Fimmtudagur 22. september, 2022
7.8 C
Reykjavik

Pourquoi Pas? strandar á skeri með 34 innanborðs – Aðeins einn lifði

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þann 16. september árið 1936 sigldi hið fræga hafrannsóknarskip Pourquoi Pas? sína hinstu för. Hið franska skip hins heimsþekkta vísindamanns, Jean Charcot, kom til landsins frá Grænlandi vegna lítilsháttar bilunar á katlinum. Eftir viðgerð lagði skipið af stað undan ströndum Íslands en sigla átti því til Kaupmannahafnar. Skipið komst þó ekki langt frá landi en það strandaði á skerinu Hnokka út frá Straumsfirði á Mýrum. Allir skipverjar Pourquoi Pas? létu lífið í hinni votu gröf, allir nema einn skipverji. Á Íslandi ríkti hálfgerð þjóðarsorg þegar fregnir bárust af mannskaðanum enda Íslendingar búnir að taka ástfóstri við Charcot og skiptið hans Pourquoi Pas?.

Dr. Jean Charcot

Morgunblaðið skrifaði viðamikla grein um strandið daginn eftir, þann 17. september 1936. 

CHARCOT-SLYSIÐ
Hafrannsóknaskipið Pourquoi pas? Strandar.

33 menn farast.

Einn maður bjargast í land í fleka. 30 lík hafa þegar fundist

ÞRJÁTÍU og þrír menn fórust, er franska hafrannsóknaskipið ,Pourquoi pas?‘ strandaði í gærmorgun á skerinu Hnokka út frá Straumfirði á Mýrum. Fórst öll áhöfn skipsins að undanteknum einum manni, þar á meðal hinn heimskunni vísindamaður dr. Jean Charcot, sem um mörg ár sigldi skipi þessu í rannsóknarleiðangra um Suður- og Norðurhöf.

Skipið fór hjeðan að aflíðandi hádegi á þriðjudag og var á leið til Kaupmannahafnar. Eftir því, sem næst verður komist, m. a. af frásögn hins eina skipverja, sem komst lífs af, hefir skipið verið komið vestur fyrir Garðskaga, þegar ofviðrið skall á. Þar mun það hafa snúið við, til þess að leita lægis undan veðrinu.

En klukkan 5:30 á miðvikudagsmorgun rakst skipið á skerið. Kom strax leki að því, og vatn í vjelarúm, svo ketilsprenging varð, og skipið því alveg bjargarlaust. Reynt var að koma björgunarbátum á flot, en það tókst ekki, m. a vegna þess, að sjór gekk yfir skipið. Skipverjar tóku allir björgunarbelti, en gátu að öðru leyti enga björg sjer veitt. Segir sá, sem lífs komst af, að öldurnar hafi smátt og smátt skolað skipverjum fyrir borð, eftir því sem skipið brotnaði meira og meira í hafrótinu, og skipverjar þrutu að úrræðum og kröftum.

Björgun, sem er kraftaverki næst.
En sá eini maður, sem lífs komst af, heitir Eugene Gouidec. Hann var bátsmaður á skipinu. Hann hafði farið af verði kl. 4 um nóttina og var í rúmi sínu þegar skipið strandaði. Skerið Hnokki er tíma róður frá ströndinni. Skipverji þessi náði í landgöngubrú, er flaut frá skipinu og komst á henni nálægt landi. En síðasta spölinn að landi syntí hann gegn um brimgarðinn. — Þykja mikil undur að hann skyldi komast það lifandi, því klettaurð er þar, sem hann tók land.


Sjest til hins strandaða skips.
Þegar birti af degi í gærmorgun sáu menn frá bæjum í Straumfirði og Álftanesi til hins strandaða skips. Svo mikið særok var og öldurót að vart sáust þá nema siglutrje skipsins, þó urðu borin kensl á hvaða skip þetta væri. Sími er á bæjum þessum. Var Slysavarnafjelaginu strax gert aðvart, og símasamband náðist hingað til Reykjavíkur. Ægir var hjer á höfninni. — Hann var strax búinn til ferðar á strandstaðinn. Vjelbáturinn Ægir af Akranesi var og sendur þaðan til þess, ef vera kynni að hann gæti komist í nánd við hið strandaða skip.


Danska varðskipið ,,Hvidbjörnen“ var í Hvalfirði, og var hann sendur á strandstaðinn. En þegar þessi hjálp kom á strandstaðinn, var alt um seinan — enda ekki hægt að vita hvort nokkurri björg hefði orðið við komið þó fyr hefði verið hægt að koma þangað. Varðskipin Ægir og Hvidbjörnen komust ekki lengrá en að Þormóðsskeri. Tveir menn af Ægi fóru í vjelbátinn og tóku þeir með sjer línubyssu. Um hádegisbil, eða nokkru síðar, tókst vjelbátnum Ægi að komast alveg að skipsflakinu. Þá var aðeins eitt siglutrjeð uppi, en hin tvö voru brotin. Gengu bátverjar alveg úr skugga um, að enginn var þá lifandi á flakinu. En þó þarna sje mjög skerjótt gat vjelbáturinn farið allra sinna ferða innan um flúðir og sker. Þegar bátsmenn höfðu athugað flakið tóku þeir til að leita uppi lík skipverja, er flutu sum þarna nálægt. Unnu þeir að því fram eftir degi. í gærkvöldi, er blaðið frjetti síðast, voru alls fundin 30 lík, sem höfðu rekið eða höfðu fundist á reki. Öll voru líkin með björgunarbeltum.

Líðan þess, sem lifði.
Það var kl. 10 í gærmorgun, sem þessi eini skipverji af Pourquoi pas? komst í land skamt frá Straumfirði. Menn voru þar í fjörunni til þess að hjálpa honum og leiddu hann heim til bæjarins. Þar fekk hann heitt kaffi og var hjúkrað. Fjell hann brátt í djúpan svefn -— en var hress og ferðafær, er hann hafði fengið þá hvíld. Það, sem bagaði hann helst var að, að hann hafði fengið svo mikla sjávarseltu í augun, að hann var nærri sjónlaus.

Getgáta um hafvillu.
Eins og fyr er sagt, hafði skipið snúið við undan veðrinu. En hvernig stóð þá á því, að það komst á þessar slóðir? Skipstjóri vap á stjórnpalli er, skipið strandaði. Hafði hann vilst? Eða hafði hann mist stjórn á skipi sínu? Sennilegra er hitt, og mun bátsmaðurinn máske geta sagt eitthvað um það. En getgátur eru meðal farmanna um það, að skipið hafi ekki áttað sig rjett á vitum, og tekið Akranessvitann fyrir Gróttuvita, og skipsmenn þannig ekki vitað hvar þeir fóru.

Hve margir fórust?
Eftir þeim upplýsingum, er ræðismaður Frakka hjer í bænum gaf í gærkvöldi, voru skipverjar alls 34, og hafa 33 því druknað þarna. Missagnir komu á gang um þetta í gær, er stöfuðu af því að á ræðismannsskrifstofunni var ekki til skrá yfir skipverja, og bárust ágiskanir um þetta fjarri lagi, að þarna hefðu verið um 60 manns. En að athuguðu máli kom það í ljós, að þarna hafa farist færri en ætlað var í upphafi.

- Auglýsing -

Ferðir Pourquoi pas?
Pourquoi pas? kom hingað fyrir einum 10 dögum síðan frá Grænlandi. Hafði skipið fengið vjelabilun, og var „Hvidbjörnen“ fenginn til þess að koma með það hingað. Átti að fara fram á því lítilsháttar viðgerð á katlinum, og búist við að hún tæki ekki nema 2—3 daga.
En þegar þessari viðgerð var lokið, reyndist það svo, að frekari aðgerða var þörf. Var það Stálsmiðjan, sem annaðist viðgerðir þessar. Var ketillinn prófaður mjög rækilega hjer, áður en skipið lagði úr höfn ög reyndist full-öruggur. Dr. Charcot ætlaði hjeðan til Kaupmannahafnar. — Hafði ,Landfræðifjelagið danska boðið honum þangað til þess að ,hann hjeldi þar fyrirlestur um rannsóknir sínar og vísindastörf. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -