Fimmtudagur 28. mars, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Rakel kaupir helst ekki húsgögn: „Lesstólinn í stofunni notaði langafi minn við miðilsstörf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rakel Garðarsdóttir er framleiðandi hjá leikhópnum Vesturport, aktívisti og stofnandi og framkvæmdastýra samtakanna Vakandi. Vakandi eru samtök sem vinna ötult að vitundavakningu um sóun matvæla. Rakel er sömuleiðis stofnandi og eigandi húðvörumerkisins Verandi. Verandi framleiðir hágæða húð- og hárvörur, en til framleiðslunnar endurvinnur og endurnýtir fyrirtækið hráefni sem falla til við aðra framleiðslu, sem annars yrði hent. Fyrirtækið notar einungis hráefni sem eru skaðlaus umhverfinu og líkamanum við framleiðslu vara sinna og leggur sitt á vogarskálarnar við að sporna gegn offramleiðslu og sóun.

Rakel er Neytandi vikunnar í helgarblaði Mannlífs.

Hvar kaupir þú eða fjölskylda þín helst inn mat og rekstrarvörur til heimilisins og hversu hár er sá kostnaður að jafnaði á mánuði?

Við verslum til skiptis í þessum helstu verslunum: Bónus, Nettó og Krónunni. Kjöt kaupum við alltaf í Kjöthöllinni og fiskinn hjá Fúsa. Það er mismunandi hverju við erum að eyða – en það er alltof mikið, þar sem matvöruverð á Íslandi er fáránlega hátt.

Hvaða aðferðum beitir þú til að nýta mat sem best?

Við reynum að kaupa inn bara það sem okkur vantar og það sem við ætlum að borða. Svo erum við dugleg að nýta afganga, t.d daginn eftir í hádegsmat eða í kvöldmat. Ég elska súpur og þar er alveg fullkomið að henda allskyns grænmeti sem er kannski farið að slappast í þær. Svo frysti ég nánast allt og reyni að vera dugleg að muna eftir því.

- Auglýsing -

Hvert er þitt helsta sparnaðarráð?

Að reyna að forðast freistingar.

Er allt rusl flokkað heima hjá þér? Ef svo er, hvaða verklag hefur reynst þér eða fjölskyldu þinni best til að tryggja að allt rusl sé flokkað?

- Auglýsing -

Já ég flokka allt – blöð, plast, gler, kerti og svo framvegis. Ég fer framhjá grenndargámi á hverjum degi og kippi með mér í hann því sem þangað á að skila. Í vinnunni minni eru svo tunnur fyrir batterí og perur sem ég nota líka, dósirnar fara í Skátana og það tau sem ekki fær framhaldslíf hjá vinum og vandamönnum fer í Rauða krossinn.

Hvaða hreinsiefni eru notuð heima hjá þér?

Ég nota bara efni sem eru ekki skaðleg heilsu manna og umhverfinu – vel þau mjög vandlega og vel og reyni að nota sem allra minnst af þeim.

Kaupir þú helst ný eða notuð húsgögn?

Það fer eftir hvað það er. Ég kaupi nú afar sjaldan húsgöng – en sófa og rúm hef ég keypt nýtt. Öðru er svona safnað héðan og þaðan. Borðstofustólarnir eru úr leikmynd Vesturports, stofuborðið var í geymslu hjá vinum okkar og við pússuðum það upp, lesstóllinn í stofunni er stóll sem langafi minn notaði við miðilsstörf og við létum bólstra upp á nýtt – þannig að þetta er svona allskyns bland.

Átt þú bíl? Hve miklu eyðir þú að jafnaði í samgöngur á mánuði?

Við eigum svona bíl sem keyrir á rafmagni og bensíni – þannig að dagsdaglega erum við bara á rafmagninu en ef við förum lengri leiðir þá er það því miður bensín… dreymir um að fá mér Teslu sem er alfarið á rafmagni.

Leggur þú fyrir? Ef svo er, í hvaða formi er sparnaðurinn?

Nei, ég legg ekki fyrir. Ætti líklegast að gera það.

Hvernig finnst þér verðlag á Íslandi?

Það er fáránlega dýrt – það er allt rosalega dýrt hér, sem er miður.

Ert þú með fasteignalán? En önnur lán?

Já, er með fasteignalán – engin önnur.

Hvaða breytingu myndir þú vilja sjá sem neytandi?

Ég myndi vilja sjá mun lægra vöruverð og mun meira af íslenskum matvælum. Svo finnst mér að það ættu að vera mun strangari reglur með merkingar á vörum sem eru skaðlegar fyrir okkur og umhverfið – og helst bara ekki sjá þær vörur í íslenskum verslunum.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?

Hvet alla til að vera meðvitaðir neytendur og deila með okkur í Vakandi á feisbókinni hugmyndum og ráðum um það hvernig við getum nýtt matinn okkar betur og dregið úr sóun.

 

Smelltu hér til að lesa allt um málið í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -