Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Pálmatré í Vogahverfi fær grænt ljós – trjánum fækkað úr tveimur í eitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að láta verða af því að flytja pálmatré til landsins og setja það upp sem útilistaverk í nýrri Vogabyggð. Tréð verður eitt, en upprunalega áttu þau að vera tvö talsins. Þessu greindi Morgunblaðið frá í gær.

Málið komst í hámæli á sínum tíma, eftir að þýski listamaðurinn Karin Sander bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð, en niðurstaða dómnefndar keppninnar var kynnt á Kjarvalsstöðum þann 29. janúar árið 2019.

Listaverkið er hannað með það í huga að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum, turnlaga gróðurhúsum og frá þeim stafi ljósi og hlýju.

Þegar listaverkið var kynnt árið 2019 vakti það mikið umtal og ýmsir voru mótfallnir því að flytja pálmatré í aðstæður þar sem það myndi mögulega ekki lifa af – enda ljóst að íslenskt veðurfar og birtustig eru ekki kjöraðstæður fyrir hitabeltisplöntur.

Það var hins vegar útskýrt að inni í gróðurhúsaturnunum yrði hiti, ljós og raki í því magni sem trén þyrftu. Þá var farið að rökræða orkukostnað borgarinnar við að halda lífi í tveimur pálmatrjám, sem og verðið á gróðurhúsunum sjálfum. Kostnaðurinn við listaverkið átti að vera um 140 milljónir króna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins settu sig upp á móti verkefninu og vildu að áformin yrðu endurskoðuð.

Árið 2020 var ákveðið að fram færi raunhæfismat á tillögunni. Nú liggur niðurstaða matsnefndar fyrir: hægt er að rækta pálmatré við þær aðstæður sem ríkja í Vogabyggð.

- Auglýsing -

„Ljóst er þó að raunhæfismatið sem fylgdi tillögunni er of lágt, en uppfært kostnaðarmat er enn í skoðun og í samráði við höfund verksins er tillagan sú að vera með eitt tré á torginu í stað tveggja,“ segir Huld Ingimarsdóttir, skrifstofustjóri fjármála og hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Því er reiknað með að kostnaður við listaverkið verði lægri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins og garðyrkjufræðingur, er á meðal þeirra sem gagnrýna áformin.

- Auglýsing -

Árið 2020 sagði Vigdís að listaverkið væri algjört flopp og á pari við dönsku braggastráin og grjóthrúgurnar úti á Granda. Hún spurði hvers vegna dómnefndin hafi valið listaverk sem þyrfti að fara í raunhæfismat.

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði það ótækt að verja ætti tífaldri þeirri upphæð sem Reykjavíkurborg ver árlega til listaverkakaupa, í eitt verk.

Þess ber þó að geta að kostnaður við listaverkin mun vera borgaður til hálfs af borginni. Hinn helmingurinn verður greiddur af lóðareigendum.

Það eru ekki pálmatrén sjálf, sem nú er orðið aðeins eitt, sem bera svona háan verðmiða. Það er aðallega gróðurhúsið, glerkúpullinn og það sem honum fylgir, sem gerir listaverkið jafn dýrt og raun ber vitni.

Þess ber að geta að engir garðyrkjufræðingar voru í nefndinni sem valdi listaverkið á sínum tíma. Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur sagði stuttu eftir að listaverkið var kynnt að ýmis tormerki væru á ræktun hárra pálma af suðrænum uppruna í glerhólkum í Vogabyggð.

Hún sagði hávaxna pálma vera hitakæra og að það geti verið snúið að halda hita- og rakastigi réttu inni í svona litlu rými allt árið, við íslenskar veðuraðstæður.

„Þarna þyrfti að setja mik­inn hita inn í til­tölu­lega lítið loft­rými til að vega á móti vindá­hrif­um, kulda og frosti fyr­ir utan. Mik­ill hiti kall­ar jafn­framt á að plönt­urn­ar hafi greiðan aðgang að vatni og við hátt raka­stig mynd­ast móða inni á gler­inu og nauðsyn­legt að bregðast við því.

Af mynd­um að dæma eru turn­arn­ir líka það háir að það er spurn­ing hvernig þeir stand­ast veður­ham­inn í Voga­hverf­inu. Svo þarf að huga að lýs­ingu fyr­ir plönt­urn­ar því mikið myrk­ur yfir há­vet­ur­inn er ekki draumastaða fyr­ir plönt­urn­ar,“ sagði Guðríður í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma.

Guðríður sagði að ef ráðist yrði í verkefnið yrði það flókið í framkvæmd og hún velti sömuleiðis fyrir sér kostnaðinum við umhirðuna og viðhaldið.

Nú virðist hins vegar búið að skera úr um að verkefnið sé raunhæft og þar með gefa því grænt ljós. Vogabyggð kemur því til með að skarta pálmatré í glerkúpli þegar fram líða stundir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -