Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Prestur sækir rétt sinn gagnvart biskupi Íslands

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef falið lögmönnum að sækja rétt minn gagnvart biskupi,“ segir séra Skírnir Garðarsson, sem nýverið var rekinn úr embætti héraðsprests á Suðurlandi. Hann segist ekki vilja tjá sig frekar um brottrekstur sinn en hann hefur verið gerður útlægur frá Þjóðkirkjunni og má ekki vinna nein prestsverk í hennar nafni.

Agnesi Sigurðardóttur, biskupi Íslands, hefur verið sent bréf frá lögmanni séra Skírnis, Sigurði Kára Kristjánssyni hæstarréttarlögmanni, þar sem þess er krafist að biskupinn dragi yfirlýsingar sínar til baka hvað varðar þjónustulok prestsins og að honum verði heimilað að snúa aftur í embætti sitt fyrir kirkjuna. Biskup hefur viku til að svara séra Skírni sem mun fara fram á miska- og skaðabætur frá kirkjunni verði ekki orðið við kröfunum.

Ekki rekinn, segir biskup

Agnes staðfesti þjónustulok prestsins fyrir kirkjuna í nýlegri yfirlýsingu og segir þar ástæðuna vera brot á trúnaðarskyldu. Hún segir það hins vegar misskilning í fjölmiðlaumfjöllun að presturinn hafi verið rekinn því réttindi séra Skírnis verði að öllu virt samkvæmt ráðningarsamningi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Mannlífs þá neitar Agnes viðtali og vísar í áðurnefnda yfirlýsingu sína. Þá sömu yfirlýsingu og nú er krafist að hún dragi til baka. Séra Skírnir er í veikindaleyfi þessa dagana og vill ekki láta hafa neitt eftir sér um stöðu mála, annað en staðfestingu þess efnis að ætla nú að sækja rétt sinn gagnvart Agnesi biskup.

Í annað sinn

Líkt og Mannlíf hefur áður greint frá er þetta í annað sinn sem séra Skírnir hrökklast úr embætti sínu fyrir Biskupsstofu en í báðum tilvikum hafnar Agnes því að hafa rekið hann. Hvorki nú sem héraðsprest né áður sem sóknarprest í Lágafellssókn. Í viðtali við Stundina á sínum tíma fullyrti séra Skírnir hins vegar að biskup hafi sett honum afarkosti, annaðhvort yrði hann fluttur eða rekinn. „Biskup setti mér þá kosti að skrifa undir eða að ég yrði færður til með handafli. Eftir nokkra fundi skrifaði ég nauðugur undir. En ég var bugaður og lét undan ítrekuðum þrýstingi, símtölum og tölvupóstum frá Biskupsstofu. Það var svo harkalega að þessu staðið að ég fékk ekki einu sinni að kveðja söfnuð minn,“ sagði Skírnir við Stundina árið 2018. Í yfirlýsingu biskups segir Agnes þetta vera misskilning og segir prestinn hafa sjálfan óskað eftir flutningi í starfi.

- Auglýsing -

Engin svör

Samkvæmt lögum má ekki reka prest nema að undangenginni skriflegri áminningu. Það var ekki gert í tilfelli séra Skírnis en biskup hefur talið það óþarfa þar sem ekki væri verið að reka prestinn. Mannlíf hefur ítrekað óskað svara hjá Biskupsstofu og spurt þar meðal annars hvort ekki hafi komið til greina að framlengja andmælafrest séra Skírnis í ljósi þess að presturinn væri í veikindaleyfi. Biskup hefur engu svarað og þar liggja nokkrar ósvaraðar spurningar sem bíða svara.

Agnes Sigurðardóttur, biskup Íslands

Spurningar Mannlífs til Agnesar Sigurðardóttur, biskups Íslands:

- Auglýsing -

1) Gildir ekki lengur um presta það ákvæði laga um opinbera starfsmenn sem veitir þeim rétt til andmæla, og skriflegrar áminningar áður en til uppsagnar kemur?

Sjá grein 21: https://www.althingi.is/lagas/150a/1996070.html

2) Ef þið teljið ákvæðið enn gilda um presta, hvers vegna var Skírni Garðarssyni ekki veitt skrifleg áminning í þessu tilviki?

3) Kom ekki til greina af hálfu Biskupsstofu að fresta andmælarétti Skírnis Garðarssonar og ákvörðun ykkar fram yfir það tímabil sem viðkomandi hafði sýnt fram á veikindi sín?

4) Hvernig ætlið þið að mæta kröfum séra Skírnis Garðarssonar sem nú hafa verið sendar Biskupsstofu?

Sagt hefur verið frá því að tölvupóstum séra Skírnis Garðarssonar hafi verið lekið til Biskupsstofu er hann starfaði sem sóknarprestur í Lágafellssókn. Eftir því sem Mannlíf kemst næst úrskurðaði nefnd innan Þjóðkirkjunnar í þá veru að brotið hafi verið gegn Skírni og í úrskurði Persónuverndar frá 24.10.2017 er það einnig staðfest að áframsending tölvupósta Skírnis hafi verið ólögmæt.

5) Ætlar biskup að beita sér gagnvart því að brotið hafi verið á séra Skírni Garðarssyni er hann starfaði sem sóknarprestur í Lágafellssókn, eins og úrskurðirnir sýna?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -