaði ekki við að draga andstæðinga sundur og saman í háði. Þar var Hrafn á heimavelli. Þungavigtarmenn kveinkuðu sér og sumir gripu til varna með hörðum greinum í Mogganum. Einn ráðherra sakaði hann um að æsa upp skrílinn. Vestfirskur ráðherra, sem talaði klassíska íslensku, Sverrir Hermannsson, skrifaði fræga grein og sagði að unglingurinn á Þjóðviljanum hefði étið óðs manns skít.

Þá daga var Hrafn í essinu sínu, okkar manni leið best í fremstu víglínu. Rauði þráðurinn sem rann í gegnum öll hans skrif var þessi: Hrafn var alltaf á bandi lítilmagnans, alltaf fullur af réttlætiskennd, alltaf í sókn fyrir þá sem áttu undir högg að sækja. Einu gilti hvort það voru fangar, fólk með geðraskanir eða börn: -hann var alltaf talsmaður hinna hrjáðu og smáðu, hinna jaðarsettu, þeirra sem ekki var pláss fyrir. Það var hans fólk.

- Auglýsing -

Síðasti sigur hans var að ná því fram að afleiðingar ómannúðlegs aðbúnaðar barna á vöggustofum fyrri tíðar yrðu rannsakaðar. Sjálfur var hann eitt þeirra barna. Hann taldi að dvölin þar hefði markað óafmáanleg spor í líf hans síðar.

Á Pressunni, hjá Gunnari Smára, skrifaði hann greinaflokk um aðbúnað fanga, sem síðar varð eitt af temum hans sem ritstjóra Alþýðublaðsins. Í það skrifaði Hrafn sína frægustu grein um ríkislögreglusjóra – glæpamannaframleiðanda ríkisins – og var umsvifalaust kærður fyrir ærumeiðandi ummæli. Skeleggur héraðsdómari, Guðjón St. Marteinsson, sýknaði Hrafn. Ríkissaksóknari áfrýjaði fyrir hönd ríkislögreglustjórans, en sigur Hrafns var staðfestur í Hæstarétti. Í kjölfarið breytti svo Alþingi lögum. Þetta var söguleg niðurstaða.

Hrafn Jökulsson, einn síns liðs og með ekkert að vopni nema hið örsmáa Alþýðublað, breytti íslenska réttarkerfinu og jók málfrelsi Íslendinga svo um munaði. Á þessu skeiði var hann einnig mjög virkur í stjórnmálum og markaði miklu dýpri spor en margir skilja. Á Þjóðviljanum gekk hann inn í ungt samfélag sem var í uppreisn gegn forystu flokksins, Alþýðubandalaginu – sem átti blaðið – og vildi uppgjör við fortíðina sem teygði sig aftur í kommúnisma Sovétsins og A-Evrópu. Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, kallaði Þjóðviljahópinn „lýðræðiskynslóðina”.

- Auglýsing -

Hrafn varð partur af henni. Hrafn varð lykilmaður í stofnun Birtingar, sem var uppreisnarfélag sem lýðræðiskynslóðinni tengdist. Þegar Birting knúði fram uppgjör á einum harðasta átakafundi í sögu Alþýðubandalagsins var Hrafn – rétt tvítugur – helsti talsmaður hópsins, og sá, sem flutti tillöguna, sem átökin snérust um. Tíu árum síðar var Alþýðubandalagið ekki til.

Hrafn tók síðan virkan þátt í sameinuðu framboði lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna í Reykjavík, Nýjum Vettvangi, sem ruddi brautina fyrir Reykjavíkurlistann. Síðan hafa öfl félagshyggjunnar nær óslitið ráðið borginni. Hrafn var partur af því ferli. Hann var líka í öðru sæti fyrir Alþýðuflokkinn á Suðurlandi árið 1995, þar sem héraðsblöð greina frá því að kosningafundir hafi meira og minna snúist um hann, og tók tvisvar sæti á Alþingi.

Jómfrúræða hans, sem flutt var blaðlaus í hita augnabliksins, snérist vitaskuld um mannréttindi. Mér er enn minnisstætt að þáverandi utanríkisráðherra setti dreyrrauðan undir vandarhöggum hins unga þingmanns.

Hrókurinn var næsti áfangastaðurinn á lífsgöngunni. Þegar félagið hafði sigrað allt sem hægt var að sigra – og orðið Íslandsmeistari skákfélaga þrjú ár í röð – var kvæðinu vent í kross og kröftum félagsins beint að útbreiðslu skákarinnar, hér á landi og í Grænlandi. Hann skipulagði einstakt skákstarf meðal eldri borgara, fólks með geðraskanir, fanga, innflytjenda, og Hrafn heimsótti alla grunnskóla á Íslandi og næstum allar byggðir Grænlands. Frá 2003 fór hann með Hróksmönnum í vikulegar heimsóknir á Barnaspítala Hringsins.

Síðustu 20 árin voru því að heita má helguð velferð barna. Árið 2015 hlaut hann fyrir þau störf viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children.

En hann átti fleiri strengi því hann var líka skáld svo af bar. Hann gaf út fjórar ljóðabækur, sem glitruðu af einhverjum ósýnilegum galdri, flosmjúkar, einfaldar en samt djúpar einsog sjálft hafið. Stórvirkið var þó bókin „Þar sem Vegurinn endar” sem allt eins má kalla óð til Árneshrepps. Þar lifði hann sínar bestu stundir sem barn og þangað snéri hann aftur og aftur, síðast til að hreinsa Kolgrafarvík. „Þar sem Vegurinn endar” er þó ekki bara óður til nyrstu Stranda heldur miklu fremur rannsókn á honum sjálfum, og því sem hann kallaði lífsgátuna. Spurningin -sem þó var hvergi beinlínis skrifuð -var í reynd þessi: Hvers vegna er ég eins og ég er?

Hrafn var alltaf að reyna að skilja orsakasamhengið í lífi sínu, og skilja uppruna þeirra demóna sem ásóttu hann allt lífið, Bakkus, depurð, jafnvel þunglyndi, eða það sem hann kjarnaði í erfiljóði um vin sinn og kallaði hina „sprenghlægilegu angist.”

Hann þjáðist yfir því að geta ekki fest rætur, og geta ekki tengst þeim nægilega sem hann elskaði. Hann elskaði börnin sín en þjáðist af því að hafa vanrækt þau. Hann leit á það sem bölvun sína.

Óperasjón Mikaels snérist um að lifa lengur til að bæta fyrir þær syndir.

Við, vinir hans, eigum að muna Hrafn fyrir það sem hann stóð fyrir, það sem hann gerði, fyrir alla gleðina sem hann færði, og fyrir það óeigingjarna starf sem hann vann í þágu þeirra sem standa höllum fæti.

Sólfararræðu Hrafns er varla hægt að ljúka með öðru en orðum hans sjálfs: Fram til sigurs!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -