Mánudagur 27. mars, 2023
-0.2 C
Reykjavik

Rannveig á að eiga á Akureyri í sumar en fær ekki inn á sjúkrahótelum: „Ég er svo reið og sár“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Svo virðist sem rammasamningur Sjúkatrygginga Íslands um gistiþjónustu fyrir fólk sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu á Akureyri, skyldi sjúkrahótel ekki til að eiga laus herbergi en á háannatímum er ómögulegt að fá gistingu.

Kona frá Egilsstöðum, sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu á Akureyri þegar hún fæðir barn sitt í sumar, fær ekki inn á Hótel Akureyri, sem Sjúkratryggin Íslands er með samning við, vegna plássleysis. Ferðamenn ganga fyrir. Konan, Rannveig Lóa Haraldsdóttir skrifaði færslu þar sem hún segir frá málinu en hún gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta hana í heild sinni.

„Hversu magnað er sjúkratryggingakerfi Íslands. Svo magnað að eini rammasamningurinn um gistiþjónustu fyrir fólk sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu á Akureyri er gerður við Hótel Akureyri sem neitar sjúklingum um þjónustu og veitir ferðamönnum forgang.

Nú þarf ég á Akureyri að bíða eftir að fæða barnið mitt. Þetta er mitt fyrsta barn og ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær hann ákveður að frumsýna sig. Þar að leiðandi mælir ljósmóðir með að ég fari eitthvað fyrir settan dag norður og bóki mér gistingu í gegnum sjúkrahótelið sem er þar. Ég hef verið á biðlista eftir íbúð hjá afl stéttarfélagi síðan í byrjun Maí og er í forgangi ef einhver afbókar en þar bókast allt mjög hratt og vel setið um þær íbúðir. (Hef bara fengið æðislega þjónustu hjá Afl og er ekki að setja út á þá)

Hótel akureyri gefur sig út fyrir að vera með samning við SÍ og hefur auglýst sig sem sjúkrahótel í dagskránni, á síðu SAK og á fleiri stöðum. Við hringdum þangað og staðfestum að ég væri með þá pappíra sem þarf til að eiga rétt á gistingu, fengum strax þau svör að það væri nú ómögulegt að fá gistingu án þess að þau þyrftu að færa til marga gesti og þetta yrði svakalega mikið vesen. Gott og blessað þau mega færa alla gestina mín vegna. Þau sögðu að þau þyrftu að fá þessar upplýsingar í emaili og eg fengi svör bráðlega. Ég sendi email og fékk engin svör.

Ég hringdi því áðan og fékk að tala við einhvern yfirmann sem mér skilst að sé hótelstjórinn sem sagði að þau gætu boðið mér eina nótt, 12-13 ágúst. Þau væru ekki „sjúkrahótel“ og ég gæti ekki ætlast til að fá gistingu á háannatíma ferðamanna. Eftir því sem hún ræddi lengur við mig varð hún svo ákveðnari í að ekkert væri i boði og ég ætti að leita annað, þau gætu ekkert fyrir mig gert. Ég fékk engin svör varðandi hvort það væri ekki gert ráð fyrir að þjónusta sjúklinga á sumrin þrátt fyrir ferðamenn, fyrst þau eru með þennan samning né neinar lausnir. Það eina sem ég fékk var stælar og dónaskapur.
Ég er svo reið og sár yfir þessari framkomu og hneyksluð á því að ekki séu til nein úrræði. Þetta hótel sem sérstaklega auglýsir sig sem sjúkrahótel er svo peningagráðugt. Ég á ekki til orð!

Ég veit að það er mjög óhentugt fyrir gististaði að þurfa hýsa gesti í viku eða tvær samfleytt, en ég er ekki í neinu líkamlegu ástandi til að geta staðið í því að flakka á milli gististaða milli daga í allt að 3 vikur ef ég geng framyfir settan dag.“

Ekki sjúkrahótel

- Auglýsing -

Mannlíf hringdi á Hótel Akureyri, sem á heimasíðu Sjúkrahússins á Akureyri er flokkað sem sjúkrahótel og talaði við Þuríði Þórðardóttur, sem er einn af eigendum hótelsins og spurði hana út í málið. Vildi hún meina að hótelið væri ekki eiginlegt sjúkrahótel, líkt og þekkist í Reykjavík.

„Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara þessu, við reynum alltaf að taka við þeim sem við mögulega getum, ef eitthvað er laust. Það var ung kona sem hringdi og ætlaði að vera í tvær vikur en það eru bara svo margir dagar inn í þessu sem ég á ekki til. Þetta er ekki sjúkrahótel hjá okkur en við erum með þannig samning við Sjúkratryggingar Íslands að við tökum við fólki sem þarf að fara á spítala. Þá virkar það þannig að það borgar eitthvað minna fyrir nóttina og Sjúkratryggingar borga restina. Og þetta hefur yfirleitt alltaf verið þannig að við höfum getað tekið á móti fólki þó alltaf getið eitthvað komið upp á,“ sagði Þuríður og bætti við að Sjúkrahúsið á Akureyri ætti íbúðir sem fólk getur fengið og að hún hefði verið búin að athuga það hvort það væri ekki möguleiki að koma konunni inn þar en það sé fullbókað.

„Samkvæmt þessum samningi ber mér ekki skylda til að hafa laus herbergi til reiðu en auðvitað eru allir hálf laskaðir eftir þessa tveggja ára krísu en auðvitað tökum við sjúkratryggingarnar ef við eigum laust. Ef það væri ákvæði í samningnum sem segði að við yrðum að halda aftur sex herbergjum fyrir fólk sem þyrfti á því að halda, þá væri þetta auðvitað allt annað mál en við erum bara lítið fjölskyldufyrirtæki, það er ég, gamla mamman, sonur minn og tengdadóttir sem erum að lemjast áfram, það er bara þannig,“ sagði Þuríður og tók undir með blaðamanni að vandamálið væri til staðar og að betra væri ef Sjúkratryggingarnar tryggðu betur gistiaðstöðu fyrir fólk sem þyrfti á heilbrigðisþjónustu að halda. „Ég er hjartanlega sammála því af því að það væri eðlilegra ef gerðar væru aðrar ráðstafanir og það þyrfti í rauninni því þetta er svo stór partur af landinu.“

- Auglýsing -

Mannlíf reyndi að heyra í Sjúkratryggingum Íslands við gerð fréttarinnar en búið var að loka stofnuninni í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -