Þriðjudagur 21. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

Páll Bergþórsson segir Esjuna vera að grænka: „Og líklega í fyrsta skipti í svona 800 ár“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Uppáhalds veðurfræðingur þjóðarinnar, Páll Bergþórsson á afmæli í dag. Er Páll 99 ára í dag og enn í fullu fjöri.

Páll Bergþórsson fæddist í Fljótstungu á Hvítársíðu árið 1923. Lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1944, prófi í veðurfræði við Sveriges Meteorologiska och hydrologiska Institut 1949 og fil. kand í veðurfræði 1955. Var Páll veðurstofustjóri frá 1989 til ársloka 1993.

Auk þess að flytja landanum veðurfréttir í sjónvarpinu í heil 23 ár, hefur Páll glatt fróðleiksfúsa með bókaútgáfum. Má þar helst nefna bækurnar Loftin blá og Veðrið. Þá hefur hann einnig unnið við rannsóknir á tölvugreiningu veðurkorta, hafísspám, vexti og hopi skriðjökla svo eitthvað sé nefnt.

Mannlíf heyrði í Páli og vildi vita hvort hann ætlaði að fagna afmælisdeginum.

„Já, ég ætla að fagna honum með mínu fólki. Með börnunum mínum og þeirra fólki. En það er of margt til að fá öll í einu. Afkomendurnir eru orðnir 30.“

Aðspurður hvernig Páll hefði það annars sagðist hann hafa það mjög gott. „Ég hef það ótrúlega gott í dag. Ég finn hvergi til. Og það er nú ekki alltaf sem maður er laus við það.“

- Auglýsing -

En blaðamanni Mannlífs lá forvitni á að vita hvort Páll væri enn að horfa í skýjin og spá og spekúlera. Og auðvitað kom hann ekki af tómum kofanum hjá Páli.

„Það er nú takmarkað. En jú, jú maður horfir í skýin og Esjuna. Ég fylgist með henni. Hún er að ganga í gegnum svolítið merkilega þróun. Hún er að grænka. Hún er að verða græn. Og líklega í fyrsta skipti í svona 800 ár. Það er vegna hlýnunar sem er meiri núna en hefur verið. Það ætti að vera farið að kólna. Það koma svona hlýindaskeið einu sinni á 100.000 árum, sem stendur í nokkur þúsund ár. En nú er þetta búið að vera í 10.000 ár og meira að segja farið að hlýna enn meira. Það þakka ég nú mannfjöldanum mikla. Hann hefur aukist úr einum milljarði árið 1870 og kominn í átta milljarða núna. Þetta er rosaleg fjölgun og margt sem fylgir því. Allur maturinn sem þarf að elda og allt sem þarf að þvo, það koma hlýindi af því. Og vegna þessa mikla mannfjölda hefur allt snúist við, það hefur hlýnað þegar átti að kólna. Í stað þess að það færi að kólna og það komi svona inngangur að ísöld þá er orðið hlýrra en hefur verið í 800 ár. Menn reiknuðu ekki almennilega með því að mannfjöldinn gæti hitað svona mikið. Það er svo margt sem fylgir því, allir bílarnir, allar flugvélarnar og verksmiðjurnar, allt þetta heimtar orku. Hitaorku. Og það fer út í náttúruna.“

Mannlíf óskar hinum ljúfa veðurfræðingi innilega til hamingju með afmælið!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -