Páll Vilhjálmsson er hæst ánægður þessa dagana enda hafa um 100 manns lagt inn pening en hann óskaði eftir fjárhagsaðstoð frá lesendum sínum á moggabloggi sínu.
Ástæðan fyrir fjárhagsvandræðum hans er sú að hann var nýlega dæmdur til að greiða blaðamönnum Heimildarinnar tvær og hálfa milljón króna vegna meiðyrða sem hann skrifaði á bloggi sínu. Nú virðist sem fjáröflunin sé langt á veg komið en hann þakkaði lesendum sínum fyrir stuðninginn á síðu sinni.
Færsluna má lesa hér:
“Tilfallandi bloggari stendur í þakkarskuld við lesendur. Fyrir viku skrifaði hann blogg í tilefni af dómi héraðsdóms Reykjavíkur að bloggari skyldi greiða tveim blaðamönnum Heimildarinnar 2,5 milljónir fyrir að skrifa um byrlunar- og símastuldsmál Páls skipstjóra og aðild RSK-miðla.
Nokkrir lesendur höfðu haft samband og óskað eftir að styðja bloggara að áfrýja dómi héraðsdóms. Af því tilefni var opnaður fjárvörslureikningur hjá KRST lögmönnum til að þangað mætti beina fjárstuðningi.
Undirtektirnar voru slíkar að það söfnuðust tveir þriðju fjárhæðarinnar sem bloggari stendur frammi fyrir að greiða. Tæplega hundrað manns lögðu sitt af mörkum.
Launamanni er dýrt spaug að andæfa RSK-miðlum og meðhlaupurum þeirra. En þegar lesendur leggjast jafn kröftuglega á árarnar og raun ber vitni er ekki um annað að ræða en að halda áfram siglingunni þótt gefi á bátinn.
Kærar þakkir fyrir stuðninginn. Hann er ómetanlegur.”